Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Markviss góðverk

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hefur þú einhvern tímann íhugað hvernig þú getur byggt upp líf annarra? Ég hugsa að fæstir hafi gert þetta markvisst og þar til fyrir nokkrum árum hafði ég ekki gert þetta. Núna verð ég hins vegar spennt þegar ég markvisst hugsa um og ræði um leiðir til að hjálpa öðrum. Það verður enginn umbreyting í kærleika ef við erum ekki markvisst að hjálpa öðrum. Við þurfum að hafa markmið og sækjast ákveðið eftir þeim.

Markviss góðverk

Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika. 1Jóh 3:18

Kærleikur er ekki kenning eða innantóm orð heldur verk. Vissulega getum við elskað fólk með orðum sem uppörva og tjá virði en við þurfum líka að nota tíma okkar, orku, eignir og fjármuni til að elska aðra.

Þú hefur e.t.v. sannfært sjálfa(n) þig um að þú hafir ekkert til að gefa. E.t.v. ertu skuldug(ur) upp fyrir haus, gerir þitt besta til að borga reikninga en sú hugsun að gefa fjármuni er nánast pirrandi eða gerir þig dapra(n) því þú vilt gefa en sérð enga leið til þess. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru þúsundir leiða fyrir þig að gefa og breiða út kærleika ef þú ert tilbúin(n) að leita þeirra markvisst og af ákafa.

Ég hef lesið bækur, leitað á netinu og verið afar marksækin á minni eigin vegferð í því að finna skapandi leiðir til að útfæra þemað að elska fólk í mínu daglega lífi. Ég ætla að segja frá einhverju af því sem ég hef lært en einnig hvetja þig til að vera skapandi sjálf(ur) og svo deila hugmyndum þínum með öðrum.

Praktískar leiðir til að elska markvisst:

  1. Þegar það er augljóst að einhver annar vill sama bílastæði og þú þá gefðu það eftir með brosi á vör.
  2. Sláðu grasið eða mokaðu snjó fyrir eldri borgara.
  3. Þrífðu hús eldri borgara eða bjóddu þeim að kaupa í matinn fyrir þau.
  4. Bjóddu þeim far sem er bíllaus, annað hvort í kirkju eða á annan viðburð, jafnvel þó þetta sé úr leið fyrir þig.
  5. Hlustaðu af athygli á aðra manneskju án truflunar.
  6. Vertu kurteis í umferðinni.
  7. Haltu dyrunum opnum fyrir ókunnugum og leyfðu þeim að fara á undan þér.

Einatt leita ég að fólki sem virðist vera niðurdregið og gef þeim eitthvað sem hefur virði ásamt skilaboðunum: „Guð elskar þig.” Oft segi ég ekkert um Guð heldur sýni einfaldlega hver hann er í verki.

Eitt sinn sá ég unga konu í pásu á vinnustað sínum. Hún sat ein við borð og virtist afar þreytt. Ég rétti henni 5000 kr. seðil og sagði, „Ég vil bara blessa þig. Ég þori að veðja að þú leggur hart að þér og vil að þú vitir að ég kann að meta það.” Hún var hissa og sagði svo, „Þetta er það vingjarnlegasta sem önnur manneskja hefur nokkurn tímann gert fyrir mig.”

Ég hugsa að við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu margt fólk gengur um á meðal okkar dags daglega og upplifir einmanaleika, lítið virði og upplifir lítið sem ekkert af skilyrðislausum kærleika. Fólk hefur ekki vanist því að fá nokkuð „ókeypis” eða taka við einhverju sem þeim finnst þau ekki skilið eða hafa ekki unnið fyrir. Ég álít að góðverk í þeim eina tilgangi að blessa fólk sé frábær leið til að sýna kærleika Guðs.

Upphaflega birt sem Purposeful Acts of Kindness Höfundur: Joyce Meyer. Þýtt, stytt og aðlagað: Ágúst Valgarð Ólafsson

Jóhannes Hinriksson predikaði m.a. um mikilvægi þess að „Gerðu fyrir einn það sem þú vilt gera fyrir alla.” á samkomu 18.des.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hvað finnst þér um þá hugmynd að vera marksækinn í því að gera góðverk eins og lýst er hér fyrir ofan?
  2. Hvaða áhrif hefði það á þitt líf að framkvæma eitthvað af því sem er lýst í listanum hér fyrir ofan eða annað svipað?
  3. Lestu 1Jóh 3:11-24 Skrifaðu niður hjá sjálfum þér og/eða ræddu í heimahópnum þínum 2-4 atriði sem þú tekur eftir í þessum versum.
  4. Lestu Mat 25:40-45 Er eitthvað eitt sem þú getur gert í dag/á morgun til að einfaldlega framkvæma það sem Jesú segir?

Trú í ómögulegum aðstæðum

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Trú í ómögulegum aðstæðum

Margt fólk á öllum tímum hefur spurt sig þessarar spurningar: Hvernig get ég brugðist við erfiðum aðstæðum þannig að það gleðji Guði og heiðri hann? Konan sem snerti Jesú og sagt er frá í Mark 5:24-35 er gott dæmi. Skoðum hvað þessi frásögn kennir okkur um trú.

Í fyrsta lagi sjáum við að trúin færir okkur til Jesú þegar við höfum tæmt okkur sjálf. Konan hafði þjáðst í 12 löng ár, reynt allt og eytt til þess öllum sínum fjármunum. Hún var algjörlega tæmd af nokkru því sem hún á eigin spýtur gat gert til að verða heilbrigð. Hvað með þig? Hefur þú komið til Guðs og viðurkennt eigið ráðaleysi og að án hans getir þú ekki bjargað sjálfum þér? Eða ertu ennþá sannfærð(ur) um að þú getir lagfært þín eigin vandamál sjálf(ur) og án Guðs?

Annað sem konan í Mark 5 kennir okkur um trú er að trúin fær okkur til að framkvæma og leita Jesú alla leið. Sýnir þú í verki að þú trúir því að Jesú sé megnugur að hjálpa þér? Sést það á verkum þínum að þú sért að leita Jesú til að finna hans eins og þessi kona fór til Jesú í mannfjöldanum, vegna þess að hún var sannfærð um að hún myndi læknast með því að snerta hann?

Í þriðja lagi leiðir trú til hlýðni. Jesú spyr í Mark 5:30: Hver snerti klæði mín? Eflaust vildi konan alls ekki láta mannfjöldann sjá sig, en hún hlýðir Jesú, kemur fram og segir honum allt saman (Mar 5:33). Trú hlýðir. Hvað hefur Guð sagt þér að gera? Stundum viljum við orð frá Guði en höfum allan tíma ekki einu sinni framkvæmt það sem hann hefur þegar sagt okkur að gera. Trú er meira en sannfæring. Trú er hlýðni.

Sá sem veit að hann er ófær um að bjarga sér sjálfur, framkvæmir trú sína og hlýðir fær viðbrögð eins og þau sem Jesú veitti konunni: Jesús sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.” (Mar 5:34) Jesús var ánægður með hana og hrósar henni fyrir trú.

Höfundur Sandra Glahn. Þýtt, stytt og endursagt af Ágústi Valgarð Ólafssyni héðan

P.s. Ef þig skortir trú, lestu þá pistilinn Velgengni byrjar með því að hlusta og heyra.

Hinrik Þorsteinsson predikaði 11.des 2016 um fyrirætlanir Guðs og hvernig Guð getur notað venjulegt fólk eins og mig og þig.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hefur þú eða ert þú að takast á við ómögulegar aðstæður? Þ.e.a.s. aðstæður sem þú getur ekki leyst á eigin spýtur, rétt eins og konan með blóðlátið? Hvernig bregst þú yfirleitt við slíkum aðstæðum?
  2. Er munur á trú í orði og trú í verki (sjá Jak 2:17)? Áttu dæmi úr eigin lífi eða úr Biblíunni?
  3. Hvernig hefði frásögnin úr Markúsarguðspjalli hér að ofan getað orðið öðruvísi ef konan hefði ekki komið fram og sagt Jesú allt  (Mar 5:33)?
  4. Ef þú ert í ómögulegum aðstæðum núna, segðu þá traustum vin frá eða deildu því í heimahópnum þínum. Lestu orð Guðs, fáðu fyrirbæn, leitaðu Guðs, framkvæmdu það sem hann hefur sagt eða er að segja. Hvernig getur þú brugðist við aðstæðum þínum svo viðbrögð þín fái Jesú til að segja „Trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og vertu heil(l) meina þinna.''(Mar 5:34)?

Hlusta á kennslu

Ertu púsl eða pappi?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ef við einföldum umræðuna þá eru tvær leiðir til að skilja tilveruna. Annað hvort hefur líf okkar tilgang eða ekki.

Ertu púsl eða pappi?

Tilgangur

Í Efesusbréfinu 2:10, sem Páll postuli skrifaði til hóps af fólki í borginni Efesus árið 62 stendur: Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.

Við erum sköpuð, smíðuð af Guði. Þegar Guð skapar mig og þig þá gerir hann það m.a. til þess að við vinnum þau verk sem hann hefur áætlun um. Guð gefur lífi okkar tilgang, virði og merkingu.

Tilgangsleysi

Hin leiðin til að skilja tilveruna er að hún stjórnist algjörlega og eingöngu af náttúrulögmálunum. Það fær menn eins og Richard Dawkins til að segja: Í heimi elektróna og eigingjarna gena, blindra náttúruafla og gena afritunar, þá meiðist sumt fólk meðan aðrir verða heppnir og þú munt ekki finna neina ástæðu, rytma eða réttlæti í því. Heimurinn sem við skoðum hefur nákvæmlega þá eiginleika sem við myndum búast við ef hann í grunvallaratriðum hefur hvorki hönnun né tilgang, ekkert illt, ekkert gott - ekkert nema miskunnarlaust skeytingarleysi. (River Out of Eden: A Darwinian View of Life)

Jósef

Þegar Jósef var unglingur var hann seldur sem þræll til Egyptalands af bræðrum sínum. Eftir að hafa unnið sem þræll og staðið sig vel var hann ranglega sakaður um nauðgun og hent í fangelsi. Þar fékk hann að dúsa í nokkur ár áður en Faraó, leiðtogi Egypta, kallaði hann fyrir sig og gerði hann að æðsta manni Egyptalands. Jósef sinnti starfi sínu vel og bjargaði þjóðinni undan 7 ára hungursneyð. Síðar komu bræður Jósefs til Egyptalands og þá fór Jósef að íhuga líf sitt. Hann sagði við bræður sína: Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki (1Mós 50:20).

Jósef áttaði sig á því að jafnvel þó að aðrir hefðu gert honum illt þá gat Guð komið sínum áætlunum í framkvæmd, svo lengi sem Jósef hélt áfram að treysta Guði og gera það sem var rétt af trúmennsku, sérstaklega í erfiðum aðstæðum.

Ertu púsl eða pappi?

Er líf okkar pappa bútur sem fyrir einhverja tilviljun fýkur til í rokinu, hingað og þangað, án stefnu eða tilgangs? Eða er líf okkar púsl sem hefur tiltekna lögun og er hluti af stærra samhengi? Púslið passar á tiltekinn stað í mynd Guðs. Púslið hefur tilgang og virði. Líf þitt hefur tilgang og virði.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleika. Smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun tengda efni þessa pistils.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Er erfitt eða auðvelt fyrir þig að trúa því að Guð hafi tilgang og áætlun með þitt líf? Hversvegna?
  2. Lestu Róm 8:28. a) Hverju lofar þetta vers varðandi það hvað verður úr lífi þínu? b) Hvaða áhrif hefur þetta á viðhorf þín til mistaka og erfiðleika í lífi þínu?
  3. Hversvegna gerir Guð lítið af því að útskýra tilgang lífs okkar í smáatriðum?
  4. Hvað er trúmennska og hversvegna er trúmennska eins og Jósef sýndi lykillinn að því að uppgötva tilganginn með lífi okkar?

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi