Markviss góðverk
Hefur þú einhvern tímann íhugað hvernig þú getur byggt upp líf annarra? Ég hugsa að fæstir hafi gert þetta markvisst og þar til fyrir nokkrum árum hafði ég ekki gert þetta. Núna verð ég hins vegar spennt þegar ég markvisst hugsa um og ræði um leiðir til að hjálpa öðrum. Það verður enginn umbreyting í kærleika ef við erum ekki markvisst að hjálpa öðrum. Við þurfum að hafa markmið og sækjast ákveðið eftir þeim.
Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika. 1Jóh 3:18
Kærleikur er ekki kenning eða innantóm orð heldur verk. Vissulega getum við elskað fólk með orðum sem uppörva og tjá virði en við þurfum líka að nota tíma okkar, orku, eignir og fjármuni til að elska aðra.
Þú hefur e.t.v. sannfært sjálfa(n) þig um að þú hafir ekkert til að gefa. E.t.v. ertu skuldug(ur) upp fyrir haus, gerir þitt besta til að borga reikninga en sú hugsun að gefa fjármuni er nánast pirrandi eða gerir þig dapra(n) því þú vilt gefa en sérð enga leið til þess. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru þúsundir leiða fyrir þig að gefa og breiða út kærleika ef þú ert tilbúin(n) að leita þeirra markvisst og af ákafa.
Ég hef lesið bækur, leitað á netinu og verið afar marksækin á minni eigin vegferð í því að finna skapandi leiðir til að útfæra þemað að elska fólk í mínu daglega lífi. Ég ætla að segja frá einhverju af því sem ég hef lært en einnig hvetja þig til að vera skapandi sjálf(ur) og svo deila hugmyndum þínum með öðrum.
Praktískar leiðir til að elska markvisst:
- Þegar það er augljóst að einhver annar vill sama bílastæði og þú þá gefðu það eftir með brosi á vör.
- Sláðu grasið eða mokaðu snjó fyrir eldri borgara.
- Þrífðu hús eldri borgara eða bjóddu þeim að kaupa í matinn fyrir þau.
- Bjóddu þeim far sem er bíllaus, annað hvort í kirkju eða á annan viðburð, jafnvel þó þetta sé úr leið fyrir þig.
- Hlustaðu af athygli á aðra manneskju án truflunar.
- Vertu kurteis í umferðinni.
- Haltu dyrunum opnum fyrir ókunnugum og leyfðu þeim að fara á undan þér.
Einatt leita ég að fólki sem virðist vera niðurdregið og gef þeim eitthvað sem hefur virði ásamt skilaboðunum: „Guð elskar þig.” Oft segi ég ekkert um Guð heldur sýni einfaldlega hver hann er í verki.
Eitt sinn sá ég unga konu í pásu á vinnustað sínum. Hún sat ein við borð og virtist afar þreytt. Ég rétti henni 5000 kr. seðil og sagði, „Ég vil bara blessa þig. Ég þori að veðja að þú leggur hart að þér og vil að þú vitir að ég kann að meta það.” Hún var hissa og sagði svo, „Þetta er það vingjarnlegasta sem önnur manneskja hefur nokkurn tímann gert fyrir mig.”
Ég hugsa að við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu margt fólk gengur um á meðal okkar dags daglega og upplifir einmanaleika, lítið virði og upplifir lítið sem ekkert af skilyrðislausum kærleika. Fólk hefur ekki vanist því að fá nokkuð „ókeypis” eða taka við einhverju sem þeim finnst þau ekki skilið eða hafa ekki unnið fyrir. Ég álít að góðverk í þeim eina tilgangi að blessa fólk sé frábær leið til að sýna kærleika Guðs.
Upphaflega birt sem Purposeful Acts of Kindness Höfundur: Joyce Meyer. Þýtt, stytt og aðlagað: Ágúst Valgarð Ólafsson
Jóhannes Hinriksson predikaði m.a. um mikilvægi þess að „Gerðu fyrir einn það sem þú vilt gera fyrir alla.” á samkomu 18.des.
Til umræðu eða íhugunar
- Hvað finnst þér um þá hugmynd að vera marksækinn í því að gera góðverk eins og lýst er hér fyrir ofan?
- Hvaða áhrif hefði það á þitt líf að framkvæma eitthvað af því sem er lýst í listanum hér fyrir ofan eða annað svipað?
- Lestu 1Jóh 3:11-24 Skrifaðu niður hjá sjálfum þér og/eða ræddu í heimahópnum þínum 2-4 atriði sem þú tekur eftir í þessum versum.
- Lestu Mat 25:40-45 Er eitthvað eitt sem þú getur gert í dag/á morgun til að einfaldlega framkvæma það sem Jesú segir?