Hlustun er hornsteinn samskipta og samskipti eru farvegur kærleikans
Undanfarið hef ég oftar en áður farið með tíkina okkar Aríu, út að ganga á sleppisvæðinu hér á Selfossi. Oft safna ég smásteinum í hendina og hendi þeim svo eftir göngustígnum fyrir hana að elta. Þegar ég býst til að kasta sýnir hún mér einbeitta athygli og fylgist með hverri hreyfingu.
Það er hins vegar misjafnt hversu mikla athygli við fáum í samskiptum okkar við aðra. Reglulega lendi ég í því að í samtali mínu við aðra manneskju er athyglin komin eitthvert annað áður en ég hef lokið við að segja það sem mér liggur á hjarta. Öllu verra er þegar ég stend sjálfan mig að því að vera slæmur hlustandi þegar fólkið sem stendur mér næst þarf á því að halda að ég sé góður hlustandi.
Í Sálmi 115:2-8 standa þessi orð:
2 Hví skyldu þjóðirnar segja: „Hvar er Guð þeirra?“
3 Guð vor er á himni, allt sem honum þóknast gerir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn en tala ekki, augu en sjá ekki.
6 Þau hafa eyru en heyra ekki, nef en finna enga lykt.
7 Þau hafa hendur en þreifa ekki, fætur en ganga ekki, úr barka þeirra kemur ekkert hljóð.
8 Eins og þau eru verða smiðir þeirra,
allir þeir er á þau treysta.
Skurðgoð (vers 4) er lýsing á því þegar eitthvað annað en Guð á forgang í lífi okkar. Þetta geta verið peningar, líkamsdýrkun, hlutir o.s.frv. Sálmurinn lýsir því hvernig skurðgoð hafa á sér það yfirbragð að geta átt samskipti en geta það alls ekki. Þau hafa eyru en heyra ekki (vers 6). Lykil atriðið er svo þetta: Eins og þau eru verða smiðir þeirra (vers 8). M.ö.o., sá sem smíðar sér skurðgoð sem sett er í forgang fer að líkjast skurðgoðinu. Þú byrjar að líkjast því sem þú setur í fyrsta sæti. Ef dauðir hlutir eru í fyrsta sæti ferðu að líkjast dauðum hlutum. Við hættum að heyra og sjá það sem er mikilvægt.
Við höfum einstakt tækifæri fyrir framan okkur. Við höfum tækifæri til að hlusta á skapara alheimsins sem elskar okkur meira en nokkur annar gerir. Með því að setja hann í fyrsta sæti og hlusta á hann þá munum við fara að hlusta betur á allt annað sem skiptir mestu máli í lífi okkar. Þ.m.t. fólkið sem stendur okkur næst.
Áskorun mín til þín er því þessi: Settu í forgang að hlusta á Guð, t.d. í orði hans og í bæn. Ég veit sannarlega að lífið er annríkt. En ég hef aldrei hætt að finna leiðir til að hlusta á Guð. Núna seinast með því að fara út að ganga með Aríu og leita Guðs um leið. Hlustun er hornsteinn samskipta og samskipti eru farvegur kærleikans. Ef samskiptin hiksta eða eru grunn þá hikstar flæði kærleikans. Hlustum á Guð og látum kærleikann flæða.
Íhugun og framkvæmd
- Spurðu fólkið sem stendur þér næst hverning hlustandi þú ert. Góður eða slæmur og þá af hverju?
- Ef þú vilt verða betri hlustandi, tryggðu að þú takir þér tíma til að hlusta á Guð. Þá muntu hlusta betur á aðra. Hvernig getur þú tekið þér tíma með Guði þessa viku?
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.