Fréttir af aðalfundi 2018
Fimmtudaginn 17.maí kl.18 var aðalfundur kirkjunnar. Það var mjög góð stemmning á fundinum og fulltrúar starfsgreina kirkjunnar fluttu gott yfirlit af starfsárinu 2017. Margt gengur vel og við eru þakklát fyrir trúfasta þjónustu margra.
Á fundinum las ég upp eftir farandi bréf sem fjallar um mögulegar breytingar framundan hjá okkar fjölskyldu.
--
Selfoss 16.maí 2018
Það tvennt sem ég hef lagt mesta áherslu á í þjónustu seinustu ár er annars vegar trúboð og trúvörn og hinsvegar að gera fólk að lærisveinum. Þetta tvennt er það sem skortir einna helst á Íslandi til að sjá framgang fyrir fagnaðarerindið og er það sem Guð hefur kallað mig til að vinna að.
Árið 2016 kom ég að því að bókin Vöxtur, þjálfun í stað áreynslu, var gefin út. Þessi bók menntar heilbrigða lærisveina. Til að gefa bókina út þurfti að semja um leyfi við Thomas-Nelson bókaforlagið í Bandaríkjunum. Í gegnum þau tengsl kynntumst við Kolbrún svo Dr. Rice Broocks og heyrðum af áhuga hans á því að bók hans Guð er ekki dáinn, kæmi út á íslensku.
Á seinustu tveim árum hef ég unnið með Dr. Rice við útgáfu bókarinnar og tvö trúboðsátök hér á Íslandi. Eftir þetta sé ég enn betur þörfin og tækifærin fyrir meira trúboð hér á Íslandi með þeim aðferðum sem Dr. Rice hefur mótað.
Ef við tökum fjöldann í okkar hreyfingu, Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, þá hefur hann staðið í stað á seinustu árum. Við náum ekki að fylgja fólksfjölgun í landinu sem merkir að miðað við hlutfall af höfðatölu fer okkur fækkandi. Engu að síður er ég mjög bjartsýnn því í samtölum við unga guðleysingja þá sé ég að ef rétt er farið að þá fær fagnaðarerindið hljómgrunn og vekur fólk til umhugsunar.
Dr. Rice hefur nú boðið mér að koma í fullt starf honum til aðstoðar næstu 1-3 árin. Ég yrði hans hægri hönd við sambærileg Guð er ekki dáinn verkefni í öðrum löndum, Bandaríkjunum, Evrópu og víðar. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig til að fá þjálfun í trúvörn og trúboði. Að þessum tíma loknum hefði ég meiri getu og jafnvel fjárhagslegan stuðning til að vinna að enn frekari trúboði hér heima á Íslandi. Þetta merkir síður en svo að áherslan á Ísland minnki heldur þvert á móti. Rice vill auka áhersluna á Ísland. Hann hefur nú þegar sýnt að hann er tilbúinn að fylgja eftir því sem hann byrjar á.
Að þiggja þetta starf þýðir að við fjölskyldan þurfum að flytja til Nashville í bandaríkjunum. Ef af verður þyrftum við Kolbrún því að láta af forstöðu í Hvítasunnukirkjunni á Selfossi.
Ég verð í Nashville núna seinustu vikuna í maí og eftir þá heimsókn gerum við ráð fyrir að málin hafi skýrst nógu vel til að við getum tekið endanlega ákvörðun. Stefnan er sett á að flytja út um miðjan ágúst núna í haust. Ennþá lítur þetta allt vel út þó aldrei sé hægt að sjá allt fyrir.
Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun en við erum sannfærð um að þetta sé leiðsögn Guðs og höfum frið fyrir þessu öllu.
Við Kolbrún erum afar þakklát fyrir þessi þrjú ár sem við höfum verið í forstöðu hér á Selfossi. Vissulega hefðum við kosið að ljúka þeim fjórum árum sem við vorum kosin til en vonum að þið samgleðjist okkur yfir þessu tækifæri og sjáið eins og við möguleikana sem þetta hefur fyrir fagnaðarerindið á Íslandi ef af verður.
Ágúst Valgarð Ólafsson