Treystu Guði!

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Treysti ég Guði? Það er ósköp auðvelt að treysta Guði þegar allt gengur vel, ég get borgað reikninga, ég er heilbrigður, það eru engin vandamál í fjölskyldunni og mínu nánasta umhverfi. En hvað þegar eitthvað bjátar á, mun ég þá treysta Guði? Hvað ef ég myndi missa vinnuna, gæti ekki borgað reikninga og horfði fram á að gjaldþrot vofði yfir. Myndi ég treysta Guði? Hvað ef að ég treysti Guði en ég yrði samt gjaldþrota, mundi missa húsið og ætti í vandræðum að skaffa mat á borðið fyrir fjölskylduna? Myndi ég samt treysta Guði? Það er ekki hægt að vera viss fyrr en hlutirnir gerast, en Biblían er mjög skýr um að við eigum að treysta Guði.

Í Orðskviðunum 3:5 stendur Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.” Það er svo sem auðvelt að segjast ætla að treysta Guði en hvernig fer maður í raun og veru að því að treysta Guði?

Í mannlegum samskiptum þá byggist traust upp á reynslu. Það byggist á því að fjárfesta í tíma sínum með fólki, læra að þekkja aðra og eftir því sem tíminn líður þá kynnast fólki betur og vita þannig af reynslunni hvernig má treysta því. Það að treysta Guði byggist á nákvæmlega því sama, það þarf að kynnast Guði. Að verja tíma með Guði og eiga samskipti við hann. Þetta gerist með því að tala við hann og einnig með því að hlusta eftir því hvað hann segir. Guð talar t.d. í gegnum orð sitt Biblíuna þannig að það að hlusta á Guð er líka fólgið í því að lesa í Biblíunni.

Það eru mörg ár síðan ég byrjaði að reyna að treysta Guði og ekki hefur það alltaf verið létt. Síðan ég tók trú á Jesú hef ég svo sem aldrei efast um tilvist hans en ekki alltaf fullkomlega treyst því að hann myndi alltaf koma með bestu lausnina fyrir mig. Oft hefur ég verið að streða sjálfur í stað þess að láta hlutina í Guðs hendur og treysta því að hann muni vel fyrir sjá sama hvernig hlutirnir þróast. En þegar ég lít yfir það sem er að baki þá sé ég að hann hefur aldrei brugðist mér og allt það góða sem er í mínu lífi er frá honum. Einnig sé ég að þeir tímar sem auðveldast hefur verið að treysta Guði í mínu lífi hefur verið þegar ég hef passað að rækta samband mitt við Guð.

Ég trúi á almáttugan góðan Guð sem ég veit að ber umhyggju fyrir mér, ég veit það vegna fyrri reynslu og vegna þess að það stendur í Biblíunni (“Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.” 1 Pét. 5:7). Ég veit að ég get treyst honum, en ég veit líka að ef ég vanræki vináttu mína við Guð og hef minni samskipti við hann mun verða erfiðara fyrir mig að treysta honum, vegna þess að ég hef fjarlægst hann.

Að lokum þá er hvatning mín til okkar allra: Verjum tíma með Guði svo að við vitum að við getum treyst honum af öllu hjarta.

Þorsteinn Jóhannesson

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi