Ráðsmennska með fjármuni

Skrifað af Aron Hinriksson. Posted in Pistlar

Við búum í þjóðfélagi sem á margan hátt er drifið áfram að markaðshyggju sem um leið lifir á því að við þjóðfélagsþegnarnir séum dugleg að kaupa sem mest til þess að knýja hjól kerfisins.

Ráðsmennska

Það er auðvelt að verða hluti af kerfi sem trúir því að hamingjan og tilgangurinn með lífinu felist í því að eignast sem mest og sérstaklega það fagra sem auglýsingar telja okkur trú um að okkur skorti.

Stærsti gallinn við þetta kerfi er sá að hugsun okkar fer að snúast fyrst og fremst um okkur sjálf eða eins og Jesús sagði: Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. (Mat 6:21) Það er ekkert rangt við auðlegð en ef sókn eftir henni á hjarta okkar þá er komið upp vandamál. Vandamál sem kemur í veg fyrir að við upplifum sanna auðlegð og tilgang.

Hvað með þennan fjársjóð: Að gefa af þeim fjármunum sem Guð hefur blessað þig með til þeirra sem minna mega sín og til kirkjunnar þar sem þú sækir samfélag og næringu. Að upplifa það að fjárfesta í einhverju sem blessar marga, án þess að þú hagnist beint sjálf(ur).

Þegar við erum komin á þann stað að geta gert slíkt með gleði, þá erum við komum á góðan stað enda segir Páll Postuli: Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. (2Kor 9:7)

Það að eyða minna en við öflum gefur okkur líka frelsi og svigrúm. Svigrúm til að geta fylgt eftir draumum sínum, svigrúm til að sinna og hafa tíma fyrir fólk, svigrúm til að gera svo margt sem fjárhagslegur bogi spenntur að þolmörkum mun koma í veg fyrir að við njótum.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaAron Hinriksson er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun frá honum um þetta efni.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Aron sagði í predikun að oft sé það veskið sem seinast gefst Guði. Hefur þú upplifað það? Hversvegna er það þannig?
  2. Að hafa fjármuni er að hafa vald til að gera eða eignast hluti. Hefur þú einhvertímann farið illa með fjármuni? Hvernig leið þér og hvernig líður þér núna varðandi það?
  3. Ertu sammála þeirri skýringu að útgjöld hækki eftir því sem innkoma eykst? Hvað finnst um þá hugmynd um að auka ekki við, draga jafnvel úr útgjöldum til þess að geta gefið meira og til þess að auka fjárhagslegt svigrúm í lífi þínu?
  4. Hefur þú upplifað þá tilfinningu að það sé betra að gefa en þiggja? Hvað getur þú gert til þess auka við gjafir og skila tíund til kirkjunnar þinnar ef þú gerir það ekki nú þegar?

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi