Biblían er saga Guðs með mannkynið og innganga okkar í þá sögu
Margir kannast eflaust við sunnudagaskólalagið um Biblíuna. Hresst og skemmtilegt lag með texta sem á sannarlega við öllum stundum ,,B-I-B-L-Í-A er bókin bókanna. Á orði Drottins er allt mitt traust B-I-B-L-Í-A BIBLÍA! “ Í Biblíunni lesum við um hvernig Guð talar til fólks á marga vegu. Stundum beint í huga þeirra og hjarta, í draumum, sýnum eða í gegnum annað fólk.
Við treystum Biblíunni m.a. vegna þess að bækur Biblíunnar segja rétt frá stöðum, sögulegum atburðum, tilteknu fólki og þjóðum. Þetta staðfestir bæði fornleifafræðin og aðrar ritaðar heimildir. Sem dæmi, þá er afar mikil nákvæmni í Postulasögunni (ein af bókum Biblíunnar) þegar sagt er frá tilteknum stöðum og staðháttum. Enginn gæti skrifað þannig án þess að hafa verið á staðnum.
Guð er hinn sami um aldir alda og enn í dag talar hann á marga vegu. Vegna mannlegra takmarkanna getur hugsun okkar, rök, efasemdir, þrá og margt annað skekkt eða breytt því sem Guð vill raunverulega segja. Biblían, orð Guðs, er sú mælistika sem hann hefur gefið okkur, heilagt, hreint, skýrt og lifandi orð. Biblían er mælistika og stoðir þess trúaða. Það sem við teljum að Guð hafi á einhvern hátt talað til okkar þarf að standast Biblíuna. Til að geta sannreynt hvort orð sé frá Guði er grundvallaratriði að þekkja Biblíuna og þar með Guð og karakter hans. Með því móti er okkur kleift að stíga fram í það sem sannlega er frá Guði komið og leggja annað frá okkur. Besta leiðin til að kynnast Guði og áætlun hans er að verja tíma með honum og í orði hans.
Þrátt fyrir endurteknar spár um annað þá hefur Biblían staðist tímans tönn afar vel og heldur áfram að vera metsölubók um allan heim ár eftir ár.
Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælist hjá honum. Sálm.19:31
Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleika. Dagbjört Eiríksdóttir er höfundur þessa pistils.
Umræðuspurningar fyrir heimahópa
- Hvers vegna heldur þú að svo margt í orði Guðs sé háð skilyrðum eða viðbrögðum þínum á einhvern hátt?
- Hvernig gengur þér að dvelja í orði Guðs (Biblíunni)? Hefur Guð talað eitthvað sérstakt til þín?
- Á hvaða hátt sannreyndir þú það eða á hvaða hátt getur þú sannreynt það?
- Á hvaða hátt hefur Guð talað inn í kringumstæður sem þér þóttu ómögulegar? Hvernig gekk þér að halda fast í orð hans í þeim aðstæðum?