Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Próf í fyrirgefningu

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Fyrirgefningin er meðal Guðs fyrir þá sem eru brotnir.

Til þess að þú getir orðið frjáls undan gremju, reiði, ótta, skömm og sektarkennd þarftu að gefa og taka við fyrirgefningu. Fyrsta og mikilvægasta fyrirgefninginn er gefinn frá Guði til okkar. Ástæða þess að svo margir eiga erfitt með að gefa sjálfir fyrirgefningu er sú að þeir hafa ekki meðtekið hana sjálfir. Þú getur ekki gefið eitthvað sem þú hefur ekki þegið sjálfur. Biblían er mjög skýr á því að það er tenging á milli þess að við getum fyrirgefið öðrum og að Guð fyrirgefi okkur.

Próf í fyrirgefningu

Hefurðu tekið við fyrirgefningu Guðs?

Það skiptir ekki máli hversu mikið við höfum sært aðra eða okkur sjálf, náð Guðs nægir okkur alltaf. Hans fyrirgefning er fullkominn.

,,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir, til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.” Róm 3:22-26

Seinni gerð fyrirgefningar er gefinn frá okkur til annarra. Hefurðu fyrirgefið öðrum sem hafa sært þig? Þessi gerð fyrirgefningar er ákveðið ferli. Þú þarft að vilja, vilja. En til þess að vera algjörlega frjáls þarftu að sleppa tökunum af sársauka fortíðarinnar. Fyrirgefning snýst um það að sleppa tökunum. Hugsaðu um það hvern reiði þín særir mest. Þegar þú fyrirgefur ekki er eins og þú drekkir eitur en vonist til að það særi þann sem gerði þér mein. Skortur á fyrirgefningu særir bara þig.

Rómverjabréfið 12:17-18 segir okkur ,,Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.”

Það að fyrirgefa, gerir þig frjálsa/n.

Biddu Guð að hjálpa þér að taka við fyrirgefningu hans. Biddu hann einnig að hjálpa þér að gefa öðrum þá allra bestu gjöf sem þú getur gefið: Fyrirgefningu!

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaGunnhildur Stella Pálmadóttir er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun frá henni um þetta efni.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Þarft þú að biðja Guð um fyrirgefningu?  Hefurðu meðtekið fyrigefningu hans? 
  2. Hefur þú álasað Guði vegna þess skaða sem annað fólk hefur valdið þér?
  3. Er sársauki úr fortíðinni sem þú heldur enn í? 
  4. Hefur þú fyrirgefið sjálfum þér? Er eitthvað úr fortíð þinni sem veldur þér enn sekt eða skömm? 

Hlusta á kennslu

Ráðsmennska með fjármuni

Skrifað af Aron Hinriksson. Posted in Pistlar

Við búum í þjóðfélagi sem á margan hátt er drifið áfram að markaðshyggju sem um leið lifir á því að við þjóðfélagsþegnarnir séum dugleg að kaupa sem mest til þess að knýja hjól kerfisins.

Ráðsmennska

Það er auðvelt að verða hluti af kerfi sem trúir því að hamingjan og tilgangurinn með lífinu felist í því að eignast sem mest og sérstaklega það fagra sem auglýsingar telja okkur trú um að okkur skorti.

Stærsti gallinn við þetta kerfi er sá að hugsun okkar fer að snúast fyrst og fremst um okkur sjálf eða eins og Jesús sagði: Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. (Mat 6:21) Það er ekkert rangt við auðlegð en ef sókn eftir henni á hjarta okkar þá er komið upp vandamál. Vandamál sem kemur í veg fyrir að við upplifum sanna auðlegð og tilgang.

Hvað með þennan fjársjóð: Að gefa af þeim fjármunum sem Guð hefur blessað þig með til þeirra sem minna mega sín og til kirkjunnar þar sem þú sækir samfélag og næringu. Að upplifa það að fjárfesta í einhverju sem blessar marga, án þess að þú hagnist beint sjálf(ur).

Þegar við erum komin á þann stað að geta gert slíkt með gleði, þá erum við komum á góðan stað enda segir Páll Postuli: Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. (2Kor 9:7)

Það að eyða minna en við öflum gefur okkur líka frelsi og svigrúm. Svigrúm til að geta fylgt eftir draumum sínum, svigrúm til að sinna og hafa tíma fyrir fólk, svigrúm til að gera svo margt sem fjárhagslegur bogi spenntur að þolmörkum mun koma í veg fyrir að við njótum.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaAron Hinriksson er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun frá honum um þetta efni.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Aron sagði í predikun að oft sé það veskið sem seinast gefst Guði. Hefur þú upplifað það? Hversvegna er það þannig?
  2. Að hafa fjármuni er að hafa vald til að gera eða eignast hluti. Hefur þú einhvertímann farið illa með fjármuni? Hvernig leið þér og hvernig líður þér núna varðandi það?
  3. Ertu sammála þeirri skýringu að útgjöld hækki eftir því sem innkoma eykst? Hvað finnst um þá hugmynd um að auka ekki við, draga jafnvel úr útgjöldum til þess að geta gefið meira og til þess að auka fjárhagslegt svigrúm í lífi þínu?
  4. Hefur þú upplifað þá tilfinningu að það sé betra að gefa en þiggja? Hvað getur þú gert til þess auka við gjafir og skila tíund til kirkjunnar þinnar ef þú gerir það ekki nú þegar?

Hlusta á kennslu

Að höndla völd vel

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Þegar vel fer að ganga hjá okkur og við fáum einhver völd eða áhrif, hvernig notum við þá völdin? Notum við þau eingöngu fyrir okkur sjálf, snúast völdin um okkar sérhagsmuni?

Að höndla völd vel

Eitt af þeim prófum sem við þurfum að standast til að við getum að fullu gengið inn í áætlun Guðs er hvernig við höndlum vald. Þetta próf, eða „Valda prófið“, gengur út á hvernig við bregðumst við þegar góðir hlutir mæta okkur, þegar okkur gengur vel, þegar við erum hækkuð í tign eða áhrif okkar og völd aukast.

Það hvernig við bregðumst við velgengni skiptir verulegu máli varðandi framtíð okkar, vegna þess að Guð vill að við förum vel með það vald og þau áhrif sem okkur eru gefin. Þess vegna prófar Guð okkur þegar okkur gengur vel, hvort hann geti treyst okkur fyrir valdi.

Samkvæmt Biblíunni þá erum við sköpuð í mynd almáttugs Guðs sem hefur allt vald, þannig að eftirsókn eftir valdi er ekki slæm svo framarlega sem hún er á réttum forsendum. Guð notar vald sitt til að hjálpa fólki og hann vill deila valdi sínum með þeim sem nota það í sama tilgangi. Allt vald og allur auður er í hendi Guðs en hann vinnur í gegnum fólk og leitar að fólki sem hann getur treyst til að nota vald sitt á sama hátt og hann notar það.

Í fyrra Pétursbréfi 5:5-6 stendur:

Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.

Vegurinn til valda er því að auðmýkja sig undir Guðs vilja og forðast allan hroka og dramb því Guð stendur gegn dramblátum. Þegar við erum trúföst og Guð eykur völd okkar og áhrif þá er það vegna þess að hann vill hjálpa fólki og hann vill að við notum þessi völd okkar og áhrif til að hjálpa því fólki.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaÞorsteinn Jóhannesson er höfundur þessa pistils.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Hvað gengur valda prófið út á?
  2. Hvað er vald, hvaðan kemur það, hver ákvarðar hver fer með valdið?
  3. Guð er almáttugur og við erum sköpuð í hans mynd. Þess vegna er löngun í völd ekki röng ef forsendurnar eru réttar. Hvernig samræmist þessi hugmynd því sem þú hefur haldið eða verið kennt?
  4. Hver er munurinn á raunverulegri auðmýkt og falskri auðmýkt?
  5. Hefur þú einhvertímann farið illa með vald þitt? Hvernig leið þér og hvernig líður þér núna varðandi það?
  6. Hvaða vald eða áhrif ferð þú með núna? Hvernig ætlar þú að vera undirgefinn Guði og öðrum meðan þú ferð með þetta vald eða ábyrgð?

     

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi