Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Það var upphaf

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Þú stendur við lítið lygnt vatn, stenst ekki freistinguna og kastar myndarlegum steini áleiðis út í vatnið. Steininn myndar hringlaga öldur útfrá þeim stað þar sem hann lenti. Sumar öldurnar ná alla leið að bakkanum þar sem þú stendur. Ef þú vissir ekkert um steininn en sæir bara öldurnar þá vissir þú samt að eitthvað hefði komið öldunum af stað, annaðhvort vindur, steinn eða eitthvað annað. Ef þú sérð öldu koma að ströndinni á annað borð þá getur þú vitað fyrir víst að eitthvað kom upphaflegu öldunni af stað, og þetta eitthvað getur ekki sjálft verið alda.

Það var upphaf

Að skilja upphaf heimsins er ekki ólíkt þessu. Vísindamenn geta mælt áhrif miklahvells sem kom alheiminum af stað. Þeir hafa jafnvel mælt bergmálið af sprengingunni sem ómar ennþá um alheiminn. Þetta eru öldur miklahvells sem var upphaf alheimsins. Með miklahvelli varð allt rými til, efni varð til og tíminn varð til. Fyrir miklahvell var ekkert rými, enginn tími og ekkert efni. Útfrá þessu og öðru því tengdu getum við vitað ýmislegt um þetta eða þennan sem sprengdi miklahvell:

 • Til í sjálfum sér, tímalaus, án rýmis og efnislaus. Fyrst þetta sem sprengdi miklahvell skapaði rými, efni og tíma þá hlýtur þetta eitthvað að standa utan við rými, efni og tíma.
 • Óendanlega öflugt til að skapa alheiminn og allt efnið í honum úr engu.
 • Gríðarleg greind, til að skapa alheiminn með þeirri nákvæmni sem til þarf. Sem dæmi þá þurfti þyngdaraflið að vera stillt með gríðarlegri nákvæmni til að alheimurinn myndi ekki þenjast of hratt út, eða falla saman. Nákvæmnin er slík að ef þyngdaraflinu væri breytt þannig að þú væri einum milljarði úr grammi léttari eða þyngri hefði alheimurinn þanist of hratt út eða fallið saman svo jörðin okkar hefði aldrei orðið til. 
 • Persónuleg og vitræn því ópersónulegt afl hefur enga getu til að velja eitt framyfir yfir annað. Í alheiminum sjáum við að úr engu hefur rými með tíma og efni verið mótað. Það er ekki hægt nema eitt sé valið framyfir annað.

Núna í september erum við með ræðuröð sem heitir Guð er ekki dáinn. Við erum að fjalla um rökstuðning fyrir tilvist Guðs en um leið opna á umræðu um þetta með því að bjóða þér að senda okkur spurningar. Einnig verður í einhverjum tilfellum hægt að horfa á predikanir beint á Facebook síðunni okkar um kl.11:40 á sunnudagsmorgnum í september. Fylgstu með og taktu þátt í umræðunni. Við viljum gjarnan heyra frá þér. 

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils.

Til umræðu eða íhugunar

 1. Erum við neydd til að velja annaðhvort vísindi eða trú - eða er hægt að líta öðruvísi á málin? Er t.d. hægt að vera trúaður en samt treysta líka vísindum með tiltekna hluti?
 2. Ímyndaðu þér að við hefðum enga Biblíu. Hversu mikið væri hægt að vita um Guð með því að skoða upphaf heimsins, sköpunarverkið og því að hugsa rökrétt?

Gott og illt er engin ímyndun

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hugur okkar er stöðugt að vinna úr upplýsingum og oft erum við að greina á milli þess hvað er gott og slæmt. Það er gott að Jói stökk út í sjóinn og bjargaði Gunna. En það er slæmt að veskinu hennar Ragnhildar var stolið o.s.frv.

En til að greina á milli góðs og ills verðum við að hafa einhverja línu sem greinir þarna á milli. Um leið og við segjum að eitthvað sé gott en eitthvað annað slæmt erum við að gera ráð fyrir því að þessi lína sem greinir á milli góðs og ills sé til.

Það er lína á milli góðs og ills

En hvaðan kemur þessi lína? Er þetta lína sem við búum til fyrir okkur sjálf og notum en er svo farin þegar við deyjum? Eða er þetta lína sem við uppgötvum og vísum til og var þá til áður en við fæddumst og verður alltaf til?

Notum stærðfræðina sem dæmi. Við vitum að 2 + 2 = 4. En er þetta eitthvað sem við bjuggum til eða uppgötvuðum? Jú, fyrir 500 milljón árum síðan voru 2 + 2 = 4 þó engin manneskja hefði nokkurntíman skrifað þetta niður eða reiknað. Það er þannig að tungumál stærðfræðinnar lýsir raunveruleikanum eins og hann er, ef við reiknum rétt!

Og þannig er þetta líka með gott og illt. Rétt eins og 2 + 2 = 4 þá eru sumir hlutir sannarlega góðir og annað sem er sannarlega illt. Verkfræðingar nota stærðfræði til að reikna burðarþol og þannig er stór brú byggð. Á sama hátt er ekki hægt að byggja gott mannlegt samfélag nema við getum vísað til þessarar línu sem greinir á milli hvað er gott og illt. Þetta vitum við innst inni og gerum ráð fyrir í okkar daglega lífi, svona er raunveruleikinn.

Þessi lína sem greinir á milli góðs og ills liggur beint til Guðs og er skilgreiningin á því hver Guð er. Jóhannes, sem var einn af lærisveinum Jesú, skrifar þetta í 1Jóh 1:15b: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.” Af því að Guð er bara góður og gerir okkur mögulegt að þekkja hann þá getum við þekkt muninn á góðu og illu.

Þessi pistill fjallar um siðferðisleg rök fyrir tilvist Guðs. Smelltu hér til að horfa á ágætt myndband á ensku um sama rökstuðning.

Til íhugunar og framkvæmdar

 1. Segðu frá atviki þar sem þú gerðir rangt og það sprakk í andlitið á þér, t.d. þegar þú laugst og það uppgötvaðist. Eða segðu frá tíma þar sem einhver laug að þér og það særði þig.
 2. Lesið og ræðið Róm 2:13-16. Hvernig hefur þú séð lögmálið í hjarta þínu hafa áhrif á líf þitt?
 3. Hvernig getum við þekkt vilja Guðs fyrir líf okkar? Hvernig getum við þekkt rétt frá röngu?
 4. Hvaða skref hjálpa þér að lifa lífi þínu í sannleika og heiðarleika?
 5. Hvaða afleiðingar myndi það hafa að lifa lífi sínu án þess virkilega að þekkja rétt frá röngu?  

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils.

Sönn trú er ekki blind

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hvernig er hægt að vita hvort Guð sé til?

Nýlega áttum við hjónin 20 ára brúðkaupsafmæli. Hjónabandið okkar er sterkara núna en nokkru sinni fyrr og við njótum þess að vera saman. En þegar við hittumst fyrst þekktumst við ekkert. Við fórum að hittast og vörðum miklum tíma í að tala saman. Þannig lærðum við að þekkja hvort annað. Ég lærði að þekkja hana, hvernig hún hugsaði, brást við aðstæðum og hún lærði sömuleiðis að þekkja mig. Við ákváðum svo að ganga í hjónaband, í góðri trú um að sú gagnkvæma þekking sem við höfðlum öðlast væri traust vísbending um framhaldið. Við gátum ekki sannað það vísindalega að hjónabandið yrði gott, en við völdum að treysta því á grunni fyrirliggjandi þekkingar.

Sönn trú er ekki blind

Að eignast trú á Guð er sambærilegt ferli. Það er til fjöldi traustra staðreynda og raka fyrir tilvist Guðs. Ef við skoðum þetta með opnum huga getum við komist að þeirri niðurstöðu að Guðs sé til. Reyndar eru staðreyndirnar og rökin fyrir tilvist Guðs mun traustari heldur en traust okkar á fólki og jafnvel maka okkar, því Guð er eilífur og breytist ekki.

Því miður hefur sumt kristið fólk sagt hluti eins og: Ekki hugsa, bara trúa. Þetta er skaðlegt og beinlínis rangur skilningur á því hvað heilbrigð trú er. Heilbrigð trú er rökrétt afleiðing af því að hugsa skýrt.

Með því að kynna sér rökin fyrir tilvist Guðs með opnum huga (án þess að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram), hugsa rökrétt, spyrja fullt af spurningum og ræða við aðra af gagnkvæmri virðingu vex þekking okkar á efninu - rétt eins og með alla aðra þekkingu. Þannig er hægt að vita hvort Guð sé til með nægilegri vissu til að taka afstöðu til þess.

Takk fyrir að heimsækja síðuna okkar. Við viljum gjarnan heyra frá þér ef þú ert með spurningu eða athugasemd.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils og hann predikaði um þetta efni 4.sept 2016. 

Til umræðu eða íhugunar

 1. Hefur þú heyrt því fleygt að hugsun sé slæm fyrir trú? Eitthvað í þeim dúr að: Ekki hugsa, bara trúa?
 2. Þið sem eruð sannfærð um að Guð sé til, hvernig komust þið að þeirri niðurstöðu? Ræðið í hópnum.
 3. Hver eru helstu rök þín fyrir því að Guð sé til? Hafðu í huga 1Pét 3:15-16 Það er gott að æfa sig í því að telja upp þessi rök eftir minni í öruggum hópi. Ef þú mannst lítið, ekki örvænta. Það er hægt að hugsa, lesa, læra smátt og smátt.
 4. Hefur þú tekist á við efasemdir? Ertu að takast á við efasemdir núna? Ræðið hvað eru góðar leiðir til að vinna úr efa, og e.t.v. hvað eru dæmi um slæm viðbrögð gagnvart þeim sem efast.
 5. Ágúst líkti því ferli að eignast trú á Guð við það ferli að kynnast maka og ganga í hjónaband. Ræðið þessa líkingu (þú þarft ekki að vera sammála þessu!).

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi