Að taka góðar ákvarðanir
Ungur fjárfestir fór til efnahagsráðgjafa dag einn og bað hann um örlítið af visku hans. „Hvert er leyndarmálið á bakvið árangur í viðskiptum, spurði hann.” Maðurinn svaraði: „Viturlegar ákvarðanir.” „Hvernig get ég þá lært að taka viturlegar ákvarðanir?” „Með reynslu.” „Hvernig fæ ég reynslu?” „Með heimskulegum ákvörðunum” svaraði maðurinn þá.
Sum okkar eru að taka erfiðar ákvarðanir í þessari viku. Sum okkar vitum það ekki í dag en við munuð standa frammi fyrir stórum ákvörðunum á morgun. Lífið er fullt af ákvörðunum. Sumar eru erfiðar og aðrar eru auðveldar.
Í Orðskviðunum 3:5 segir „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.”
Ég hef lært í gegnum tíðina að það er mjög skynsamlegt að leita Guðs þegar taka þarf ákvarðanir. Það er frábært að geta beðið hvar sem er og hvenær sem er um visku Guðs inn í aðstæður. Það er ekkert of lítið og ekkert of stórt fyrir Guð. Það er líka mikilvægt að bera stórar ákvarðanir undir einhvern annan. Einhvern sem við virðum og treystum. Einhvern sem samþykkir ekki alla vitleysuna í okkur en líka einhvern sem getur hlustað með hjartanu og gefið okkur af visku sinni.
Í Jakobsbréfinu 1:5-6 stendur „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi…”
Ertu fórnarlamb aðstæðna þar sem þú veltist um fram og til baka eða velur þú að taka ákvarðanir? Við þurfum að þora að framkvæma. Þurfum að þora að velja. Við þurfum að þora að biðja Guð að gefa okkur visku og taka svo ákvörðun. Það er gott að biðja Guð að opna dyr og biðja hann um að leiða okkur áfram. Gæði lífs okkar fara eftir ákvörðunum okkar, því sem við veljum og þeirri visku sem er að baki þessum ákvörðunum og vali.
Megi Guð blessa þig í dag og gefa þér visku og vísdóm til að taka góðar og skynsamar ákvarðanir.
Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir er höfundur þessa pistils og hún predikaði um Að taka góðar ákvarðanir 28.ágúst 2016. Það er líka hægt að sækja umræðuspurningar fyrir þessar predikun. Það er tilvalið fyrir þá sem vilja vinna meira með efnið, hvort heldur er í hóp eða einir sér.