Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Sterkasta sönnunin um Guð

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Efast þú um tilvist Guðs? Finnst þér erfitt að trúa á tilvist ósýnilegs Guðs? Eða er erfitt að trúa á almáttugan og góðan Guð á sama tíma og við sjáum svona mikið illt í heiminum? Sterkasta sönnunin fyrir tilvist Guðs er einmitt sú staðreynd að við mennirnir getum spurt og rökrætt spurningar eins og þessar.

Hvít blóðfruma

Sjáðu til, ef það er enginn Guð til þá er öllu stjórnað af náttúrulögmálum. Reyndar má þá spyrja hvaðan náttúrulögmálin koma, en það er efni í annan pistil. Heimurinn er þá efni, efnahvörf og atburðir sem allt stjórnast af náttúrulögmálum og engu öðru. Segjum að ég sé að spjalla við kunningja minn að nafni Jón sem er sannfærður um að Guð sé ekki til. Í heimi Jóns er enginn Guð. Jón trúir því að hann sjálfur sé til vegna þess að einhvern veginn kviknaði líf á jörðinni (hann veit ekki hvernig). Fyrst var það e.t.v. einfrumungur. Þessi fruma þróaðist í einföld dýr sem svo þróuðust í fullkomnari dýr þangað til Jón loks fæddist. Allt þetta ferli og öll stig þess er 100% ákvarðað af náttúrulögmálum og náttúruvali. Þeir sterkustu lifa af og allt það. Ef Jón nú segir að uppáhalds liturinn hans sé rauður, þá er jafnvel það val hans einnig ákvarðað af náttúrulögmálum ekki satt? Auðvitað finnst honum að hann hafi sjálfstæða hugsun en það er aðeins tálsýn.

Ef heimurinn er ekkert nema efni, atburðir og náttúrulögmál, hvar er þá pláss fyrir raunverulega valkosti mannsins eða sjálfstæða hugsun? Jón er því í vissum vanda. Ef hann segir við mig: “Guð er ekki til” þá myndi ég spyrja hann á móti: “Viltu að ég taki þig alvarlega?”

Ef Jón játar þeirri spurningu er hann kominn í mótsögn við eigin heimssýn því í guðlausum heimi hefur maðurinn enga sjálfstæða hugsun eða valkosti því bókstaflega ÖLLU er stjórnað af náttúrulögmálunum. Það er EKKERT annað en náttúrulögmál og efni í guðlausum heimi.

Og auðvitað er ekki valkostur að svara spurningunni neitandi. Jón gerir réttilega ráð fyrir því að í eðlilegum samskiptum sé hann tekinn alvarlega og einmitt með því bendir líf hans á tilvist Guðs.


Það er rétt að taka það fram að þessi grein snertir á efni sem hefur verið mikið rætt: Hefur maðurinn frjálsan vilja? Það eru til margvísleg rök bæði hjá guðleysingjum og þeim sem trúa á tilvist Guðs. Heilt yfir finnst mér rökin hér að ofan þau mest sannfærandi sem ég hef séð en vil gjarnan heyra frá þér ef þú hefur innlegg í umræðuna.

Ágúst Valgarð Ólafsson

 

Opið fyrir alla

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég spjallaði við manneskju um daginn sem sagði við mig: Það að eiga góða vini hefur alltaf verið mér svo mikilvægt. Ég er svo þakklát(ur) fyrir að að eiga góða vini í dag. Þegar ég var barn átti ég ekki alltaf góða vini.

 Geta ekki allir tekið undir þetta? Við viljum vera meðtekin og viðurkennd af öðrum, við viljum fá að vera með.

Enginn hefur nokkurn tímann talað og kennt eins og Jesús frá Nasaret. Matteusarguðpjall kaflar 5-7 eru kallaðir fjallræðan. Jesús byrjar þessa ræðu á því sem hefur verið kallað sæluboðin og þau byrja á þessu: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Mat 5:3

Og þannig heldur Jesús áfram og segir m.a.

  • Sælir eru sorgbitnir
  • Sælir eru hógværir
  • Sælir eru þeir sem hungrar eftir réttlætinu
  • Sælir eru miskunnsamir
  • Sælir eru hjartahreinir
  • Sælir eru friðflytjendur
  • Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
  • Sælir eruð þér, þá er menn smána yður

Hvað er Jesús að meina með þessu? Eitt má segja með öryggi: Jesús steig inn í þjóðfélag þar sem fólki var skipt upp í hópa, þar sem sumir voru “inni” en aðrir “úti” - og inn í þessar aðstæður byrjar Jesú fjallræðuna á sæluboðunum þar sem hann einfaldlega segir okkur að ríki Guðs er aðgengilegt fyrir ALLA sem vilja koma til hans.

Jesús valdi sér lærisveina úr ýmsum hópum þjóðfélagsins: Fiskimenn, tollheimtumenn og sumir voru jafnvel ungir menn sem vildu hefja vopnaða uppreisn gegn ríkjandi valdhöfum. Á meðan aðrir kennarar gyðinga völdu helst unga og vel gefna menntamenn frá Jerúsalem, þá valdi Jesús “venjulega” lærisveina. Jesús valdi fólk eins og mig og þig, venjulegt fólk.

Ef þú hefur upplifað sorg þá ert þú “inni” með Jesú. Sælir eru sorgbitnir. Ef þú hefur þráð réttlæti eftir að hafa horft upp á ranglæti þá ert þú “inni” með Jesú. Sælir eru þeir sem hungrar eftir réttlætinu. Allir þeir sem vilja fylgja Jesú eru “inni” (sælir) með honum því við höfum öll upplifað þá hluti sem Jesú telur upp í sæluboðunum.

Við þráum öll að vera meðtekin og eiga góðan vin. Það er vegna þess að Guð hannaði okkur til samfélags bæði við sig og aðra. Þess vegna upplifum við tómarúm innra með okkur þangað til sál okkar finnur heimili sitt hjá Guði.

Seinna í Matteusarguðspjalli segir Jesús: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. (29) Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Mat 11:28-29

Allir geta komið til Jesú - og Jesús hvetur okkur til þess með því að segja: Komið til mín. Það eina sem getur virkilega hindrað okkur í að koma til Jesú erum við sjálf. Eina leiðin til að koma til Jesú er að gefast honum og viðurkenna að hann sé Drottinn eða sá sem með réttu ætti að vera leiðtoginn í lífi okkar. Þess vegna upplifa margir eins og togað í sig úr tveim áttum: Annars vegar er löngunin til að tengjast góðum Guði sem elskar okkur óendanlega mikið. Hins vegar er tregðan til að gefa upp forystuna yfir eigin lífi. Ef þú finnur löngun til að tengjast Jesú en finnst það erfitt þá vil ég hvetja þig til að setjast niður í einrúmi og tala við hann, eins eðlilega og blátt áfram og þú getur. Segðu honum hvað þér finnst erfitt og biddu hann um hjálp. Þetta getur verið fyrsta skrefið á löngu ferðalagi með honum sem verður fullt af friði og kærleika.

Það ferðalag að tengjast Guð gengur best ef við höfum góða ferðafélaga.

Ágúst Valgarð Ólafsson

Vöxtur er val

Skrifað af Hjalti Skaale Glúmsson. Posted in Pistlar

Í Rómverjabréfinu 10:9 segir: Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn.

Svona einfalt er að eignast frelsi í Jesú Kristi og það er ókeypis fyrir sérhvern mann. Jesús Kristur greiddi gjaldið fyrir okkur öll.

Hvað erum við tilbúin að leggja á okkur eftir það?
Páll segir í Fyrra Korintubréfi hvernig hann agar sig. Þeir sem vilja ná árangri í lífinu þurfa að aga sig og þjálfa. Sama gildir um okkur ef við viljum ná árangri í andlega lífinu. Það kostar nefnilega að boða Jesú Krist. Það þarf að undirbúa sig og undirbúningur krefst aga. Margir hafa greitt hæsta gjaldið, líf sitt, fyrir að boða Jesú Krist krossfestan og upprisinn. Það er sem betur fer ekki raunveruleikinn okkar á Íslandi í dag en engu að síður er ýmislegt sem við þurfum að leggja á okkur til að lifa fyrir Guð.

Hvatning mín er að við gefum Guði tíma, það er það minnsta sem við getum gert fyrir hann. Biðjum til hans, lesum orð hans og lofum hann í söng. Segjum öðrum frá því sem hann hefur gert fyrir okkur. Guð hefur kallað okkur til þessa. Hann hefur sagt að hann verði með okkur, hann er trúfastur og verður með þér. Við skulum líka vera trúföst honum, gefum honum það sem hann á skilið frá okkur og leyfum honum að vera virkur þátttakandi í lífi okkar.

Hjalti Skaale Glúmsson

Hjalti predikaði um þetta efni sunnudaginn 24.júlí - smelltu hér til að horfa eða hlusta á þessa predikun. Ef þú hefur áhuga á því að vaxa að heilbrigði og í trúnni þá er tilvalið að koma á Celebrate Recovery stund eða senda okkur línu og óska eftir að koma í einn af heimahópum kirkjunnar.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi