Vöxtur er val
Í Rómverjabréfinu 10:9 segir: Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn.
Svona einfalt er að eignast frelsi í Jesú Kristi og það er ókeypis fyrir sérhvern mann. Jesús Kristur greiddi gjaldið fyrir okkur öll.
Hvað erum við tilbúin að leggja á okkur eftir það?
Páll segir í Fyrra Korintubréfi hvernig hann agar sig. Þeir sem vilja ná árangri í lífinu þurfa að aga sig og þjálfa. Sama gildir um okkur ef við viljum ná árangri í andlega lífinu. Það kostar nefnilega að boða Jesú Krist. Það þarf að undirbúa sig og undirbúningur krefst aga. Margir hafa greitt hæsta gjaldið, líf sitt, fyrir að boða Jesú Krist krossfestan og upprisinn. Það er sem betur fer ekki raunveruleikinn okkar á Íslandi í dag en engu að síður er ýmislegt sem við þurfum að leggja á okkur til að lifa fyrir Guð.
Hvatning mín er að við gefum Guði tíma, það er það minnsta sem við getum gert fyrir hann. Biðjum til hans, lesum orð hans og lofum hann í söng. Segjum öðrum frá því sem hann hefur gert fyrir okkur. Guð hefur kallað okkur til þessa. Hann hefur sagt að hann verði með okkur, hann er trúfastur og verður með þér. Við skulum líka vera trúföst honum, gefum honum það sem hann á skilið frá okkur og leyfum honum að vera virkur þátttakandi í lífi okkar.
Hjalti predikaði um þetta efni sunnudaginn 24.júlí - smelltu hér til að horfa eða hlusta á þessa predikun. Ef þú hefur áhuga á því að vaxa að heilbrigði og í trúnni þá er tilvalið að koma á Celebrate Recovery stund eða senda okkur línu og óska eftir að koma í einn af heimahópum kirkjunnar.