Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Að taka góðar ákvarðanir

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Ungur fjárfestir fór til efnahagsráðgjafa dag einn og bað hann um örlítið af visku hans. „Hvert er leyndarmálið á bakvið árangur í viðskiptum, spurði hann.” Maðurinn svaraði: „Viturlegar ákvarðanir.” „Hvernig get ég þá lært að taka viturlegar ákvarðanir?” „Með reynslu.” „Hvernig fæ ég reynslu?” „Með heimskulegum ákvörðunum” svaraði maðurinn þá.

Að taka góðar ákvarðanir

Sum okkar eru að taka erfiðar ákvarðanir í þessari viku. Sum okkar vitum það ekki í dag en við munuð standa frammi fyrir stórum ákvörðunum á morgun. Lífið er fullt af ákvörðunum. Sumar eru erfiðar og aðrar eru auðveldar.

Í Orðskviðunum 3:5 segir „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.”

Ég hef lært í gegnum tíðina að það er mjög skynsamlegt að leita Guðs þegar taka þarf ákvarðanir. Það er frábært að geta beðið hvar sem er og hvenær sem er um visku Guðs inn í aðstæður. Það er ekkert of lítið og ekkert of stórt fyrir Guð. Það er líka mikilvægt að bera stórar ákvarðanir undir einhvern annan. Einhvern sem við virðum og treystum. Einhvern sem samþykkir ekki alla vitleysuna í okkur en líka einhvern sem getur hlustað með hjartanu og gefið okkur af visku sinni.

Í Jakobsbréfinu 1:5-6 stendur „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi…”

Ertu fórnarlamb aðstæðna þar sem þú veltist um fram og til baka eða velur þú að taka ákvarðanir? Við þurfum að þora að framkvæma. Þurfum að þora að velja. Við þurfum að þora að biðja Guð að gefa okkur visku og taka svo ákvörðun. Það er gott að biðja Guð að opna dyr og biðja hann um að leiða okkur áfram. Gæði lífs okkar fara eftir ákvörðunum okkar, því sem við veljum og þeirri visku sem er að baki þessum ákvörðunum og vali.

Megi Guð blessa þig í dag og gefa þér visku og vísdóm til að taka góðar og skynsamar ákvarðanir.

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir er höfundur þessa pistils og hún predikaði um Að taka góðar ákvarðanir 28.ágúst 2016. Það er líka hægt að sækja umræðuspurningar fyrir þessar predikun. Það er tilvalið fyrir þá sem vilja vinna meira með efnið, hvort heldur er í hóp eða einir sér.

Frá eftirsjá til eftirvæntingar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hefur þú gert eða sagt eitthvað sem þú sást svo eftir? Hafa orð þín eða athafnir sært aðra, einnig þá sem þú elskar, og þetta angraði þig? Hefur þú upplifað sekt eða slæma samvisku yfir einhverju sem þú gerðir eða gerðir ekki?

Eftirvænting

Eftirsjá getur verið þrúgandi. Sumir lifa í eftirsjá árum saman eða jafnvel í áratugi. Eftirsjá getur haldið áfram og vaxið í það óendanlega. Eftirsjá í þessu lífi er nógu erfið, en ímyndaðu þér eftirsjá sem varir um eilífð og vex stöðugt, étur sig í sálina og það er engin undankoma.

Guð hefur gefið okkur leið til að losna við eftirsjá. Þessi leið læknar sársaukann af gjörðum okkar gagnvart öðru fólki og gagnvart Guði. Þessi leið heitir iðrun. Iðrun er ekki vera leiður yfir mistökum sínum heldur umbreyting í hjarta okkar sem leiðir til lækningar og líf vonar og eftirvæntingar.

Efesusbréfið 2:8-9 segir: Því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

Eins og trú er gjöf þá er iðrun líka gjöf frá Guði. Góðu fréttirnar eru þær að við getum beðið Guð um slíka gjöf. Þetta er ekki eitthvað sem við getum framkallað á eigin spýtur heldur gjöf frá Guði.

Í spádómsbók Jesaja, kafla 45 og versi 22 segir: Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar. (Biblían útgáfa 1981)

Hér eru nokkur hagnýt ráð varðandi iðrun byggt á þessu versi úr Jesaja og orðinu SNÚA:

    • Snúa:

      Iðrun er að snúa sér, eins og fyrsta orðið í þessu versi segir. Að snúa sér er að stefnubreyting, hætta að ganga í eina átt og byrja að ganga í aðra.
    • Nei:

      Iðrun er að segja nei við því sem Guð segir að sé rangt. Þannig viðurkennum við að Guð sé Guð og að munurinn á réttu og röngu sé lína sem liggur beint upp til hans.
    • Útilokað:

      Það er útilokað að eiga sanna iðrun án Guðs. Við erum öll með blindan blett sem við getum ekki séð á eigin spýtur.
    • Algjör:

      Sönn iðrun er algjör til Guðs. Það er hægt að vera hryggur yfir mistökum sínum án þess að stíga inn í sanna iðrun. Slík hryggð gerir ekkert fyrir okkur (sjá 2Kor 7:9-10).

Ágúst Valgarð Ólafsson predikaði um iðrun og að SNÚA 21.ágúst 2016.

Fögnum bata er 12 spora starf sem hjálpar okkur að gera upp líf okkar skref fyrir skref í gegnum sanna iðrun.

Ágúst Valgarð Ólafsson

Fyrirgefning er val

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Flestir vilja að lífið gangi vel. Við viljum sem minnst af depurð, sorg og sársauka en sem mest af friði, gleði og fullnægju í líf okkar. En veröldin sem við búum í er oft ósanngjörn. Oft sjáum við slæma hluti henda gott fólk. Hvernig eigum við að bregðst við þegar aðrir gera okkur illt hvort sem það er óvart eða af ásetningi? Jesús var mjög afdráttarlaus þegar hann kenndi að réttu viðbrögðin eru fyrirgefning.

Mat 6:14-15 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. (15) En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

Rifrildi

Fyrirgefningin er einn lykilinn að blessun Guðs. Þegar Jesú dó á krossinum tók hann á sig allt rangt sem við höfum gert og gaf fyrirgefningu í eitt skipti fyrir öll.

Réttlæti eða miskunn?

Hefur þú lent í því að vilja miskunn og náð fyrir þig sjálfa(n) þegar þú brýtur gegn öðrum en krefjast svo réttlætis þegar brotið er gegn þér? Sá staður þar sem náð Guðs og blessun flæðir er þegar við fyrirgefum öðrum og gerum það að mynstri í lífi okkar. Á þessum náðarstað eigum við frið við alla menn, frelsi og hugarró. Þegar við veljum að stíga út úr þessum náðarstað veljum við dóm fram yfir miskunn, þar hefur óvinurinn aðgang að huga okkar og rænir okkur friði og frelsi

Fyrirgefning er val!

Lækur

Fyrirgefning opnar hjartað svo lækir lifandi vatns geti flætt óhindraði í lífi okkar. Innri sársauki, ófyrirgefning og biturleiki dregur úr okkur allan mátt og fangelsar. Skortur á fyrirgefningu rænir okkur friði, frelsi og sannri gleði.

Fyrirgefning er ekki að samþykkja það sem gert var á þinn hlut heldur að velja að losa viðkomandi undan dómi þínum svo að ÞÚ getir orði frjáls. Það getur verið erfitt val að fyrirgefa en Guð getur gefið okkur að vilja og framkvæma. Það sem virðist ómögulegt og ógerlegt er hægt með því að biðja Guð um hjálp. Vitur maður sagði eitt sinn: Að fyrirgefa ekki er líkt og að drekka eitur og vonast til að hinn aðilinn deyi. Veldu að fyrirgefa, þín vegna!

Jóhannes Hinriksson predikaði um fyrirgefninguna 14.ágúst 2016.

Dagbjört Eiríksdóttir

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi