Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Blessið þá sem bölva

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Blessið þá sem bölva

 

Hvernig eigum við að koma fram við þá sem koma illa fram við okkur? Öll höfum við lent í að einhver komi illa fram við okkur. Þannig var því farið með Davíð konung áður en hann varð konungur sem við getum lesið um í Gamla Testamenti Biblíunnar. Sál, sem var konungur á þessum tíma, gerði allt til að ryðja Davíð úr vegi, en án árangurs. Það hvernig Davíð breytti gagnvart Sál er til eftirbreytni fyrir okkur. En Davíð svaraði ekki í sömu mynt og vildi ekki skaða Sál þegar Sál ofsótti hann. Heldur reyndi hann af fyrra bragði að ná sáttum og að auki þá reyndi Davíð að gera honum gott. Þetta er nákvæmlega það sem Jesús lagði áherslu á í Lúkasarguðspjalli 6:27-28:

En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður, blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.

Þetta merkir ekki að við eigum að samþykkja allt sem aðrir gera okkur, enda er fyrirgefning ekki það sama og samþykki. Einnig getum við stundum þurft að taka okkur tíma til að vinna úr og fá lækningu á þeim sársauka og sárum sem við getum orðið fyrir. Ef þú lest Sálmana sem Davíð skrifaði sérðu hvernig hann fór með tilfinningar sínar og sársauka fram fyrir Guð og vann úr því.

Við sem viljum fylgja Jesú þurfum að læra að þetta snýst ekki allt um okkur heldur um það að Guð er kærleikur og hann vill að við sýnum þann kærleika öðrum, að við séum talsmenn hans hér á jörðu og sem slíkir þá er gott að hafa eftirfarandi að leiðarljósi og breyta eins og Davíð breytti gagnvart Sál:

Forðastu að vinna skaða eða svara í sömu mynt þeim sem ofsækir þig og reyndu ef mögulegt er og á þínu valdi að ná sáttum.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Sál, Davíð og Absalon.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Ert þú að velta þér upp úr sársaukanum sem einhver er að valda þér eða ertu að horfa fram hjá því og sjá það virði sem Guð sér í manneskjunni?
  2. Er einhver sem þú forðast sem þú ættir að leita sátta við? Ertu að bíða eftir að hann komi fyrst? Af hverju ekki að fara til hans og útskýra málið og í kærleika ræða það sem kannski er orðið stærra mál en það er í raun og veru?
  3. Ertu hikandi í að gera þeim gott sem hafa staðið gegn þér? Vilt þú gera þeim gott? Ef já þá hvernig viltu gera þeim gott? 

Hlusta á kennslu

Voru lærisveinarnir auðtrúa? Seinni hluti.

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Í fyrri hluta sáum við að öll guðspjöllin fjögur fjalla um hversu erfitt það var fyrir lærisveinana að sannfærast um það að Jesú væri sannarlega upprisinn. Í þessum pistli skoðum við hvort fleiri bækur Nýja Testamentisins (NT) fjalla um hvort lærisveinarnir hafi verið auðtrúa.

Voru lærisveinarnir auðtrúa? Seinni hluti.

Postulasagan er skrifuð af Lúkasi og í Pos 1:3 stendur: 

Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.

Þessi óræku kennimerki eru staðreyndir sem lærisveinarnir upplifðu og gátu ekki afneitað jafnvel þó þeir reyndu. Jesú var sannarleg upprisinn og þeir sannfærðust um það þrátt fyrir að þeir efuðust í upphafi. Í fyrri hluta sáum við í Jóh 20:25-28 að menn eins og Tómas tóku meira að segja einarðlega afstöðu gegn því að Jesú væri upprisinn. Hann var því ekki einu sinni hlutlaus heldur ákveðinn í því að Jesú væri ekki upprisinn. Hversu sterkar staðreyndir þarf til að snúa einhverjum frá slíkri afstöðu?

Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. (2Pét 1:16-18 útg. 2007)

Þessi texti úr öðru Pétursbréfi er blátt áfram. Hann segist hafa séð dýrð Jesú og vitnar þar væntanlega til þess þegar Jesú ummyndaðist á fjallinu (Mat 17:1-5; Mar 9:2; Lúk 9:28-32). Svo segir Pétur “Þessa raust heyrði ég sjálfur…”  M.ö.o. þá bæði heyrði hann og sá. Ótrúlegir hlutir, já, en raunverulegir engu að síður og lærisveinarnir geta einfaldlega ekki annað en greint frá því sem þeir bæði sáu og heyrðu.

Fyrra bréf Jóhannesar heldur áfram með þetta þema.

Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.  (1Jóh 1:1-3 útg. 2007)

Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. (1Jóh 4:14)

Niðurstaðan er sú að það eru ekki bara guðspjöllin fjögur sem undirstrika að lærisveinarnir voru ekki auðtrúa heldur allt NT. Þeir höfðu ekkert að græða á því að búa til þá sögu að Jesú hefði risið upp. Þvert á móti þá kostaði það þá flesta lífið og mikla erfiðleika. Enda benti fátt til þess strax eftir dauða Jesú á Golgata að nokkuð meira myndi fréttast af fylgjendum hans. Þeir voru hræddir um að verða þeir næstu til að verða negldir á krossinn og létu því lítið fyrir sér fara. En þegar Jesú birtist þeim upprisinn, át með með þeim, kenndi þeim, dvaldi með þeim og leyfði þeim að þeim að þreifa á sér (Jóh 20:27), þá sannfærðust lærisveinarnir og byrjuðu í kjölfarið að segja frá Jesú, þrátt fyrir andstöðu yfirvalda. 

Þessi pistill er seinni hluti af tveim. Smelltu hér til að lesa fyrri hlutann.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefastÞessi pistill tengist predikun sem hægt er að hlusta á eða horfa með því að smella hér.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hefur þú upplifað eitthvað sem aðrir eru vantrúaðir á að hafi gerst?
  2. Værir þú tilbúin(n) til að segja frá því sem þú veist að er satt, þrátt fyrir að þú ættir á hættu að lenda í fangelsi eða þaðan af verra?

Voru lærisveinarnir auðtrúa? Fyrri hluti.

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Öll fjögur guðspjöllin nefna með einhverjum hætti að lærisveinarnir hafi efast.

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. (Mat 28:16-17)

Í Matteusarguðspjalli horfa lærisveinarnir á Jesú upprisinn. Sumir tilbiðja hann og sýna honum lotningu en aðrir efast. 

Voru lærisveinarnir auðtrúa?

En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? (Lúk 24.37-38)

Hér í Lúkasarguðspjalli eru orð Jesú eftir að hann hafði verið krossfestur, lagður í gröf og svo risið upp á þriðja degi. Lærisveinarnir eru saman í hóp að tala um að Jesú hafi upprisinn birst tveimur lærisveinum sem voru á leið til Emmaus. Skyndilega stendur þá Jesú mitt á meðal þeirra. Þeir bregðast við með því að skelfast og Jesú bregst við með því að spyrja þá út í efasemdir þeirra. Jesú myndi sannarlega ekki spyrja að þessu nema það hafi verið erfitt fyrir lærisveinana að trúa.

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. (Mar 16:14)

Í Markúsarguðspjalli sjáum við svipaðan texta og í Lúkasarguðspjalli. Jesú er ekki ánægður með hvað það reynist erfitt fyrir lærisveina hans að trúa því að Jesú sé sannarlega upprisinn.

Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa." Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður." Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!" (Jóh 20:25-28)

Þessi frásögn í Jóhannesarguðspjalli er sú sem oftast er nefnd þegar talað er um efa lærisveinanna. Tómas notar enda sterk orð: Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa. (Jóh 20:25) 

Niðurstaðan er sú að guðspjöllin eru ófeimin við að segja frá því að það var efi á meðal lærisveinanna um það hvort Jesú hefði sannarlega risið upp frá dauðum. Það var ekki fyrr en Jesú sýndi þeim sig lifandi svart á hvítu að þeir fóru að trúa eigin augum og eyrum. Lærisveinarnir eru greinilega hugsandi menn sem gleypa ekki við hverju sem er. Þeir vilja hafa staðreyndir áður en þeir trúa einhverju og eru sannarlega ekki auðtrúa.

Þessi pistill er fyrri hlutinn af tveim. Smelltu hér til að lesa seinni hlutann.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast. Þessi pistill tengist predikun sem hægt er að hlusta á eða horfa með því að smella hér.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hver er munurinn á því að trúa í blindni og því að trúa eftir að hafa sannreynt staðreyndir?
  2. Sumir segja að orðið trú sé misskilið í dag og að orðið traust lýsi betur því sem Nýja Testamentið (NT) er að tala um þegar það notar orðið trú. Hvað finnst þér um þetta? Getur þú tekið dæmi úr nútímanum þar sem orðið trú er notað í annari merkingu heldur en NT notar það?
  3. Í þessum pistli var fjallað um viðbrögð lærisveina Jesú. Settu sjálfa(n) þig í þeirra spor. Hvernig hefðir þú brugðist við t.d. uppi á fjallinu með Jesú (Mat 28:16-17) eða inni í Jerúsalem eins og Tómas  (Jóh 20:25-28)?
  4. Hvað segir það okkur um NT og vitnisburð þess að lærisveinarnir voru allt annað en auðtrúa?

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi