Er lífið fáránlegt?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Heimspekingar eins og Jean-Paul Sarte og Albert Camus hafa rökstutt að ef það er ekki til almáttugur, algóður skapari alheimsins sem býður okkur eilíft líf, þá er lífið helber fáránleiki. Þ.e.a.s. lífið hefur hvorki virði, merkingu né tilgang. Þessir greindu menn komust ekki að þeirri niðurstöðu að Guð væri til heldur sættu sig við fáránleikann og í stuttu máli sögðu okkur að bíta á jaxlinn og gera okkar besta.

Er lífið fáránlegt?

Virði

Ef allir menn deyja og verða að dufti - hvers virði er þá líf þeirra hvers um sig? Skiptir einhverju máli að þeir hafi verið til? Ef það er enginn Guð þá erum við öll háð duttlungum náttúruaflanna - föst í blindum kassa þeirra þennan stutta tíma okkar á jörðinni - rétt eins og við værum kúla í lottóvél. Þetta er martröð nútímamannsins fjarri Guði: Vegna þess að hann endar sem ekkert þá er hann ekkert.

Merking

Ef lífið endar með gröfinni - og hún er endir alls bæði fyrir þig og aðra - þá skiptir engu máli hvernig þú lifir lífinu. Ef örlög okkar eru óháð hegðun okkar getur fólk allt eins gert bara það sem þeim dettur í hug. Án Guðs er enginn ástæða fyrir Jón Jónsson að haga sér vel nema Jón fái eitthvað útúr því. Í klassískri íslenskri mynd, Sódoma Reykjavík, var þetta orðað einhvernveginn svona: Ég geri sko ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. 

Tilgangur

Hvaða tilgang hefur líf mannsins ef það er enginn Guð? Þar með væri enginn munur á okkur og maurnum - við erum aðeins stærri og getum e.t.v. látið meira að okkur kveða um sinn - en þar með er munurinn upptalinn. Ef lífið endar í moldinni þá höfum við engann tilgang með lífinu. En jafnvel þó að lífið myndi ekki enda í moldinni - segjum að á morgun komi pilla sem hægt er að gleypa til að lifa að eilífu. Án Guðs yrði eilíft líf tilgangslaust því í guðlausum heimi eru bara náttúrulögmál - það er enginn tilgangur heldur bara efni, orka og atburðir - enginn ástæða fyrir því að nokkuð er til. Án Guðs er maðurinn blind afurð efnis, tíma og tilviljana - enginn tilgangur né virði.

Að tengjast Guði

Það eru sterk rök fyrir tilvist Guðs bæði úr heimi heimspekinnar en einnig með áþreifanlegum sönnunum eins og þeirri staðreynd að Jesú reis upp frá dauðum, sem er vel rökstudd af sagnfræðilegum staðreyndum. Í Jakobsbréfinu (4:8a) segir: Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.

Hvatning mín til þín er að skrifa skref nær Guði í dag með því einfaldlega að biðja hann um að þú getir nálgast hann. Gerðu það í auðmýkt, játaðu það sem hefur farið úrskeiðis í lífi þínu og hann mun sannarlega nálgast þig.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Skiptir það þig máli að tengjast Guði? Ef svo er, hvers vegna þá?
  2. Getur þú séð fyrir þér hvaða áhrif það hefur á samfélag manna ef virði mannveru er smættað niður í afstæða hluti eins og hversu mikið gagn hún gerir fyrir samfélagið? Eigum við dæmi um slíkt úr veraldarsögunni?
  3. Ef þú ert sammála því að líf þitt hafi tilgang, hvernig myndir þú lýsa því fyrir einhverjum öðrum. Hvers vegna hefur líf þitt tilgang?

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi