Voru lærisveinarnir auðtrúa? Seinni hluti.
Í fyrri hluta sáum við að öll guðspjöllin fjögur fjalla um hversu erfitt það var fyrir lærisveinana að sannfærast um það að Jesú væri sannarlega upprisinn. Í þessum pistli skoðum við hvort fleiri bækur Nýja Testamentisins (NT) fjalla um hvort lærisveinarnir hafi verið auðtrúa.
Postulasagan er skrifuð af Lúkasi og í Pos 1:3 stendur:
Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.
Þessi óræku kennimerki eru staðreyndir sem lærisveinarnir upplifðu og gátu ekki afneitað jafnvel þó þeir reyndu. Jesú var sannarleg upprisinn og þeir sannfærðust um það þrátt fyrir að þeir efuðust í upphafi. Í fyrri hluta sáum við í Jóh 20:25-28 að menn eins og Tómas tóku meira að segja einarðlega afstöðu gegn því að Jesú væri upprisinn. Hann var því ekki einu sinni hlutlaus heldur ákveðinn í því að Jesú væri ekki upprisinn. Hversu sterkar staðreyndir þarf til að snúa einhverjum frá slíkri afstöðu?
Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. (2Pét 1:16-18 útg. 2007)
Þessi texti úr öðru Pétursbréfi er blátt áfram. Hann segist hafa séð dýrð Jesú og vitnar þar væntanlega til þess þegar Jesú ummyndaðist á fjallinu (Mat 17:1-5; Mar 9:2; Lúk 9:28-32). Svo segir Pétur “Þessa raust heyrði ég sjálfur…” M.ö.o. þá bæði heyrði hann og sá. Ótrúlegir hlutir, já, en raunverulegir engu að síður og lærisveinarnir geta einfaldlega ekki annað en greint frá því sem þeir bæði sáu og heyrðu.
Fyrra bréf Jóhannesar heldur áfram með þetta þema.
Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. (1Jóh 1:1-3 útg. 2007)
Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. (1Jóh 4:14)
Niðurstaðan er sú að það eru ekki bara guðspjöllin fjögur sem undirstrika að lærisveinarnir voru ekki auðtrúa heldur allt NT. Þeir höfðu ekkert að græða á því að búa til þá sögu að Jesú hefði risið upp. Þvert á móti þá kostaði það þá flesta lífið og mikla erfiðleika. Enda benti fátt til þess strax eftir dauða Jesú á Golgata að nokkuð meira myndi fréttast af fylgjendum hans. Þeir voru hræddir um að verða þeir næstu til að verða negldir á krossinn og létu því lítið fyrir sér fara. En þegar Jesú birtist þeim upprisinn, át með með þeim, kenndi þeim, dvaldi með þeim og leyfði þeim að þeim að þreifa á sér (Jóh 20:27), þá sannfærðust lærisveinarnir og byrjuðu í kjölfarið að segja frá Jesú, þrátt fyrir andstöðu yfirvalda.
Þessi pistill er seinni hluti af tveim. Smelltu hér til að lesa fyrri hlutann.
Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast. Þessi pistill tengist predikun sem hægt er að hlusta á eða horfa með því að smella hér.
Til umræðu eða íhugunar
- Hefur þú upplifað eitthvað sem aðrir eru vantrúaðir á að hafi gerst?
- Værir þú tilbúin(n) til að segja frá því sem þú veist að er satt, þrátt fyrir að þú ættir á hættu að lenda í fangelsi eða þaðan af verra?