Velgengni byrjar með því að hlusta og heyra

Lykilinn að velgengni er nærvera Guðs

1Mós 1:1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.

Stærsta kraftaverkið í Biblíunni kemur fram í fyrsta versi Biblíunnar. Ef Guð er nóg stór og máttugur til að skapa alheiminn úr engu þá er ekkert annað honum ofviða. Guð nær árangri í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Ef ég og þú göngum með Guði og leitumst við að laga líf okkar að því sem Guð er að gera verður framgangur, hagsæld og velgengni í lífi okkar. Það er sagt um margar persónur Biblíunnar að þær hafi gengið með Guði og þessvegna hafi líf þeirra notið velgengni.

Velgengni og hagsæld hefst með því að heyra

Lykillinn að nærveru Guðs er hlýðni

1Sa 18:12,14 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál. 14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum.

Sál var konungur á undan Davíð og hann óhlýðnaðist Guði. Það er hægt að sjá þetta fyrir sér myndrænt að ganga í aðra átt en Guð er að fara. Þannig vék Sál af vegum Guðs og gekk ekki með Guði. En Guð var með Davíð því Davíð kappkostaði að ganga með Guði. Þetta gerði Davíð fyrst og fremst með því að hlýða Guði. Guð er til staðar í lífi okkar með sína virku nærveru ef við göngum með honum.

Lykillinn að því að hlýða Guði er trú

Ef við trúum því að það sé betra fyrir okkur að hlýða Guði, þá er hlýðni auðveld og flæðir fram í lífi okkar. Ef hins vegar hjarta okkar er tvískipt og misvísandi hlutir togast á þá er hlýðni erfið.

Lykilinn að trú er að heyra og meðtaka orð Guðs

Róm 10:17 Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

Lykillinn að trú er ekki að hlýða orði Guðs heldur það að heyra orð Guðs. Hlýðni er mikilvæg en það er frekar trú sem kveikir hlýðni. Upphaf velgengni er því að hlusta og heyra orð Guðs. Þetta kveikir trú og trú leiðir til hlýðni við Guð. Hlýðni við Guð verður til þess að við göngum með Guði og það að ganga með Guði jafngildir velgengni.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa á predikunina sem þessi pistill byggir á.

Umræðuspurningar

  1. Lestu Lúk 16:10-12. Hvernig tengjast þessi vers efni pistilsins?
  2. Hvað segir Orðskv 28:13 að við eigum að gera þegar okkur mistekst? Hvað gerist ef við fylgjum ekki því ráði?
  3. Lestu Heb 3:18-19. Hvers vegna segir Guð að óhlýðni Ísraelsmanna sé vantrú? Hvað segir það okkur um þau svæði lífs okkar sem við erum að glíma?
  4. Hvað er hagkvæmt við að heyra orð Guðs? Hvaða leiðir hafa verið þér öflugastar og mest gefandi? Hvernig getum við hvatt hvert annað til að auka á ,,inntöku” okkar á orði Guðs? 
  5. Á hvaða sviðum lífs þíns þarft þú að hlýðnast Guði - að gera hlutina á hans vegu - jafnvel þó það gæti reynst erfitt?  

Bæn

Þakkaðu Guði fyrir gæsku hans að vilja blessa þig. Biddu hann að opinbera þér þar sem vantrú leynist í hjarta þínu. Iðrastu fyrir vantrú og óhlýðni í lífi þínu. Biddu Drottinn að gefa þér hjarta sem heyrir og meðtekur sannleikann sem er í orði hans og að þú mættir ganga hvern dag með honum. 

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi