Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Hópar

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Í stóra samhenginu er ótrúlega mikilvægt að tilheyra hópi. Hópar sem maður tengist geta haft góð áhrif og þeir geta líka haft slæm áhrif. Þú getur átt vini sem hafa góð áhrif á líf þitt og þú getur líka átt „vini“ sem hafa ekki góð áhrif á líf þitt.

Hópar

Það að tilheyra heimahópi hefur haft mótandi áhrif á mitt líf. Það er frábært að eiga aðgang að hópi vina sem vilja hjálpa mér að vaxa til að verða betri einstaklingur. Í góðum heimahópi lærir maður að ástunda óeigingirni og kærleika. Maður lærir að sýna öðrum samúð og samhug.

Ég hef gengið í gegnum erfiða tíma og þurft hvatningu og styrk. Þá er óendanlega dýrmætt að hafa sterkan, kristinn vinahóp sem stendur með manni með því að hlusta, biðja og uppörva. Í heimahópi lærir maður að láta sér þykja vænt um aðra og læra af reynslu annara og deila reynslu annara.

Við höfum öll breyskleika, galla og hluti sem við þurfum að vinna í í lífi okkar og heimahópur er ótrúlega góður staður til að fá að vaxa.

Þú getur heillað fólk með hæfileikum þínum en þú tengist fólki í gegnum veikleika þína.

Maður nær ekki fullum andlegum þroska bara á því að mæta á samkomur og vera óvirkur áhorfandi. Eitt af stóru verkfærunum í því að vaxa andlega er þátttaka í heimahópi. Þú hefur bakgrunn og reynslur sem annað fólk getur lært af og fengið styrk af. Guð hefur einstakt hlutverk fyrir þig í fjölskyldu Guðs. Guð hefur þjónustu fyrir þig og Guð hefur gefið þér hæfileika. Heimahópur er staður sem Guð gefur okkur til að uppgötva, móta og nota andlegar gjafir okkar og hæfileika.

Kæri lesandi. Ef þú tilheyrir ekki heimahópi þá hvet ég þig til að taka skrefið í dag. Hafðu samband við leiðtoga í kirkjunni þinni og veldu það að vera með. 

Höfundur: Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

 1. Hvað finnst þér jákvætt við tilheyra heimahópi? 
 2. Hvað óttaðist þú við að vera með í heimahópi? 
 3. Hvernig getur þú boðið öðrum að taka þátt í heimahópi? 

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Æfingin skapar meistarann

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Ástundun er nauðsynleg í öllu því sem við viljum ná árangri í til dæmis atvinnu, hlaupa maraþon, læra á hljóðfæri og svo framvegis en hvað með trúargöngu okkar? Er ekki nóg að Jesús fyrirgefi okkur syndir okkar? Þurfum við eitthvað að breytast? Þurfum við eitthvað að vaxa í trúnni?

Æfingin skapar meistarann

Í Efesusbréfinu 4:15 segir að við eigum að „vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, Kristur“. Með öðrum orðum þá er vaxtarmarkmið okkar að líkjast Jesú og það verður ekki nema með ástundun og þjálfum. Það er mikilvægt að skilja að þótt trúarleg þjálfun krefjist aga af okkar hendi, við verðum jú að gefa af tíma okkar, þá getur þjálfunin og sannarlega ávextir hennar verið ánægjuleg veitir okkur meiri lífsfyllingu. Við erum jú að æfa okkur í að nálgast Guð sjálfan sem er uppspretta alls þess sem er gott, góðra tilfinninga, gleði og ánægju. Það eru nokkrar æfingar sem eru nauðsynlegar og þurfa að vera í lífi okkar til að við náum að vaxa eðlilega.

Það fyrsta er að lesa og hugleiða ritninguna (Biblíuna). Jesús gekk út frá því að Biblían segði til um hver Hann væri og að Hann væri kominn til að uppfylla ritningarnar. Jesús vitnaði til ritninganna varðandi hvað væri rétt og rangt. Fyrst Jesú trúði ritningunum og byggði þjónustu sína á þeim þá þurfum við einnig að gera það og til þess þurfum við að lesa í Biblíunni. Við þurfum að gera það reglulega á hverjum degi til að við vitum vilja Guðs og lærum að þekkja hann betur.

Einvera og bæn er önnur æfing sem við verðum að ástunda. Jesús leitaðist sífellt eftir því að fara afsíðis til að eiga samfélag við Guð. Hann leitaði í einveruna, bænina og samfélagið við Guð. Þetta þurfum við líka að gera, við verðum að eiga stundir ein í bæn með Guði þar sem er ekkert áreiti og þar sem við getum beðið það sem er á hjarta okkar og hlustað eftir því hvað Guð hefur við okkur að segja. Á þessum stundum lærum við að þekkja röddu Guðs og fáum leiðbeiningu hans.

Við þurfum að vera í samfélagi við annað trúað fólk til að við getum vaxið. Til að við getum vaxið þurfum við að sleppa hlutum sem hindra vöxt. Þessir hlutir geta verið margvíslegir brestir eins og óreiða í fjármálum, áhyggjur, skapgerðabrestir, ótti, vanmáttur, stjórnleysi og allt sem á einhvern hátt getur bundið okkur. Guð vinnur þannig að hann vill hreinsa okkur til að við getum vaxið meira. Hann gefur okkur anda sinn til leiðbeiningar, huggunar og visku. En hann gefur okkur annað fólk til að styðja okkur og leiðbeina. Í Jakobsbréfi 5:16 stendur, „Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir,, Til þess að við getum verið andlega heilbrigð þá þurfum við á hvert öðru að halda.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

 1. Ert þú að lesa í Biblíunni? Hvenær og hvernig lest þú?
 2. Átt þú stundir í einveru og bæn (lýstu)? .
 3. Átt þú kristinn trúnaðarvin og ástundar þú það sem Jakobsbréfið 5:16 boðar?

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Náð Guðs er ekki miskunn

Skrifað af Helgi Guðnason. Posted in Pistlar

Það er ekkert á jörðinni sem jafnast á við hina kristnu hugmynd um Guð sem sýnir náð. Náðin stríðir gegn mannlegu eðli, mannlegu stolti og þörf okkar fyrir því að vera sjálfbjarga. Miskunn hinsvegar fellur vel að mannlegu eðli. Hver er munurinn?

Náð Guðs er ekki miskunn

Miskunn er þegar einhver verðskuldar hegningu en fær annaðhvort vægari refsingu en hann á skilið, eða sleppur við hegningu (oft með skilyrði um góða hegðun í kjölfarið). Þegar við hljótum miskunn getum við enn haldið stoltinu, við getum nefnilega með hegðun okkar reynst verðug miskunninni sem okkur var sýnd. Við snúum við blaðinu, gerum gott, bætum fyrir brotin, sýnum að það var rétt ákvörðun að miskunna, okkur tekst að sýna að við séum verðug miskunar.

Náðin hinsvegar, hún er svo yfirgengileg, hún gengur svo miklu lengra. Við getum aldrei reynst verðug náðar. Þegar einhverjum er fyrirgefin skuld, er honum sýnd miskunn. Þegar skuldin er þurrkuð út, einstaklingurinn er gerður að hluthafa og gefin hlutur í verðbréfasjóði sem tryggir afkomu viðkomandi út ævina… þá er það náð. Við gerum Guð oft að Guði miskunnar en förum á mis við að hann er Guð náðar.

Guð vill ekki bara fyrirgefa okkur og hafa okkur á skilorði eftir það, Guð vill taka á móti þér, gera þig að syni eða dóttur. Þú verður eins og erfingi í aðalsfjölskyldu, þú lifir ekki á hnjánum til að bæta fyrir brot þín, þau eru ekki fyrirgefin heldur afmáð. Guð úthellir gæðum sínum örlátlega yfir þá sem honum tilheyra, sama hverju við mætum, þá er Guð faðir okkar, vinur og helsti stuðningsmaður. Stærsta hindrunin fyrir okkur mannfólkið er hversu erfitt það er fyrir okkur að meðtaka það að vera sýnd náð, ekki bara miskunn.

Þessvegna trúi ég því að það þurfi kraftaverk að eiga sér stað í hjarta okkar áður en við getum meðtekið náð. Ég við þess að Guð snerti hjarta þitt lesandi góður og þú getir meðtekið náð. Mætti Guð forða okkur frá því að gera hann eingöngu að Guði miskunnar, þegar hann er Guð náðar. 

Höfundur: Helgi Guðnason. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

 1. Breytti þessi pistill/predikun einhverju um það hvernig þú skilur náð Guðs? Ef svo er, hverju?
 2. Er eitthvað sem við getum gert til að lifa í flæði náðar Guðs? Ef svo er, hvað? Eru hlutir sem hindra að við séum á þeim stað og annað sem auðveldar okkur að vera í náð Guðs? 
 3. Ef þú ert í heimahóp, lestu nokkur vers um náð, veldu þitt uppáhaldsvers og útskýrðu fyrir hinum í hópnum af hverju þú valdir þetta vers. Ef þú ert ekki í heimahóp, finndu einhvern til að ræða þetta við. Hér eru tillögur að versum um náð Guðs:
  • Est 2.16-17
  • 2Kor 12.8-9
  • Róm 3.20-24
  • Jóh 1.14
  • Róm 1.1-5
  • Pos 6.8
  • Ef 4.7
  • Heb 13.9
  • Ef 2.8-9
  • 2Pét 1.2
  • Heb 4.16
  • Tít 2.11
  • Róm 6.14
  • Róm 11.6
  • Pos 15.11

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi