Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Látum fyrirgefningu Guðs flæða inn í tengsl okkar við aðra

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ekki er það gott að maðurinn sé einn. (1Mós 2.18)

Það eina sem ekki var gott við sköpunina í upphafi var það að maðurinn skyldi vera einn. Við erum hönnuð til að vera í heilbrigðu samfélagi við aðra.

Látum fyrirgefningu Guðs flæða inn í tengsl okkar við aðra

Eftir að Adam og Eva borða ávöxtinn og tengingin við Guð rofnar þá rofna líka tengingar á milli bræðra. Bræður eiga með réttu að standa saman og gæta hvor annars. 

Abel tilbiður Guð eins og vera ber með því að játa syndir sínar og horfast í augu við að syndin kostar líf (sjá 1Mós 3.21 og 4.4-5). Kain sættir sig ekki við þetta og drepur bróður sinn af öfund yfir þessu.

Syndin einangrar og rof við Guð leiðir til rofs við aðra. Rannsóknir sýna að félagsleg einangrun er vaxandi vandamál.

Fjöldi bandaríkjamanna sem segjast vera einmana var 20% árið 1980 en var komið upp í 40% árið 2016.

Rannsóknir sýna að þeir sem búa við félagsleg einangrun:

 • Sofa verr
 • Hafa veikara ónæmiskerfi
 • Hafa meira af streitu hormónum í líkama sínum

Ein nýleg rannsókn leiddi í ljós að líkur á hjartaáfalli aukast um 32% hjá þeim sem eru félagslega einangraðir.

Jesú talaði sérstaklega um mikilvægi þess að fyrirgefningin sem við þiggjum frá Guði flæði áfram.

Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, (24) þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. (Mat 5.23-24)

Jesús segir að tenging okkar við Guð eigi að sjást í viðleitni okkar til að tengjast og fyrirgefa öðrum. Jesús segir meira að segja að það eigi að hafa forgang að leita sátta við meðbræður okkar. Það þýðir ekki að við þurfum að vera bestu vinir allra eða velja að verja tíma með öllum - en það þýðir að okkur ber að leiðrétta viðhorf okkar til allra. Okkur ber að viðurkenna syndir okkar (smbr. fórn Abels 1Mós 3.21 og 4.4-5), meðtaka fyrirgefningu Guðs og leyfa svo þessu flæði fyrirgefningar að flæða áfram inn í tengsl okkar við aðra.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast.

Til umræðu eða íhugunar

 1. Hefur þú tekið eftir því í lífi þínu hvernig syndin hefur tilhneigingu til að rjúfa tengsl við annað fólk? Taktu dæmi.
 2. Veistu til þess að einhver sé ósáttur við þig núna eða hugsi þér þegjandi þörfin? Hvernig vill Guð að þú bregðist við?

Hlusta á kennslu

Er lífið fáránlegt?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Heimspekingar eins og Jean-Paul Sarte og Albert Camus hafa rökstutt að ef það er ekki til almáttugur, algóður skapari alheimsins sem býður okkur eilíft líf, þá er lífið helber fáránleiki. Þ.e.a.s. lífið hefur hvorki virði, merkingu né tilgang. Þessir greindu menn komust ekki að þeirri niðurstöðu að Guð væri til heldur sættu sig við fáránleikann og í stuttu máli sögðu okkur að bíta á jaxlinn og gera okkar besta.

Er lífið fáránlegt?

Virði

Ef allir menn deyja og verða að dufti - hvers virði er þá líf þeirra hvers um sig? Skiptir einhverju máli að þeir hafi verið til? Ef það er enginn Guð þá erum við öll háð duttlungum náttúruaflanna - föst í blindum kassa þeirra þennan stutta tíma okkar á jörðinni - rétt eins og við værum kúla í lottóvél. Þetta er martröð nútímamannsins fjarri Guði: Vegna þess að hann endar sem ekkert þá er hann ekkert.

Merking

Ef lífið endar með gröfinni - og hún er endir alls bæði fyrir þig og aðra - þá skiptir engu máli hvernig þú lifir lífinu. Ef örlög okkar eru óháð hegðun okkar getur fólk allt eins gert bara það sem þeim dettur í hug. Án Guðs er enginn ástæða fyrir Jón Jónsson að haga sér vel nema Jón fái eitthvað útúr því. Í klassískri íslenskri mynd, Sódoma Reykjavík, var þetta orðað einhvernveginn svona: Ég geri sko ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. 

Tilgangur

Hvaða tilgang hefur líf mannsins ef það er enginn Guð? Þar með væri enginn munur á okkur og maurnum - við erum aðeins stærri og getum e.t.v. látið meira að okkur kveða um sinn - en þar með er munurinn upptalinn. Ef lífið endar í moldinni þá höfum við engann tilgang með lífinu. En jafnvel þó að lífið myndi ekki enda í moldinni - segjum að á morgun komi pilla sem hægt er að gleypa til að lifa að eilífu. Án Guðs yrði eilíft líf tilgangslaust því í guðlausum heimi eru bara náttúrulögmál - það er enginn tilgangur heldur bara efni, orka og atburðir - enginn ástæða fyrir því að nokkuð er til. Án Guðs er maðurinn blind afurð efnis, tíma og tilviljana - enginn tilgangur né virði.

Að tengjast Guði

Það eru sterk rök fyrir tilvist Guðs bæði úr heimi heimspekinnar en einnig með áþreifanlegum sönnunum eins og þeirri staðreynd að Jesú reis upp frá dauðum, sem er vel rökstudd af sagnfræðilegum staðreyndum. Í Jakobsbréfinu (4:8a) segir: Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.

Hvatning mín til þín er að skrifa skref nær Guði í dag með því einfaldlega að biðja hann um að þú getir nálgast hann. Gerðu það í auðmýkt, játaðu það sem hefur farið úrskeiðis í lífi þínu og hann mun sannarlega nálgast þig.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast.

Til umræðu eða íhugunar

 1. Skiptir það þig máli að tengjast Guði? Ef svo er, hvers vegna þá?
 2. Getur þú séð fyrir þér hvaða áhrif það hefur á samfélag manna ef virði mannveru er smættað niður í afstæða hluti eins og hversu mikið gagn hún gerir fyrir samfélagið? Eigum við dæmi um slíkt úr veraldarsögunni?
 3. Ef þú ert sammála því að líf þitt hafi tilgang, hvernig myndir þú lýsa því fyrir einhverjum öðrum. Hvers vegna hefur líf þitt tilgang?

Hlusta á kennslu

Andleg barátta

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Biblían segir okkur að andleg barátta sé háð um líf okkar. Með krossdauða Jesú sigraði hann þá baráttu í eitt skipti fyrir öll. Þeir sem velja að taka á móti honum sem frelsara sínum tilheyra sigurliðinu, eiga sigur fyrir Jesúblóð* og þurfa ekkert að óttast.

Með krossdauða Jesú sigraði hann

Jesús er vegurinn sannleikurinn og lífið, hamingjuleiðin, en óvinurinn mun gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að menn lifi lífi sínu frjálsir og í þeirri fullu gnægð sem Jesú lofar. Andleg barátta þeirra sem tilheyra Jesú gengur út á að brjóta niður þá andlegu múra sem óvinurinn hefur byggt upp og eru til þess ætlaðir að halda fólki frá sannleikanum, til að halda fólki í fjötrum fíknar, lyga, óheiðarleika og bresta.

Þegar Satan freistaði Jesú (sjá t.d. Lúk 4) svaraði hann honum með orði Guðs það var hans sterkasta vopn. Því er það mikilvægt að þekkja orð Guðs hvað það segir og kennir því enn í dag er það sterkasta vopnið.   

Annað sterkt vopn í þessari andlegu baráttu er bænin, Jesú bað mikið því hann þekkti mátt bænarinnar. Með bæninni fáum við kraft Guðs til að sigrast á skeytum óvinarins. Jakobsbréfið segir okkur að kröftug bæn réttláts manns megni mikið (Jak 5:16), krafturinn er ekki okkar eigin heldur gefinn af Guði. 

Þrátt fyrir að tilheyra Guði kemur það ekki í veg fyrir árásir óvinarins. Ef kristinn einstaklingur daðrar við syndina eða leyfir henni að viðgangast þá opnar hann dyr í lífi sínu fyrir áhrifum óvinarins sem getur skaðað eða fjötrað viðkomandi. Jesú er sá eini sem getur losað slíka fjötra.

Það er mikilvægt að vera vakandi yfir því að hvergi í lífi okkar séu opnar dyr fyrir óvininn að nýta sér til að reyna að eyðileggja líf okkar og ræna því frelsi sem Jesús gefur. Það getur verið ótal margt sem heldur opnum dyrum og veikir stöðu okkar og greiðir götu fyrir óvininn, dæmi um slíkt eru t.d. stolt, óheiðarleiki, lygi, klám ofl. Við þurfum að gæta þess að loka öllum dyrum að lífi okkar sem óvinurinn gæti notað til að reyna að fella okkur. Það gerum við með því að játa syndir okkar fyrir Guði og biðja Jesú að fyrirgefa okkur.

Guð gefur okkur einnig annað verkfæri sem er að játa syndina fyrir annarri manneskju.

Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Jakobsbréfið 5:16

Það er leyndardómur í að játa fyrir annarri manneskju, það setur glímu okkar sem hefur verið í myrkri í ljósið og þar með missir það kraft sinn (sjá t.d. 1Jóh 1). 

Biblían ítrekar að baráttan sem við eigum sé ekki við menn af holdi og blóði heldur andaverur vonskunnar í himingeimnum (Ef 6:12). Verum viðbúin vopnuð orði Guðs og bæninni og örugglega hvergi með opnar dyr í lífi okkar sem gefur óvininum færi. 

Höfundur: Dagbjört Eiríksdóttir

* Með Jesúblóð er átt við að Jesú gaf líf sitt á krossi og fyrir það eigum við sigur. Sjá t.d. Róm 5:9, Ef 1:7 og 2:13

Til umræðu eða íhugunar

 1. Veist þú hvað andlega barátta er eða hefur þú kynnst slíku? Ef svo, hvernig?
 2. Hvað finnst þér um hvernig t.d. stolt getur verið opnar dyr fyrir óvininn? Hvernig getur þessi vitneskja hjálpað okkur?
 3. Þekkir þú fólk sem er heltekið og eyðir öllum sínum fókus á andlega baráttu? Hvernig hjálpar það eða hindrar?
 4. Þekkir þú fólk sem tekur andlega baráttu ekki alvarlega? Hverning hjálpar það eða hindrar?
 5. Hverning getur þú verið viðbúinn árásum og varið þig?
 6. Hvernig má lýsa því að hafa heilbrigt jafnvægi á milli þess að kenna Satan um allt slæmt og svo þess að taka ábyrgð á lífi sínu og gjörðum?

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi