Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Í en ekki af

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Sum efni getur líkami okkar ekki myndað sjálfur heldur verður hann að fá þau úr fæðunni. C-vítamín er gott dæmi. Eftir mánuð af fæðu með litlu eða engu C-vítamíni geta einkenni skyrbjúgs komið fram. Það var James Lind, skoskur skurðlæknir í breska flotanum sem fyrstur sýndi fram á hvernig hægt væri að lækna skyrbjúg með C-vítamínríkum ávöxtum eins og appelsínum og sítrónum. Hann tók 12 sjómenn á skipi sem hafði verið 2 mánuði á sjó og skipti þeim í 6 tveggja manna hópa. Allir voru þeir veikir af skyrbjúg. Lind gaf þeim öllum sömu grunnfæðuna en gaf svo hverjum hópi mismunandi fæðu til viðbótar við það. Einn hópurinn fékk tvær appelsínur og eina sítrónu sem viðauka og á aðeins 6 dögum voru þeir tveir nánast lausir við skyrbjúginn meðan hinir allir voru annaðhvort verri eða lítið skárri.

Í en ekki af

En þetta var ekki fyrsta rannsóknin. 2300 árum áður hafði Daníel gert rannsókn um áhrif fæðu. Konungur Babýloníu, Nebúkadnesar, hafði þá flutt Daníel og félaga hans um 1500 km leið frá Jerúsalem til Babýloníuborgar þar sem átti að móta þá í siðum og menningu sigurvegaranna. Aðferð konungs við að móta heilstætt ríki fól í sér að móta leiðtoga frá þeim þjóðum sem hann hafði sigrað, leiðtoga sem myndu hjálpa honum að móta hinar sigruðu þjóðir eftir þörfum sigurvegaranna. Babýlon var stærsta borg veraldar á þeim tíma og náði hátindi veldis síns á meðan Nebúkadnesar var konungur. Þar mátti líta gríðarmiklar byggingar umluktar 18 km löngum tvöföldum borgarmúr þar sem ytri múrinn var 7,5 metra þykkur. Fornleifafræðingar hafa áætlað að hálf milljón manna hafi búið í borginni og úthverfum hennar.

Daníel var örugglega innan við tvítugt og upplifði að vera fluttur af innrásarhernum burt frá fjölskyldu sinni og heimaborg, til stærstu og mikilfenglegustu borgar veraldar á þeim tíma. Það fyrsta sem Daníel segir okkur að hann hafi tekist á við á nýjum stað er hvað hann tekur inn, hvað hann borðar.

Í Babýloníu var mikil áhersla lögð á útlit. Útlit og ásýnd er talið fyrst upp sem markmið fyrir þá sem voru valdir til dvalar í Babýloníu (Dan 1.4). Daníel gerði sér grein fyrir því að ef hann tæki inn það sama og aðrir þá yrði hann eins og þeir. Hann hafði áður tekið þá ákvörðun að helga líf sitt Guði rétt eins og áhöldin sem Nebúkadnesar tók úr helgidómi gyðinga og setti inn í musteri síns guðs (Dan 1.2) höfðu verið helguð til þjónustu í musterinu í Jerúsalem. Til að vinna verk Guðs í erfiðum aðstæðum þarf fólk sem hefur mótað líf sitt til að vinna slík verk. Þetta er sambærilegt því að nota ekki klósettburstann í uppvaskið. Við notum auðvitað verkfæri sem hæfir verkinu.

Þeir sem hafa ákveðið að fylgja Jesú Kristi standa frammi fyrir sömu áskorun í dag. Jesús hefur sent okkur inn í þennan heim en hann ítrekar að við eigum ekki að vera af þessum heimi (Jóh 17.15-18). Rétt eins og Guð gaf Jerúsalem í hendur konungi Babýlonar og leyfði að Daníel væri fluttur til Babýloníuborgar en svo var það þessi sami Guð sem notaði Daníel til áhrifa þar. Daníel var í borginni en ekki af henni (Dan 1.19-20).

Rétt eins og við verðum að fá C-vítamín úr fæðunni til að fá ekki skyrbjúg þá má segja að við þurfum við að taka kross Jesú inn í líf okkar til að kross Jesú flæði útúr lífi okkar. Ef þú vilt breyta því sem er að koma útúr þínu lífi, byrjaðu þá á að breyta því hvað þú ert að taka inn um augun, eyrun, munninn og hverju þú leyfir hugsunum þínum að dvelja við. Við erum nefnilega það sem við tökum inn.

Íhugun og framkvæmd

Jak 1:22 Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið ykkur sjálf (umorðað). Mat 7:26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.

  1. Það þarf ekki að vera, en hefur komið upp eitthvað nýlega í því sem er að koma útúr lífi þínu sem þú myndir óska að væri öðruvísi? Ef svo er, hvað? Ef það er eitthvað sem þú vilt breyta, skrifaðu það þá niður á blað, skrifaðu andstæðu þess þar við hliðina og biddu yfir þessu í nokkra daga. Andstæða væri að eiga kærleika í stað reiði, frið í stað kvíða o.s.frv Biddu Guð að sýna þér hverju þú gætir breytt í því sem þú ert að taka inn í líf þitt til að sjá breytingu í því sem er að koma út úr lífi þínu.
  2. Í lokin á predikuninni vitnaði ég í 1Pét 3.15a sem segir En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar.” og hvatti okkur til að gera ekkert án þess að rýna það fyrst með krossi Krists sem þarf að vera miðlægt í hjarta okkar. Hvaða áhrif hefur það eða gæti haft á þitt daglega líf að helga Krist sem Drottinn” í hjarta þínu?

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir einfaldlega Daníel

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu

Sjö leiðir að fersku bænalífi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er einfalt að biðja en að sama skapi reynist mörgum erfitt að eiga lifandi og vaxandi bænalíf. Hér eru sjö leiðir til að fríska upp á bænalífið.

Sjö leiðir að fersku bænalífi

1. Búðu til tíma. Daglegt líf margra er fullt af áreitum og mörgum finnst erfitt að finna stund til að einbeita sér í bæn. Hér er eitt praktískt ráð: Notaðu skeiðklukku eða einhversskonar niðurteljara eins og t.d. eggjaklukku. Einnig má nota snjalltæki eins og síma eða Ipad. Stilltu niðurteljarann á þann tíma sem þú ætlar að nota til að biðja, t.d. 10 eða 30 min. Notaðu tækifærið og settu nálæg snjalltæki á flugstillingu svo enginn píp eða hringar trufli. Svo setur þú tækið af stað. Á meðan það telur niður getur þú einbeitt þér algerlega í bæn og þarft ekki að hugsa um neitt annað. Þú getur treyst því að þegar klukkan hringir er tíminn liðinn og þú getur snúið þér aftur að önnum dagsins.

Þetta hefur reynst mér vel til að búa til stuttar gæðastundir með Guði. Guð mun ekki hrópa hærra en áreitin í kringum okkur en þegar við búum til rými, stað og stund til að verja tíma með honum mun hann sannarlega mæta okkur. Jak 4:8a Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.

2. Að elska Guð. Leggðu í vana þinn að nota lausu stundirnar til að tala við Guð. Það eru oft tækifæri yfir daginn þar sem við erum á milli verka eins og sagt er. Bíða í biðröð í verslun, í bíl, ganga frá einum stað á annan. Notum þessar lausu stundir til að beina huganum til Guðs og einfaldlega tjá honum kærleika, segja honum að við elskum hann og beina hjarta okkar að því elska Guð. Jesús sagði: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.' (Mat 22:37) Framkvæmum þessi orð Jesú blátt áfram með því að tjá Guði kærleika og elsku oft yfir daginn.

3. Skrifa bænir. Ef þér finnst bænir þínar þurrar eða missa marks prófaðu þá að setjast niður með skriffæri og skrifa niður það sem býr í huga þínum og hjarta sem bæn. Vertu eins einlæg(ur) og þú getur og án allrar yfirborðsmennsku. Segðu hlutina eins og þeir eru í bæn til Guðs. Þetta getur verið stutt eða langt. Þegar bænin er fullskrifuð þá taktu þér stöðu og lestu bænina upphátt fyrir Guð, hægt og rólega. Staldraðu við og endurtaktu staði eins og þurfa þykir.

Þegar við skrifum niður hugsanir okkar kemur fókus og festa. Ég hef átt margar áhrifamiklar stundir með Guði með því að skrifa niður bænir. Að skrifa bænina niður gerir hugsanir okkar og ástand áþreifanlegt og hjálpar okkur að vera einlæg og gagnsæ frammi fyrir Guði.

4. Biddu í gegnum ritninguna. Biblían er full af bænum og versum sem hægt er að bæði biðja beint eða biðja útfrá og í kringum.

Tökum dæmi úr Ef 1:3-6 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum. (4) Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum (5) ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun (6) til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.

Þakka Guði fyrir blessun hans (v3) Þakka fyrir útvalningu hans (v4) Biðja Guð um helgun og hreinsun. Gerðu mig lýtalausan Drottinn (v4). Þakka þér fyrir að ég sonur þinn (v5) O.s.frv.

Það gefur bæn okkar sterkan grunn að biðja útfrá ritningunni. Í leiðinni erum við að hugleiða og læra orð Guðs og sláum þannig margar flugur í einu höggi.

5. Að biðja í tungum. Páll postuli skrifar: 1Kor 14:4 Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig . Tungutal er náðargjöf sem byggir okkur upp þegar við notum hana. Stilltu t.d. skeiðklukku á 10-15 min, gakktu um gólf og biddu í tungum. Ef þú hefur spurningar varðandi tungutal eða vilt eignast tungutal þá hafðu samband. Tungutal er frábær gjöf frá Guði sem hægt er að vaxa í með því að nota hana, rétt eins og aðrar gjafir.

6. Biðja með fáum orðum. Stundum flækjast orð bara fyrir og það er frískandi að sitja í nærveru Guðs og hafa sem fæst orð. Einfaldlega dvelja í nærveru hans. Þá getur verið gott að biðja aftur og aftur eitt vers eða stutta bæn eins og þessa: Jesús, sonur Guðs, miskunna þú mér.

7. Lestu góða bók um bæn. Góð bók um bæn er frábær leið til að fá hvatningu til að biðja og leita Guðs í eigin lífi. Það eru til nokkrar góðar bækur á íslensku eins og t.d. Að biðja eftir Ole Hallesby. Ef þig vantar tillögur þá biddu einhvern vel lesinn um tillögur.

Það er ekkert sem jafnast á við bænina í því að umbreyta hjarta okkar og breytni - E. M. Bounds

6 vegatálmar sem hindra andlegan vöxt þinn

Skrifað af Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir. Posted in Pistlar

Fyrir nokkrum dögum síðan var ég að keyra frá heimili mínu í Georgiu til kirkju í Alabama til að predika í 5 daga. Ég hélt ekki að hin mikla snjókoma sem spáð hafði verið myndi hindra ferð mína þangað til ég kom til bæjarins Anniston. Þar hafði lögreglan lokað aðalveginum vegna íss á brúm.

6 vegatálmar sem hindra andlegan vöxt þinn

Vegurinn var lokaður og ég komst ekki frá Birmingham á þjóðvegi 431.  Þegar ég reyndi aðra leið mætti ég bara meiri ís og vegartálmum.  Þetta hafði aldrei komið fyrir mig í Flórída - þar höfum við ekki ís á vegum.  Svo ég var fastur.  Ég varð að snúa við og fara heim.

Sem betur fer færði gestgjafi minn samkomurnar og ég kom til kirkjunnar hans tveimur dögum síðar, eftir að allur ísinn hafði bráðnað.  En öll þessi reynsla minnti mig á að það eru stundir þar sem við getum ekki farið þangað sem við þurfum að fara því vegir okkar eru tepptir.

Sem kristnir einstaklingar erum við kölluð til að stíga skref fram á við í trúnni.  Páll postuli setti okkur fordæmi þegar hann sagði: “[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til” (Fil. 3.14).  Þú átt ekki að vera á sama stað andlega ár eftir ár.  Guð vill að þú vaxir.  En oft setjum við okkur föst, yfirleitt vegna þessara 6 vegartálma:

1. Skortur á andlegu hungri.  Viðurkennum það: Helsta ástæða þess að margir kristnir einstaklingar festast í hjólförum er að þeim líður bara vel þar.  En Guð leitar að fólki sem neitar að sætta sig við að vera um kyrrt þar sem það var á síðasta ári.  Hann kallar þig lengra.  Þú verður að biðja heilagan anda að tendra í hjarta þínu þrá eftir meira af nærveru Drottins og krafti.

Davíð er fordæmi okkar hvað varðar andlegt hungur.  Hann skrifar: “Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð” (Sálm. 42.2).  Honum leið í raun ömurlega þegar hann skrifaði þessi orð, svo við getum ekki notað tilfinningar okkar sem afsökun.  Davíð hélt logum andlegrar ákefðar lifandi jafnvel þegar hann langaði helst bara að hætta þessu öllu saman. 

2. Leti.  Mörg okkar eru full af ákefð í byrjun árs að biðja, rýna í Biblíuna, byrja aftur í skóla eða grennast.  En enginn vinnur kapphlaup með því að spretta fyrstu 15 metrana og setjast svo niður.  Sigurvegarar verða að halda sig í leiknum.  Þú verður að vera ákveðinn í að klára það sem þú byrjar á í stað þess að skilja eftir slóð af yfirgefnum tilraunum.

Páll hvatti söfnuðinn í Róm til að vera “brennandi í andanum,” en fyrst varaði hann þá við því að vera “hálfvolg í áhuganum” (sjá Róm. 12.11-12).  Gríska orðið sem er notað hér er “okneros,” sama orð og Jesús notar í dæmisögunni um lata þjóninn sem ávaxtaði ekki féð sem honum var falið af húsbónda sínum til umsjár.  Ef þú situr á draumum þínum eða frestar þegar þú ættir að stuðla að vexti trúar þinnar má setja merkimiðann “latur” á þig.  Ekki bara byrja og gefast svo upp.  Vertu stöðugur og haltu áfram.  Ekki hætta.

3. Farangur sem íþyngir.  Ísraelsfólkið sem yfirgaf Egyptaland hefði getað þrammað inn í Fyrirheitna landið á nokkrum vikum, en það endaði fast í sama fari í 40 ár.  Hvers vegna?  Það dró syndir sínar með sér.  Því meiri farangur sem þú dregur á eftir þér, því ólíklegra er að þú náir á áfangastað.

Farangur sem íþyngir

Ég þekkti kristinn mann sem þjónaði meðal háskólanemenda.  En vegna þess að hann neitaði að leita hjálpar vegna klámfíknar sinnar kom sú fíkn í veg fyrir að hann gæti virkað eðlilega.  Hún endaði með að draga hann svo langt niður að hún eyðilagði bæði hjónaband hans og þjónustu.  Þú gætir haldið að þú getir stjórnað synd þinni, að þú hafir vald yfir henni, en hún er máttugri en þú.  Þú getur ekki tekið skref í rétta átt með hlass af skömm og fíkn á bakinu.  Iðrastu, játaðu veikleika þinn fyrir einhverjum öðrum og öðlastu frelsi.

4. Ótti við breytingar.  Margir finna tog í hjarta sínu sem segir: Byrjaðu í þessum Biblíuleshóp.  Farðu í þessa kristniboðsferð.  Skrifaðu þessa bók.  Startaðu þessum rekstri.  En þeir komast aldrei yfir fyrsta skref því þeir frjósa í sporunum.  Ekkert heldur þér í andlegri óvissu eins og ótti.  Hann lamar.

Sumir halda draumum sínum innra með sér áratugum saman - og taka þá svo með sér í gröfina.  Ef þú vilt vaxa verðurðu að taka áhættu.  Ekki láta ótta þinn við að tala á almannafæri, fljúga í flugvél, vera í stórum hópi fólks, hitta ókunnuga eða fá gagnrýni stoppa þig í að treysta á þann Guð sem er stærri en allir þessir hlutir.

5. Grunnhygginn sambönd.  Hverjum verð þú tíma með?  Leiðir Abrahams og Lots urðu að skilja því markmið þeirra voru mjög ólík.  Lot hafði sjálfhverfa innri hvöt, en Abraham hafði gefið sig allan undir Guðs vilja.  Ef þú eyðir öllum tíma þínum með sjálfselsku fólki sem er sátt við að lifa andlega ávaxtalausu lífi, þá endarðu eins og það.

Ef þú vilt stíga skref fram á við í andlega lífinu þetta árið, ekki vænta þess að stór hópur fólks fylgi þér.  Sumt fólk óskar ekki nærværu Guðs.  Ekki láta það draga þig niður.  Vertu viljugur að finna nýja vini sem vilja styðja þig í andlegri skuldbindingu þinni.

6. Fortíðar trúrækni og kreddufesti. Fólk sem er fast í trúrækni fortíðar byggir Guði minnismerki um það sem gerðist árið 1967, syngur söngva frá þeim tíma og skrifar bækur um “svona höfum við alltaf gert þetta.” En þegar Heilagur Andi kallar þau til að syngja nýjan söng (Sál 96.1), eða hann byrjar að gera nýja hluti (Jes 43.19a) þá móðgast þetta sama fólk. Þau eru föst í því að Guð starfi nákvæmlega eins og hann gerði fyrir 50 árum síðan.

En Guð er ekki alltaf á sama stað né gerir hlutina eins og áður. Hver hann er breytist ekki en hann kemur sífellt með ferskt orð og smurningu að úthella yfir sitt fólk. Hann elskar að koma okkur á óvart og gera framyfir það sem við gætum búist við. Ekki láta fortíðartrúrækni og kreddur halda þér frá því að upplifa ævintýri með Heilögum Anda Guðs.

Til umhugsunar

  1. Öðru hverju er gott að staldra við og gera vörutalningu í eigin lífi. Á stórhátíðum eins og jólum og páskum er þetta tilvalið. Hvernig er staðan í þínu lífi? Ef það skortir vöxt í þínu lífi, getur verið að eitthvað af því sem Lee talar um hér fyrir ofan sé til staðar? 

Höfundur: Lee Grady - tekið af bloggi hans Fire in my bones Þess má geta að Lee Grady verður aðal ræðumaður á Kotmóti 2017. Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir þýddi en Ágúst Valgarð Ólafsson rýndi og setti upp textann.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi