Fréttir af aðalfundi 2018

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Fimmtudaginn 17.maí kl.18 var aðalfundur kirkjunnar. Það var mjög góð stemmning á fundinum og fulltrúar starfsgreina kirkjunnar fluttu gott yfirlit af starfsárinu 2017. Margt gengur vel og við eru þakklát fyrir trúfasta þjónustu margra.

Á fundinum las ég upp eftir farandi bréf sem fjallar um mögulegar breytingar framundan hjá okkar fjölskyldu.

--

Selfoss 16.maí 2018

Það tvennt sem ég hef lagt mesta áherslu á í þjónustu seinustu ár er annars vegar trúboð og trúvörn og hinsvegar að gera fólk að lærisveinum. Þetta tvennt er það sem skortir einna helst á Íslandi til að sjá framgang fyrir fagnaðarerindið og er það sem Guð hefur kallað mig til að vinna að.

Árið 2016 kom ég að því að bókin Vöxtur, þjálfun í stað áreynslu, var gefin út. Þessi bók menntar heilbrigða lærisveina. Til að gefa bókina út þurfti að semja um leyfi við Thomas-Nelson bókaforlagið í Bandaríkjunum. Í gegnum þau tengsl kynntumst við Kolbrún svo Dr. Rice Broocks og heyrðum af áhuga hans á því að bók hans Guð er ekki dáinn, kæmi út á íslensku.

Á seinustu tveim árum hef ég unnið með Dr. Rice við útgáfu bókarinnar og tvö trúboðsátök hér á Íslandi. Eftir þetta sé ég enn betur þörfin og tækifærin fyrir meira trúboð hér á Íslandi með þeim aðferðum sem Dr. Rice hefur mótað.

Ef við tökum fjöldann í okkar hreyfingu, Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, þá hefur hann staðið í stað á seinustu árum. Við náum ekki að fylgja fólksfjölgun í landinu sem merkir að miðað við hlutfall af höfðatölu fer okkur fækkandi. Engu að síður er ég mjög bjartsýnn því í samtölum við unga guðleysingja þá sé ég að ef rétt er farið að þá fær fagnaðarerindið hljómgrunn og vekur fólk til umhugsunar.

Dr. Rice hefur nú boðið mér að koma í fullt starf honum til aðstoðar næstu 1-3 árin. Ég yrði hans hægri hönd við sambærileg Guð er ekki dáinn verkefni í öðrum löndum, Bandaríkjunum, Evrópu og víðar. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig til að fá þjálfun í trúvörn og trúboði. Að þessum tíma loknum hefði ég meiri getu og jafnvel fjárhagslegan stuðning til að vinna að enn frekari trúboði hér heima á Íslandi. Þetta merkir síður en svo að áherslan á Ísland minnki heldur þvert á móti. Rice vill auka áhersluna á Ísland. Hann hefur nú þegar sýnt að hann er tilbúinn að fylgja eftir því sem hann byrjar á.

Að þiggja þetta starf þýðir að við fjölskyldan þurfum að flytja til Nashville í bandaríkjunum. Ef af verður þyrftum við Kolbrún því að láta af forstöðu í Hvítasunnukirkjunni á Selfossi.

Ég verð í Nashville núna seinustu vikuna í maí og eftir þá heimsókn gerum við ráð fyrir að málin hafi skýrst nógu vel til að við getum tekið endanlega ákvörðun. Stefnan er sett á að flytja út um miðjan ágúst núna í haust. Ennþá lítur þetta allt vel út þó aldrei sé hægt að sjá allt fyrir.

Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun en við erum sannfærð um að þetta sé leiðsögn Guðs og höfum frið fyrir þessu öllu.

Við Kolbrún erum afar þakklát fyrir þessi þrjú ár sem við höfum verið í forstöðu hér á Selfossi. Vissulega hefðum við kosið að ljúka þeim fjórum árum sem við vorum kosin til en vonum að þið samgleðjist okkur yfir þessu tækifæri og sjáið eins og við möguleikana sem þetta hefur fyrir fagnaðarerindið á Íslandi ef af verður.

Ágúst Valgarð Ólafsson

Ofurskálin 2018

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Það var frábær stemning þegar yfir 20 manns komu saman til að horfa á Ofurskálina í gærkvöldi. Hér til vinstri sést hluti af hópnum. Til gamans þá giskuðu menn á það fyrir leik hver úrslitin yrðu. Smelltu hér til að sjá niðurstöðuna. Ágúst og Bynjar deila efsta sætinu, þeir spáðu rétt fyrir um hver ynni og einnig voru þeir næst því að giska á fjölda stiga.

Við óskum Eagles til hamingju með sigurinn.

Frelsið er yndislegt

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Ef við erum kristin þá hefur Drottinn leitt okkur út úr þrældómi. Krossdauði Jesús fjarlægði örvæntingu, myrkur og færði okkur á stað sigurs, styrks og frelsis. Það gamla er farið, nýtt er orðið til. Við erum ný sköpun (2Kor 5:17).

En.... gamli þrældómurinn hangir oft í okkur. Það er erfitt að hrista af sér gamlar skaðlegar hugsanir og fast mótaðar en skaðlegar venjur í lífi okkar. Stundum er þetta íþyngjandi og við þráum að geta verið algerlega frjáls frammi fyrir Guði.

Við þurfum að horfast í augu við að það er andleg barátta sem á sér stað um okkur. Við þurfum að stíga 100% inn í áætlun Guðs um að lækna þennan breyska heim. Við þurfum að stíga inn í líf lækningar, hreinleika, frelsis, helgunar og sannleika.

Frelsið er yndislegt predikunarserían fjallar um hvernig. Vertu með frá byrjun. Fyrsta predikunin er 1.okt og seríunni lýkur 3.des.

Bænaátak 2017

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Bænaátak 2017

Markmið bænaviku og bænaátaks okkar í janúar 2017 er að hefja árið með helgun og bæn fyrir kirkjunni allri og þjónustu hennar. Við viljum leita Guðs, heyra frá honum og biðja til hans um framgang í starfi kirkjunnar. Bænavika hefur verið í upphafi árs í Hvítasunnukirkjunni á Selfossi í mörg ár, núna ætlum við að fylgja bænavikunni eftir með bænaátaki strax í kjölfarið.

 • 8.jan sunnudagur - bænavikan er kynnt og hefst formlega á sunnudagssamkomu kl.11. Þorsteinn Jóhannesson mun kenna um bæn og bænabaráttu.
 • 9.jan - 12.jan (mán-fim) verða bænastundir í kirkjunni alla daga kl.18
 • 13.jan föstudagur - lofgjörðar og bænastund kl.20
 • 14.jan laugardagur - bænastund í kirkjunni kl.18
 • 15.jan sunnudagur - bænaviku lýkur á sunnudagssamkomu kl.11
 • 16.jan mánudagur - M18 bænastund kl.18 í heimahúsi og svo áfram í vetur á mánudögum og miðvikudögum.

Yfir bænavikuna hvetjum við alla til að fasta með einhverjum hætti, annað hvort hluta tímans eða alla vikuna. Dæmi:

 • Fasta tengd mat, t.d. fasta á kaffi, sætindi eða sleppa úr máltíðum. Einnig má taka svokallaða Daníelsföstu og borða aðeins ávexti og grænmeti.
 • Fasta á sjónvarp/tölvu/Facebook
 • Vakna fyrr en venjulega til að biðja einhverja daga

Á bænaátakinu í kjölfarið verðum við með sérstaka bæn áfram, m.a. fyrir kirkjunni okkar og Selfossbæ. Hluti af þessu átaki verður á starfsmannafundinum 19.jan ofl.

Vertu ekki feiminn að mæta á bænastundir og taka þátt í bæninni með okkur. Við erum ólík og biðjum e.t.v. ólíkt eins og við erum mörg. En við vöxum í bæn og lærum að biðja með því að biðja :-) Enginn er skyldugur að biðja upphátt. Á öllum bænastundum verður einhver sem sér um að leiða stundina.

Hafðu samband ef þú hefur spurningar eða innlegg. Hvetjum safnaðarmeðlimi til að fylgjast með á lokaða Facebook hópnum okkar þar sem við fjöllum nánar um bænaátakið. Minnum einnig á að hægt er að senda inn bænarefni hér á heimasíðunni.

Að lesa Biblíuna á nýju ári

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Að lesa Biblíuna á nýju ári

Það eru til margar leiðir að lesa Biblíuna. Að nota Biblíulestraráætlun hefur marga kosti:

 • Góð áætlun gefur góða yfirsýn yfir Biblíuna. Við lesum þá líka staði sem eru e.t.v. ekki vinsælir en geta verið afar gagnlegir.
 • Þú veist alltaf hvar þú ert staddur/stödd.
 • Einfalt markmið að keppa að.

Að sama skapi ber að varast að taka magn fram yfir gæði. Lestur á Biblíunni á ekki að snúast um að við komumst í gegnum Biblíuna heldur frekar að koma Biblíunni í gegnum okkur (John Ortberg).

Unglingastarf kirkjunnar fór af stað með Biblíulestrarátak núna um áramótin. Hvernig væri að fylgja fordæmi krakkana og setja sér áætlun um að lesa reglulega í Biblíunni á nýju ári? Það er hægt að velja úr nokkrum áætlunum, t.d.:

Öll Biblían á einu ári - 4 lestrar á dag

 • Þetta er áætlun þar sem öll Biblían er lesin á einu ári. Áætlunin skiptist í fjóra dálka eða hluta:  
  • guðspjöll
  • bréf og postulasagan
  • vísdómsrit, sálmar og ljóð
  • sögulegar bækur og spádómsrit
 • Um fjórir kaflar lesnir á hverjum degi frá mismunandi stöðum í Biblíunni.
 • Hægt að byrja hvenær sem er á árinu. Ef þú byrjar í dag þá lýkur þú áætluninni einfaldlega á sama degi á næsta ári.
 • 25 lestrar í hverjum mánuði til að gefa svigrúm til að ná upp dögum sem hafa dottið út og/eða taka sér tíma til að skoða nánar tiltekna staði.
 • Áætluninni er skipt í fjóra hluta á hverjum degi (sjá hér ofar). Ef það er of stórt verkefni að lesa alla Biblíuna á einu ári er hægt að skipta áætluninni á tvö ár, taka t.d. guðspjöll, vísdómsrit, sálmar og ljóð fyrra árið en hina tvo flokkana seinna árið.
 • Smelltu hér til að sækja þessa áætlun, öll Biblían á einu ári.
 • Þessi áætlun tekur um 15-20min. á dag.

Yfirlit yfir Biblíuna á einu ári

Þetta er styttri áætlun þar sem það er lesin u.þ.b. einn kafli í Biblíunni á dag. Smelltu hér til að sækja þessa áætlun. Aftast í þessari áætlun er lesning á íslensku, góð ráð ofl. varðandi lestur á Biblíunni. Þessi áætlun ætti ekki að taka meira en 5-10min. á dag.

Biblíulestraráætlun Biblíufélagsins 2017

Hið íslenska Biblíufélag hefur árlega gefið út Biblíulestraráætlun með stuttri lesningu fyrir hvern dag. Smelltu hér til að sækja þessa áætlun. Hafðu samband við Biblíufélagið til að fá prentuð eintök af þessari áætlun.

Öll Biblían á einu ári - 2 lestrar á dag

Hér er önnur áætlun þar sem öll Biblían er lesin á einu ári en með tveim lestrum á dag. Sumum finnst e.t.v. of víða farið að hafa 4 lestra á dag eins og í áætluninni hér fyrir ofan, þá getur þessi áætlun með 2 lestra á dag verið góður valkostur - smelltu hér til að sækja þessa áætlun.

 

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi