Orð hafa áhrif
Heimurinn á upphaf sitt í orðum. Guð sagði „Verði ljós” og alheimurinn þandist út. Allt sem er í kringum þig er skapað með orðum. Guð skapaði okkur í sinni mynd sem merkir að við líkjumst Guði að einhverju leyti. Eitt af því sem við líkjumst Guði með er að orð okkar hafa áhrif.
Davíð konungur skrifaði Sálm 13. Þessi sálmur er eitt af mörgum dæmum í Sálmunum þar sem erfiðar tilfinningar eru tjáðar. Fjórum sinnum endurtekur Davíð „Hve lengi” og kvartar við Guð. En Sálmurinn hættir ekki þar. Undir lokin segir „Ég treysti gæsku þinni” (vers 6). Það er greinilegt að Davíð er ennþá í erfiðum aðstæðum en samt sem áður notar hann orð sín til þess að játa orð Guðs og loforð. Davíð segist treysta á gæsku Guðs í aðstæðum þar sem Davíð hafði skrikað fótur (vers 5). M.ö.o. þá hljómar þetta eins og Davíð hafi klúðrað einhverju (skrikað fótur) og er þess vegna kominn í vandræði. Hann ákallar Guð um hjálp og kvartar yfir því að hjálpin sé ekki komin (Hversu lengi…). Samt sem áður endar hann sálminn á því að segjast treysta gæsku Guðs og gleðjast yfir hjálp sem virðist samt ekki vera komin!
Guð sagði um Davíð að hann væri maður eftir hjarta Guðs (Pos 13:22 og 1Sam 13:14). Það er uppörvandi að þannig maður biðji svona. Það þýðir að þó að mér skriki fótur þá get ég samt treyst á gæsku Guðs og þakkað Guði fyrir hver hann er og hjálp hans. Að biðja þannig er að biðja eftir hjarta Guðs.
Að nota tungu okkar til að játa og lýsa því yfir hver Guð er, sérstaklega í erfiðum aðstæðum, hefur áhrif. Vissulega þurfum við að tjá tilfinningar okkar og jafnvel kvarta, eins og Davíð gerir í fyrstu versum Sálms 13. En stoppum ekki þar. Notum orð okkar til að lofa Guð, játa hver hann er og fyrirheiti hans. Það hefur áhrif.
Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi úr Efesusbréfinu um yfirlýsingar sem eru sannar fyrir alla þá sem treysta Jesú. Búið er að umorða versin. Notaðu þessar yfirlýsingar sem bæn fyrir eigið líf. Talaðu þetta upphátt eða biddu þetta yfir öðru fólki.
- Máttur Guðs í mér er sami krafturinn og vakti Jesú upp frá dauðum. Ef 1:19-20
- Ég var eitt sinn fjarlægur en er nú orðinn nálægur í Kristi, fyrir blóð hans. Ef 2:13
- Ég er bústaður handa Guði fyrir anda hans. Ef 2:22
- Í trúnni á Jesú á ég öruggan aðgang að Guði. Ef 3:12
- Megi Kristur fyrir trúna búa í hjarta mínu og að ég verði rótfestur og grundvallaður í kærleika. Ef 3:17
Það eru mörg önnur loforð og yfirlýsingar í Efesusbréfinu og öðrum bókum Biblíunnar. Notaðu sömu aðferð og hér að ofan til að búa til þínar eigin yfirlýsingar úr öðrum versum. Þannig hefur orð Guðs áhrif á líf þitt og annarra á ferskan hátt.
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.