Hvað kemur barnið í jötunni mér við?

Skrifað af Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir. Posted in Pistlar

Við vitum öll að við höldum jól af því að Jesúbarnið fæddist í Betlehem fyrir löngu síðan. Og það er falleg saga og allt - en spurningin er: Hvað kemur barnið í jötunni mér við? Það byrjar allt með að ég er dauðleg manneskja. Ég bý í þessum heimi þar sem er sársauki, illska og dauði. Á himnum hjá Guði er ekkert af þessu. Hvers vegna í ósköpunum valdi Jesús að yfirgefa dýrðina sem hann bjó í á himnum og koma niður á jörðina, og ekki nóg með það, heldur kom hann á jörðina sem dauðlegur maður, með öllum þeim takmörkunum og sársauka sem fylgir því að vera maður. Hann lagði guðdóm sinn til hliðar til að vera að öllu leyti dauðleg manneskja.

Hvað kemur barnið í jötunni mér við?

Hvað þýðir það fyrir mig að sjálfur Guðs sonur fæddist sem lítið, fátækt mannsbarn á þessari jörð? Eins og ég sagði, þá er ég dauðleg, breysk manneskja. Líf mitt getur endað hvenær sem er og ekkert er tryggt í þessum heimi. Ég hugsa mest um sjálfa mig og ég hef oft gert eitthvað sem særir aðrar manneskjur. Heimurinn er skakkur og brenglaður.

En Guð leit niður á ráðvillt mannfólkið og sá sársaukann sem það lifði í af því það þekkti ekki Guð, en hjá Guði er allt fullkomið og allt gengur upp. Og hann kenndi í brjósti um fólkið. Hann vildi ekki að það lifði lengur í myrkrinu, svo hann gaf því ljósið, sitt ljós, augasteininn sinn, einkasoninn. Ég lifði í myrkrinu því ég þekkti ekki Guð og vissi ekki hvað var best fyrir mig. Guð er of flókinn og stórfenglegur til að skilja hann - en einmitt þess vegna varð Jesús maður. Hann varð eitthvað sem við gátum séð, hann hafði rödd sem við gátum hlustað á og hann flutti undursamlegan og torskildan boðskap Guðs í líkingum úr daglegu lífi fólks, svo það gæti skilið smávegis í því sem er eiginlega of stórt til að skilja það.

Guð er of heilagur til að við, óbreytt mannfólk, getum séð hann eða snert, en Jesús var maður mitt á meðal okkar. Hann upplifði sama sársauka og við. Hann upplifði sömu freistingar og við, en stóðst þær allar vegna ótrúlegs sambands síns við Guð föður. Hann varð svangur og hann varð þyrstur og hann varð þreyttur. Hann skilur hvernig okkur getur liðið af því að hann hefur upplifað það sjálfur. Hann kom og kenndi okkur um Guð, og enginn veit meira um Guð en hann, því hann hefur búið hjá honum um eilífð. Hann kom og lifði fullkomnu lífi og var fyrirmynd fyrir okkur. Hann sá þá sem lifðu alls ekki fullkomnu lífi, hann kenndi í brjósti um þá og fyrirgaf þeim syndir sínar, frelsaði þá frá því sem hafði eyðilagt líf þeirra og gaf þeim tækifæri til nýs lífs. Hann kallaði fólk til fylgis við sig, því að hann er ljósið og hann vísar veginn inn til Guðs. Við vitum ekki hvernig við eigum að nálgast Guð, en Jesús gerðist milligöngumaður. Þegar við skildum ekki Guð var Jesús maðurinn sem við gátum séð og snert og heyrt og hann fór fyrstur inn í nærveru heilags Guðs, bjóðandi okkur að fylgja.

Hér kemur þetta magnaða: Guð er stór og almáttugur og við erum lítil og heimsk og ómerkileg í samanburði við hann. En, þvert á alla skynsemi, bar hann kærleika í brjósti til okkar mannanna, og vildi bjóða okkur að búa með sér að eilífu. Ekki nóg með það, hann vildi ættleiða okkur sem sín eigin börn. Jesús er frumburðurinn, og þeir sem velja að trúa á hann fá þann óverðskuldaða heiður að kallast systkin hans. Hann kom og fékk líkama eins og við, þjáðist eins og við, og hann dó, sjálfur sonur Guðs dó eins og hver annar óbreyttur maður. En hann var einnig sá fyrsti til að rísa upp til eilífa lífsins hjá Guði, en það munu öll systkini hans gera, sem trúa á hann og játa nafn hans.

Þessi gjöf frá Guði er óskiljanleg og ótrúleg, gefin bara vegna náðar hans og kærleika, ekki af því að við verðskulduðum neitt af þessu. Það eina sem við getum gert er að taka við - og gefa víðar.

Ég ætlast ekki til þess að þú skiljir þetta til fulls - og kannski skilur þú alls ekki. En ég bið þess að Guð opni augu þín fyrir kærleika sínum, sem er ofar öllum skilningi, því hann er það besta sem þú getur vitað. Það besta við þetta er að þú þarft ekki að skilja neitt af þessu til þess að það sé satt. Það er ekki bundið okkar skilningi. En þetta var gjöf Guðs til þín. Var - og er. Gleðileg jól.

Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. Því að víst er um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. Því varð það að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu. - Hebreabréfið 2:14-18

 Höfundur: Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi