Fyrirgefning er val

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Flestir vilja að lífið gangi vel. Við viljum sem minnst af depurð, sorg og sársauka en sem mest af friði, gleði og fullnægju í líf okkar. En veröldin sem við búum í er oft ósanngjörn. Oft sjáum við slæma hluti henda gott fólk. Hvernig eigum við að bregðst við þegar aðrir gera okkur illt hvort sem það er óvart eða af ásetningi? Jesús var mjög afdráttarlaus þegar hann kenndi að réttu viðbrögðin eru fyrirgefning.

Mat 6:14-15 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. (15) En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

Rifrildi

Fyrirgefningin er einn lykilinn að blessun Guðs. Þegar Jesú dó á krossinum tók hann á sig allt rangt sem við höfum gert og gaf fyrirgefningu í eitt skipti fyrir öll.

Réttlæti eða miskunn?

Hefur þú lent í því að vilja miskunn og náð fyrir þig sjálfa(n) þegar þú brýtur gegn öðrum en krefjast svo réttlætis þegar brotið er gegn þér? Sá staður þar sem náð Guðs og blessun flæðir er þegar við fyrirgefum öðrum og gerum það að mynstri í lífi okkar. Á þessum náðarstað eigum við frið við alla menn, frelsi og hugarró. Þegar við veljum að stíga út úr þessum náðarstað veljum við dóm fram yfir miskunn, þar hefur óvinurinn aðgang að huga okkar og rænir okkur friði og frelsi

Fyrirgefning er val!

Lækur

Fyrirgefning opnar hjartað svo lækir lifandi vatns geti flætt óhindraði í lífi okkar. Innri sársauki, ófyrirgefning og biturleiki dregur úr okkur allan mátt og fangelsar. Skortur á fyrirgefningu rænir okkur friði, frelsi og sannri gleði.

Fyrirgefning er ekki að samþykkja það sem gert var á þinn hlut heldur að velja að losa viðkomandi undan dómi þínum svo að ÞÚ getir orði frjáls. Það getur verið erfitt val að fyrirgefa en Guð getur gefið okkur að vilja og framkvæma. Það sem virðist ómögulegt og ógerlegt er hægt með því að biðja Guð um hjálp. Vitur maður sagði eitt sinn: Að fyrirgefa ekki er líkt og að drekka eitur og vonast til að hinn aðilinn deyi. Veldu að fyrirgefa, þín vegna!

Jóhannes Hinriksson predikaði um fyrirgefninguna 14.ágúst 2016.

Dagbjört Eiríksdóttir

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi