Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Mýtur um líf í trú

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ef líf í trú er að vera lærisveinn Jesú Krists og vilja fylgja honum eftir bestu getu þá er mikilvægt að þekkja hvert markmiðið er. Þeim sem hefur takmarkaðann eða rangan skilning á því hvað það er að vera lærisveinn má líkja við bogfimikappa sem miðar á rangt mark. Til hvers að skjóta örvum ef þeim er ekki miðað á rétta markið?

Fallnir kristnir leiðtogar

Í þessum stutta pistli verður fjallað um tvær mýtur um það að lifa í trú. Til að heyra fleiri mýtur skaltu smella hér. Mýta er hnyttið orð sem merkir goðsögn eða eitthvað sem fólk álítur ranglega að sé satt.

Mýta 1: Líf í trú er að rembast við að trú einhverju gegn betri vitund.

Samkvæmt Nýja Testamentinu er trú byggð á staðreyndum. Líf í trú í samhengi þessa pistils er að hafa sannfærst nógu mikið um tilvist Guðs til að lifa samkvæmt því. Ef kristin trú er rétt þá er veröldin eins og kristin trú lýsir henni. Sá sem lifir í trú þarf því ekki að rembast heldur einfaldlega þekkja staðreyndirnar um það hver Guð er, hver Jesú er og á þeim grunni útskýra og skilja veröldina sem við lifum í. Enginn önnur tillaga sem ég þekki um það að skilja lífið og tilveruna er jafn heilstæð og öflug eins og kristin trú. Kristin trú er einfaldlega það hugmyndakerfi sem best fellur að staðreyndunum. Þar af leiðandi má reyndar rökstyðja að því betur sem staðreyndirnar eru þekktar þurfi minni trú til að vera kristinn heldur en í nokkru öðru hugmyndakerfi! 

Mýta 2: Hver þarf á kirkjunni að halda? Trúin er á milli mín og Guðs, ég þarf ekki á kirkjunni að halda.

Jesú sagði að hann myndi byggja kirkjuna. Hann ætlaði kirkjunni að vera hendur hans og fætur hér á jörðinni (meiri verk heldur). Sumir eru skiljanlega bitrir út í kirkjunar því þeir hafa átt slæma reynslu eða velja að standa utan við kristið starf því þeir vilja ekki flíka trú sinni. Þeir sem eiga slæma reynslu í kirkjunni eiga alla mína samúð en að kasta kirkjunni út vegna slæmrar reynslu er eins og að henda barninu út með baðvatninu. Einnig, ef trú þín er svo persónuleg og hulin að hún hefur næsta lítil áhrif á þitt daglega líf og samborgarar þínir sjá hana nánast aldrei í verki, hvers virði er hún þá? Kirkjan er ÁÆTLUNIN sem Guð hefur til endurlausnar þessum heimi. Það er ekkert vara plan. Ef við viljum að Guð noti líf okkar í samfélagi með öðrum þá þurfum við að tengjast kirkju þar sem við getum kallað hvert annað til ábyrgðar, lært að þjóna og þiggja þjónustu.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

 1. Hefur þú heyrt af þessum mýtum eða jafnvel einhverntíman hallast að þeim sjálf(ur)?
 2. Finnst þér þú hafa góðan skilning á því hvað er að vera lærisveinn Jesú Krists? Hefur þú öðlast betri skilning á því seinustu árin eða hefur ekkert breyst?
 3. Höldum áfram með líkinguna úr bogfimi. Ef þú lifir lífi í trú, hvernig hefur gengið að hitta í mark seinustu mánuði? Hvað hefur gengið vel og hvað mætti vera markvissara?
 4. Getur þú nefnt dæmi um fleiri mýtur sem þú hefur heyrt eða jafnvel haldið sem sannar en veist núna að eru ósannar?

Hlusta á kennslu

Fallnir kristnir leiðtogar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ákvarðanir leiðtoga hafa afleiðingar. Það liggur í eðli þess sem forysta er. Ef forsætisráðherra Íslands gerir alvarleg mistök við stjórn landsins hefur það áhrif á alla landsmenn.

Adam var fyrsti leiðtoginn. Hann fékk það verkefni að gæta Eden og gefa dýrunum nafn (1Mós 2.15;19). Þegar Adam hafnaði Guði varð hann fyrsti leiðtoginn sem féll. Það fall hafði áhrif á allt það sem Adam hafði verið gefin forysta yfir. Róm 8:19-22 útskýrir að sköpunin er fallin vegna Adams og þráir að vera endurleyst í Jesú.

Fallnir kristnir leiðtogar

Góðir leiðtogar geta orðið til mikils góðs en sömuleiðis geta slæmir leiðtogar valdið miklum skaða.

Við á Íslandi höfum fengið drjúgan skammt af föllnum leiðtogum í kristnu starfi seinustu áratugi. Það eru dæmi um fjármálaóreiðu, framhjáhald, misnotkun, vanrækslu á hjónabandi, hjónaskilnaði, vanræksla á hvíld ofl. Listinn yfir kirkjur og kristið starf þar sem slíkt hefur hent er því miður of langur:

 • Vegurinn
 • Orð Lífsins
 • Frelsið
 • Byrgið
 • Hvítasunnuhreyfingin
 • Kaþólska kirkjan
 • Þjóðkirkjan
 • Krossinn

Því miður er þetta ekki tæmandi listi.

Það erfiða er að flest það fólk sem kemur við sögu átti tímabil það sem það náði árangri með þeim styrkleikum sem Guð hafði gefið þeim. En svo féll það. Þessi blanda af góðum og slæmum hlutum er svo skaðleg.

Sjálfur hef ég oftar en einusinni verið í aðstæðum þar sem skaðlegur leiðtogi var til staðar og ég hef átt mörg samtöl við fólk sem hafa gengið í gegnum slíka reynslu og eru enn að vinna úr því.

Hvað er hægt að gera til að verjast þessu? Þar má nefna ýmislegt en eitt það mikilvægasta er að allir leiðtogar sækist eftir því að hafa einhvern í lífi sínu til að halda sér við efnið og kalla sig til ábyrgðar. Stundum er þetta orðað með því að hafa einhvern í lífí sínu sem spyr persónulegra spurninga eins og hvernig gengur hjónabandið, fjármálin, tilfinningalífið, tímastjórnun, hvíld ofl. Þetta getur enginn þvingað á annan heldur er þetta eitthvað sem leiðtogar þurfa að sækjast eftir af eigin frumkvæði með því að finna einhvern sem þeir treysta og virða.

Ef þú hefur rökstudda vissu um að leiðtoginn í þinni kirkju sé óheilbrigður eða skaðlegur þá er ráð mitt þetta: Forðaðu þér. Notaðu fæturna og komdu þér í burtu. Að bíða og sjá getur valdið þér og fjölskyldunni miklum skaða. Þú getur alltaf komið aftur þegar málin hafa lagast. Það getur verið að Guð kalli einhverja til að vera um kyrrt og taka á málunum - en mitt ráð til fólks almennt er einfaldlega það að koma sér í burtu sem fyrst. Ef þú ætlar að vera áfram í slíkum aðstæðum þarftu að hafa afgerandi orð frá Guði. 

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Sál, Davíð og Absalon

Til umræðu eða íhugunar

 1. Þekkir þú dæmi um fallna kristna leiðtoga? Hvaða áhrif hafði þetta og hvernig hefur fólki gengið að vinna úr eftirmálum þess? Hvað hefur verið gagnlegt og hvað miður gagnlegt til uppbyggingar eftir skaðann?
 2. Hver er ábyrgð söfnuðar varðandi leiðtogum sínum og heilbrigði þeirra? Hvað geta söfnuðir gert til að hvetja leiðtoga sína til heilbrigðis og kalla þá til ábyrgðar um það? 
 3. Hvað er hægt að gera til að styðja við þá sem hafa skaðast af kristnum leiðtogum og eru enn í sárum?
 4. Hvað má læra um endurreisn fallina leiðtoga með því að íhuga viðbrögð Davíðs þegar Natan spámaður afhjúpaði synd Davíðs (2Sa 12)?

Hlusta á kennslu

Hver ert þú?

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Það var einu sinni konungur sem hét Sál. Hann var fyrsti konungurinn í Ísrael og var smurður af Samúel spámanni inn í þjónustu og valinn af Guði. En Sál syndgaði gagnvart Guði. Það var ekki nóg með það að Sál óhlýðnaðist skipunum Guðs heldur fór hann að afsaka sig og réttlæta gjörðir sínar. Í hroka sínum fór hann að benda á aðra og kenna þeim um í stað þess að horfast í augu við ábyrgð sína.

Hvert ert þú?

Sál átti framtíðina fyrir sér en hann gerði mistök og óhlýðnaðist Guð og brást við á hrokafullan hátt. 

En síðar kom annar konungur að nafni Davíð. Hann var einnig valinn af Guði. Davíð syndgaði hræðilega gagnvart Guði. En það hvernig hann brást við syndinni var allt öðruvísi en Sál gerði. Í 2. Sam 12:13 sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.“ 

Hann kenndi ekki öðrum um. Davíð horfist í augu við tilfinningar sínar og skrifar í Sálmi 51: 12-13

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

Ert þú Sál eða Davíð? 

Guð þrái að hjarta okkar sé heilt og ómengað gagnvart honum. Í fjallræðunni í Matteus 5:3 segir Jesús: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Þeir sem eru fátækir í anda eru þeir sem gefa Guði pláss í hjörtum sínum og viðurkenna breyskleika. 

Spurningin er ekki: Er ég syndari? Já, þú ert það svo sannarlega. Bæði Sál og Davíð voru syndarar. En annar var brotinn og meyr á meðan hinn var stoltur og hrokafullur. Annar var maður eftir Guðs hjarta á meðan hinn brást. 

Vertu Davíð! 

Höfundur: Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Sál, Davíð og Absalon

Til umræðu eða íhugunar

 1. Átt þú erfitt með að taka leiðsögn Guðs? 
 2. Getur þú viðurkennt mistök án þess að fara í vörn? 
 3. Ert þú líkari Sál eða Davíð? 

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi