Voru lærisveinarnir auðtrúa? Fyrri hluti.

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Öll fjögur guðspjöllin nefna með einhverjum hætti að lærisveinarnir hafi efast.

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. (Mat 28:16-17)

Í Matteusarguðspjalli horfa lærisveinarnir á Jesú upprisinn. Sumir tilbiðja hann og sýna honum lotningu en aðrir efast. 

Voru lærisveinarnir auðtrúa?

En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? (Lúk 24.37-38)

Hér í Lúkasarguðspjalli eru orð Jesú eftir að hann hafði verið krossfestur, lagður í gröf og svo risið upp á þriðja degi. Lærisveinarnir eru saman í hóp að tala um að Jesú hafi upprisinn birst tveimur lærisveinum sem voru á leið til Emmaus. Skyndilega stendur þá Jesú mitt á meðal þeirra. Þeir bregðast við með því að skelfast og Jesú bregst við með því að spyrja þá út í efasemdir þeirra. Jesú myndi sannarlega ekki spyrja að þessu nema það hafi verið erfitt fyrir lærisveinana að trúa.

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. (Mar 16:14)

Í Markúsarguðspjalli sjáum við svipaðan texta og í Lúkasarguðspjalli. Jesú er ekki ánægður með hvað það reynist erfitt fyrir lærisveina hans að trúa því að Jesú sé sannarlega upprisinn.

Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa." Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður." Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!" (Jóh 20:25-28)

Þessi frásögn í Jóhannesarguðspjalli er sú sem oftast er nefnd þegar talað er um efa lærisveinanna. Tómas notar enda sterk orð: Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa. (Jóh 20:25) 

Niðurstaðan er sú að guðspjöllin eru ófeimin við að segja frá því að það var efi á meðal lærisveinanna um það hvort Jesú hefði sannarlega risið upp frá dauðum. Það var ekki fyrr en Jesú sýndi þeim sig lifandi svart á hvítu að þeir fóru að trúa eigin augum og eyrum. Lærisveinarnir eru greinilega hugsandi menn sem gleypa ekki við hverju sem er. Þeir vilja hafa staðreyndir áður en þeir trúa einhverju og eru sannarlega ekki auðtrúa.

Þessi pistill er fyrri hlutinn af tveim. Smelltu hér til að lesa seinni hlutann.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast. Þessi pistill tengist predikun sem hægt er að hlusta á eða horfa með því að smella hér.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hver er munurinn á því að trúa í blindni og því að trúa eftir að hafa sannreynt staðreyndir?
  2. Sumir segja að orðið trú sé misskilið í dag og að orðið traust lýsi betur því sem Nýja Testamentið (NT) er að tala um þegar það notar orðið trú. Hvað finnst þér um þetta? Getur þú tekið dæmi úr nútímanum þar sem orðið trú er notað í annari merkingu heldur en NT notar það?
  3. Í þessum pistli var fjallað um viðbrögð lærisveina Jesú. Settu sjálfa(n) þig í þeirra spor. Hvernig hefðir þú brugðist við t.d. uppi á fjallinu með Jesú (Mat 28:16-17) eða inni í Jerúsalem eins og Tómas  (Jóh 20:25-28)?
  4. Hvað segir það okkur um NT og vitnisburð þess að lærisveinarnir voru allt annað en auðtrúa?
Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi