Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Hvar ertu?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Eftirfarandi er pistill eftir Billy Graham og birtist í tímaritunu Bjarma árgangur 1978, 11.tölublað.

Ef þú flettir upp í öðrum kafla 1. Mósebókar, sérðu, að Guð setti manninn, er hann skapaði hann, í aldingarðinn Eden. Adam og Eva lifðu í fullkomnu umhverfi, þangað til eitthvað kom fyrir, og allt frá þeirri stundu hefur mannkynið átt í erfiðleikum. Í níunda versi þriðja kafla lesum við: „En Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: Hvar ertu?” Það er spurning, sem ég vildi gjarna leggja fyrir þig einmitt núna: Hvar ertu? Hvar ertu andlega? Hvar ertu siðferðislega?

Hvar ertu?

„Ég flúði hann”

Adam og Eva höfðu verið saklaus, er okkur sagt. En á því andartaki, er þau gerðu uppreisn gegn Guði og syndguðu, sáu þau, að þau voru nakin, og blygðuðust sín. Þau festu saman fíkjuviðarblöð til þess að hylja með nekt sína, og þá heyrðu þau rödd Guðs kalla: „Adam, hvar ertu?" Guð var ekki að biðja um upplýsingar. Hann vildi, að Adam gerði sér grein fyrir, hvar hann væri.

Nýlega framleiddum við kvikmynd, sem kölluð var Time to run (Tími til að flýja). í upphafi myndarinnar er stúlkan, sem fer með aðalhlutverkið, að lesa úr hinu fræga kvæði Francis Thompsons, The Hound of Heaven (Veiðihundur himinsins):

I fled him, down the nights and down the days.

I fled him, down the arches of the year.

I fled him, down the labyrinthine ways ...

(Ég flúði hann um nætur og daga. Ég flúði hann eftir bogagöngum áranna. Ég flúði hann eftir ógreiðfærum leiðum).

Kvæðið er lýsing á leit Guðs að manninum. Ef þú lest Biblíuna áfram frá 1. Mós. 3, muntu sjá, að Guð heldur áfram að leita mannsins, og leit hans heldur áfram allt til þessarar stundar. Guð elskar þig. Guð leitar þín. Og mig langar til að spyrja: Hvar ertu?

Spurning Guðs getur verið mjög nærgöngul. Jesús spurði einu sinni þá, sem voru umhverfis hann: „Hvað stoðar það mannihn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?" (Mark 8:36). Setjum svo, að þig langaði til þess að eiga alla olíuna í Mið-Austurlöndum, allt gullið í Fort Knox, alla gimsteinana í Suður-Afríku og allar evrurnar i Þýskalandi. Vildir þú selja sál þína fyrir það? Mundir þú segja: „Drottinn, hér er sál mín, hér er eilífðin, hér er himinninn. Ég vildi gjarna skipta á því fyrir alla þessa peninga og olíu og þessa gimsteina í nokkur ár á þessari reikistjörnu. Ég er fús til þess að fyrirgera fyrir fullt og allt lífi mínu með þér.” Mundir þú segja þetta?

Undankomuleiðir?

Önnur spurning, sem spurt er í Nýja testamentinu er þessi: „Hvernig fáum við þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði?" (Hebr. 2:3). Ef við virðum að vettugi ráðstöfun Guðs okkur til fyrirgefningar, hvernig komumst við þá undan dóminum, sem kemur áreiðanlega? Á meðan á yfirheyrslum stóð í Watergate- málinu, tókum við eftir því, hvernig myndavélarnar náðu andlitssvip vitnanna og spyrjendanna. Ég er viss um, að þú hlýtur að hafa spurt sjálfan þig: „Gæti ég rifjað upp samtal, sem ég átti við einhvern á síðastliðnu ári? Eða fyrir tveim árum?” Jesús sagði, að allt hið dulda yrði leitt í ljós í dóminum — ekki aðeins orðin, heldur hugsanirnar og áform hjartans.

Adam, hvar ertu?

„Adam, hvar ertu?"

Adam óttaðist svarið. Hann var að reyna að fela sig. En í gömlum negrasálmi frá Suðurríkjunum stendur: „Það er enginn felustaður þar niðri." Frá dögum Adams og fram á daga okkar höfum við öll reynt að hlaupast á brott og fela okkur fyrir Guði. Þess vegna er ráðist á Biblíuna nú á dögum, að hún afhjúpar synd og bendir til Guðs. Biblían færir Guð nær okkur en nokkur önnur bók. Þegar við sjáum sjálfa okkur sem syndara, fer okkur að líða illa í návist Guðs, svo að við reynum að komast undan. Stóra orðið á okkar tímum er „undankoma". Okkur langar til þess að lina þjáning lífsins, en það er erfitt að komast undan henni. Sumt fólk reynir að komast undan með því að horfa á sjónvarp. Tölfræðilegar skýrslur gefa til kynna, að fólk í Ameríku horfi að meðaltali á sjónvarp sex til sjö klukkustundir á dag. Þetta virðist ótrúlegt, en það gefur til kynna, hve undankomutilraunir okkar eru djúptækar.

Sumir koma sér undan með því að neyta eiturlyfja. Ein skýrsla skýrir svo frá, að 48% kvenna yfir þrítugt taki inn taugatöflur, og eiturlyfjaneysla er naumast bundin við annað kynið. Milljónir manna nota eiturlyfjaneyslu sem undankomuleið. Aðrir verða niðursokknir í sífelldar hugsanir um kynhvötina. Allir geðlæknar kannast við þá manngerð, sem er að leitast við að komast út úr erfiðleikum sínum með því að afla sér reynslu á kynferðissviðinu. En einn af ræðumönnunum á þingi geðlækna á Honolulu nýlega sagði, að frjáls útgáfa bóka um kynlíf hafi leitt til fleiri hjónaskilnaða en til farsælla hjónabanda. Þegar við dýrkum kynlífið á sama hátt og við höf- um dýrkað mat og drykk, íþróttir og þekkingu, fjarlægjum við það frá eðlilegum sess þess og látum það gegna hlutverki, sem því var aldrei ætlað að gegna.

Sumir leitast við að komast undan með því að fara að leggja stund á austræna dulspeki. Fyrir nokkru var ég staddur á flugvellinum í New Dehli á Indlandi, er þangað kom mikill fjöldi amerískra æskumanna. Þeir höfðu komið með risaþotu til þess að sitja í hálfan mánuð við fætur indversks lærimeistara (guru). Og þessi lærimeistari, sem þá var fjórtán ára, hafði nýlega tilkynnt, að hann væri guð.

Ritningin segir, að engin leið sé til undankomu. Við getum gert undirheima að hvílu okkar. Guð er þar. Við getum stigið upp í him ininn. Guð er þar. Ef við reynum að flýja til fjarlægra staða, er Guð þar. Það er engin leið til undankomu frá anda hins lifanda Guðs, sem leitar okkar og sannfærir okkur og laðar okkur og bendir til guðslambsins, sem ber burt synd heimsins.

Hvað segja vísindamenn?

Þegar við reynum að komast undan, erum við að hlaupast á brott frá sögunni. Sagan um Jesúm er ekki skáldsaga. Kristindómurinn er fagnaðarerindi um sögulega persónu, sem lifði og dó og reis upp aftur. Kristindómurinn er ekki siðfræðilegt kerfi, sem unnt er að halda við, án tillits til þess, hvort Kristur hefur lifað eða ekki. Heimspekingur nokkur, sem stendur framarlega í flokki, sagði, að draga mætti í efa, hvort Jesús hafi nokkurn tíma lifað. Jæja, mig langar til að segja ykkur, að það er ekkert vafamál. Eða við reynum að hlaupast á brott frá vísindunum. Bertrand Russell sagði fyrir mörgum árum, að vísindin mundu gera barnabörnum okkar kleift að lifa góðu lífi með því að veita þeim þekkingu og sjálfsstjórn fremur en baráttu sem lífsveg. En þið eruð barnabörnin, og vísindin hafa ekki reynst veita svarið. Þess vegna segja vísindamenn nútímans: „Jú, tæknifræðin gæti fært okkur Paradís, ef mannlegt eðli væri ekki annars vegar með fýsn sína, græðgi, hatur og hleypidóma."

Eða við reynum að komast í ævintýri. Sumt fólk heldur, að kristindómurinn sé leiðinlegur. Trúðu því ekki. Jesús lifði fullkomnu, ævintýralegu lífi. Sú eina tegund kristindóms, sem er leiðinleg, er hálfvolgur kristindómur. Kristindómur er trú manna, sem eru reiðubúnir til þess að berjast á móti strauminum. Ertu viðbúinn því ævintýri að lifa fyrir Guð, jafnvel þótt allir í kringum þig lifi öðruvísi?

Eða við reynum að hlaupast á brott frá einhverjum erfiðleikum eða vandamáli. Við reynum að hlaupast á brott frá viðskiptavandamáli. Við reynum að flýja frá hjónabandi, sem er orðið hversdagslegt. Okkur langar til að komast burt, skjóta okkur undan á einhvern hátt, en enginn felustaður er til, og allan tímann er Guð að kalla á okkur: „Adam, hvar ertu? Adam, hvar ertu? Adam, hvar ertu?" Á hvaða andlegu breiddargráðu eða lengdargráðu ertu staddur?

Hvar ertu?

Mörg okkar vilja ekki horfast í augu við þá staðreynd, að við erum syndarar undir dómi Guðs. Ef til vill höfum við á okkur trúarlegt yfirskin. Við sækjum kirkju, en við eigum ekkert persónulegt samfélag við Krist, enga gleði af því að lesa Ritningarnar, enga gleði af að biðja, ekkert nýtt samband við náunga okkar vegna Krists.

Komdu, er þú heyrir kallið!

Við verðum að horfast með alvöru og einlægni í augu við spurninguna: „Hvar ertu?" Farðu ekki léttúðlega með hana. Biblían segir, að Guð láti ekki að sér hæða. Það er mikilvægasta spurningin, sem við verðum nokkru sinni að svara. Það verður að horfast fullkomlega í augu við hana. Farðu ekki í neitt hættuspil við Guð. Segðu ekki: „Ég ætla að freista gæfunnar." Þú hefur eilífa sál, og þú berð ábyrgð á henni. Ef þú hefur ekki gefið þig Kristi á vald, skaltu ekki fresta því. Í dag er hjálpræðisdagur. Við getum aðeins komið til Krists, þegar heilagur andi dregur okkur, aðeins þegar hann talar til okkar.

Á krossferð einni nýlega ók verslunarmaður þúsund km leið til þess eins að ganga fram og gefa líf sitt Guði. Hann vildi ekki slá því á frest. Við þurfum öll að horfast í augu við þessa spurningu með bæn í hjarta. Sálmaskáldið segir: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar. Og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi" (Sálm. 139, 23—24). Það er betra að komast að því nú, hvar þú ert, en að bíða til dómsins. Hættu ekki á neitt.

Hvar ertu? Guð hefur gefið okkur kort og áttavita til þess að leiðbeina okkur á ferð okkar   yfir haf tímans og koma okkur heilum inn í höfn eilífðarinnar. Ef þú notar Biblíuna þér til leiðsagnar, muntu komast að raun um, að hún kennir okkur  að gjöra iðrun og snúa okkur frá syndum okkar. Við eigum að koma til Drottins Jesú Krists, sem dó á krossi fyrir okkur og taka á móti honum sem frelsara okkar og Drottni. Og við eigum að hlýða honum í daglegu kristilegu lífi okkar. Guð kallar: „Adam, hvar ertu? Jón, Siggi, Gunna, María, Jóna, hvar ertu?” Viltu svara honum í dag?

Höfundur: Billy Graham. Þessi grein birtist í tímaritunu Bjarma árgangur 1978, 11.tölublað. Hægt er að gerast áskrifandi að Bjarma með því að hringja í sima 533 4900 eða senda póst á pontun[hja]saltforlag.is Ágúst Valgarð Ólafsson valdi myndir og vann umbrot. Arndís Hildur Tyrfingsdóttir og Þorsteinn Jóhannesson veittu aðstoð við rýni á texta.

Hvað kemur barnið í jötunni mér við?

Skrifað af Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir. Posted in Pistlar

Við vitum öll að við höldum jól af því að Jesúbarnið fæddist í Betlehem fyrir löngu síðan. Og það er falleg saga og allt - en spurningin er: Hvað kemur barnið í jötunni mér við? Það byrjar allt með að ég er dauðleg manneskja. Ég bý í þessum heimi þar sem er sársauki, illska og dauði. Á himnum hjá Guði er ekkert af þessu. Hvers vegna í ósköpunum valdi Jesús að yfirgefa dýrðina sem hann bjó í á himnum og koma niður á jörðina, og ekki nóg með það, heldur kom hann á jörðina sem dauðlegur maður, með öllum þeim takmörkunum og sársauka sem fylgir því að vera maður. Hann lagði guðdóm sinn til hliðar til að vera að öllu leyti dauðleg manneskja.

Hvað kemur barnið í jötunni mér við?

Hvað þýðir það fyrir mig að sjálfur Guðs sonur fæddist sem lítið, fátækt mannsbarn á þessari jörð? Eins og ég sagði, þá er ég dauðleg, breysk manneskja. Líf mitt getur endað hvenær sem er og ekkert er tryggt í þessum heimi. Ég hugsa mest um sjálfa mig og ég hef oft gert eitthvað sem særir aðrar manneskjur. Heimurinn er skakkur og brenglaður.

En Guð leit niður á ráðvillt mannfólkið og sá sársaukann sem það lifði í af því það þekkti ekki Guð, en hjá Guði er allt fullkomið og allt gengur upp. Og hann kenndi í brjósti um fólkið. Hann vildi ekki að það lifði lengur í myrkrinu, svo hann gaf því ljósið, sitt ljós, augasteininn sinn, einkasoninn. Ég lifði í myrkrinu því ég þekkti ekki Guð og vissi ekki hvað var best fyrir mig. Guð er of flókinn og stórfenglegur til að skilja hann - en einmitt þess vegna varð Jesús maður. Hann varð eitthvað sem við gátum séð, hann hafði rödd sem við gátum hlustað á og hann flutti undursamlegan og torskildan boðskap Guðs í líkingum úr daglegu lífi fólks, svo það gæti skilið smávegis í því sem er eiginlega of stórt til að skilja það.

Guð er of heilagur til að við, óbreytt mannfólk, getum séð hann eða snert, en Jesús var maður mitt á meðal okkar. Hann upplifði sama sársauka og við. Hann upplifði sömu freistingar og við, en stóðst þær allar vegna ótrúlegs sambands síns við Guð föður. Hann varð svangur og hann varð þyrstur og hann varð þreyttur. Hann skilur hvernig okkur getur liðið af því að hann hefur upplifað það sjálfur. Hann kom og kenndi okkur um Guð, og enginn veit meira um Guð en hann, því hann hefur búið hjá honum um eilífð. Hann kom og lifði fullkomnu lífi og var fyrirmynd fyrir okkur. Hann sá þá sem lifðu alls ekki fullkomnu lífi, hann kenndi í brjósti um þá og fyrirgaf þeim syndir sínar, frelsaði þá frá því sem hafði eyðilagt líf þeirra og gaf þeim tækifæri til nýs lífs. Hann kallaði fólk til fylgis við sig, því að hann er ljósið og hann vísar veginn inn til Guðs. Við vitum ekki hvernig við eigum að nálgast Guð, en Jesús gerðist milligöngumaður. Þegar við skildum ekki Guð var Jesús maðurinn sem við gátum séð og snert og heyrt og hann fór fyrstur inn í nærveru heilags Guðs, bjóðandi okkur að fylgja.

Hér kemur þetta magnaða: Guð er stór og almáttugur og við erum lítil og heimsk og ómerkileg í samanburði við hann. En, þvert á alla skynsemi, bar hann kærleika í brjósti til okkar mannanna, og vildi bjóða okkur að búa með sér að eilífu. Ekki nóg með það, hann vildi ættleiða okkur sem sín eigin börn. Jesús er frumburðurinn, og þeir sem velja að trúa á hann fá þann óverðskuldaða heiður að kallast systkin hans. Hann kom og fékk líkama eins og við, þjáðist eins og við, og hann dó, sjálfur sonur Guðs dó eins og hver annar óbreyttur maður. En hann var einnig sá fyrsti til að rísa upp til eilífa lífsins hjá Guði, en það munu öll systkini hans gera, sem trúa á hann og játa nafn hans.

Þessi gjöf frá Guði er óskiljanleg og ótrúleg, gefin bara vegna náðar hans og kærleika, ekki af því að við verðskulduðum neitt af þessu. Það eina sem við getum gert er að taka við - og gefa víðar.

Ég ætlast ekki til þess að þú skiljir þetta til fulls - og kannski skilur þú alls ekki. En ég bið þess að Guð opni augu þín fyrir kærleika sínum, sem er ofar öllum skilningi, því hann er það besta sem þú getur vitað. Það besta við þetta er að þú þarft ekki að skilja neitt af þessu til þess að það sé satt. Það er ekki bundið okkar skilningi. En þetta var gjöf Guðs til þín. Var - og er. Gleðileg jól.

Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. Því að víst er um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. Því varð það að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu. - Hebreabréfið 2:14-18

 Höfundur: Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir

Viltu jól?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Um jól þarf að taka ýmsar ákvarðanir. Hverjir fá jólakort? Hvað á að gefa þessum og hinum í jólagjöf? Förum við í þetta og hitt jólaboðið?

Það er fullt af siðum og venjum í kringum jólin. Þetta er skemmtilegt, samofið minningum okkar allra frá liðnum jólum og vonum okkar um komandi jól. Stundum er samt erfitt að greina á milli þess hvað eru venjur í menningu okkar og svo kjarna þess hvað jólin eru.

Viltu jól?

Fólkið sem kom að fyrstu jólunum þurfti líka að taka ákvarðanir. Þetta var fólk eins og ég og þú með drauma og langanir, styrkleika, veikleika og áform um framtíðina.

Sakaría og kona hans Elísabet höfðu þráð lengi að eignast barn og voru þegar þetta gerðist bæði orðin gömul, svo gömul að þau voru búin að afskrifa að eignast erfingja. Þegar engilinn Gabríel flytur Sakaría þau skilaboð að Elísabet muni fæða son sem verður mikill í augliti Drottins (Lúk 1:15) þarf Sakaría að ákveða hvernig hann á að bregðast við og hann ákveður að trúa þessu ekki (Lúk 1:20).

María var ung stúlka þegar sami engill kemur til hennar hálfu ári seinna. Þetta lítur út fyrir að hafa verið annasamt ár hjá englinum Gabríel. María gerði sér örugglega ekki fulla grein fyrir því hvað hún var að fara út í en svarar samt: Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum (Lúk 1:38).

Jósef hafði framtíðaráform eins og allir ungir menn í giftingarhugleiðingum. Hann og María myndu byggja hús með áföstu litlu verkstæði til að hann gæti séð fyrir fjölskyldunni, eða eitthvað slíkt. Hvað yrði nú um þessi framtíðaráform ef María reyndist ganga með barn annars manns? Jósef tók þá ákvörðun að skilja við Maríu í kyrrþey (Mat 1:19). E.t.v. vildi hann ekki framtíð með konu sem hann gat ekki treyst til að halda heit sín. Þegar hann kemst að því að framtíðaráformum hans er stefnt í voða vill hann ganga í burtu frá öllu saman.

Sakarías, María, Jósef og fleiri þurftu að ákveða viðbrögð sín við því sem Guð var að gera þegar hann undirbjó og sendi svo Jesú inn í þennan heim sem gjöf til okkar allra á fyrstu jólunum.

Þegar öllu er á botninn hvolft og við horfum í gegnum allan jólapappírinn og glitkúlurnar þá er þetta ennþá kjarni jólanna: Hvernig bregst ég við því að Guð sendi Jesú inn í þennan heim?

Er ég búinn að afskrifa að þetta geti haft eitthvað með mig að gera eins og Sakaría? Trúi ég því e.t.v. ekki að fæðing Jesú sé söguleg staðreynd?

Er ég eins og Jósef sem vill labba í burtu frá öllu saman þegar hann kemst að því að hlutirnir eru ekki eins og hann hefur séð fyrir sér og skipulagt?

Eða er ég eins og María sem tekur við því hlutverki sem Guð réttir henni þó það þýði mikla breytingu fyrir hennar líf. Stórkostlegt hlutverk, en alls ekki auðvelt.

Núna um jól og áramót njótum við þess að staldra við, hitta fjölskyldu, vini og borða góðan mat. En gefum okkur líka tíma til að horfa á okkar eigið líf og hvernig við viljum bregðast við jólunum. Hver einasta gjöf sem við fáum þessi jól minnir okkur á það að Guð gaf okkur Jesú. Alveg eins og við þurfum að ákveða hvað við gerum við gjöfina frá Jóni bróður, Siggu systur eða mömmu og pabba þá þurfum við að ákveða hvað við ætlum að gera við Jesú. Ef kjarni jólanna er koma Jesú má spyrja: Viltu jól?

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi