Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Á hverjum degi

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Biblían kennir að „Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.“ (2 Kor 5:17). Þannig að ef einhver gerist kristinn þá á breyting að verða í lífi hans. Það að vera kristinn þýðir að við eigum að reyna að líkjast Jesú.

Á hverjum degi

Páll talaði um að hann æfði sig eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær (1 Kor. 9:26). Það sama á við okkur ef við viljum fylgja Jesú og líkjast honum, þá verðum við að æfa okkur og við verðum að gera það á hverjum degi. Á hverjum degi verðum við að biðja og lesa í Biblíunni, annars náum við ekki að vaxa andlega og verða líkari Jesú.

Ekki bara það heldur ef okkur skortir andlegan vöxt þá erum við miklu veikari fyrir slæmum áhrifum þannig að við getum auðveldar leiðst út í að gera hluti sem hafa skaðleg áhrif á trúarlíf okkar. Rannsóknir sýna til dæmis að mjög hátt hlutfall kristinna fer reglulega á klámsíður á netinu. Ef það er raunin í okkar lífi hvernig getum við verið að vaxa og líkjast Jesú? Leiðin til að standast og vaxa andlega er að biðja og lesa í orði Guðs á hverjum degi.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Ert þú að biðja og lesa á hverjum degi?
  2. Hefur þú fundið fyrir nærveru Guðs þegar þú ert í bæn til hans (lýstu)? 
  3. Finnst þér erfitt að biðja eða lesa í orði Guðs?
  4. Hefur Guð talað til þín í gegnum orð sitt (lýstu)?
  5. Hefur þú verið að vaxa og líkjast Jesú meira síðustu mánuðina, árið, árin? Ef þú glímir þú við hulda synd eins og klám þá þarft þú að játa fyrir annarri manneskju sem þú treystir (Jak. 5:3)

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu

Trú er að treysta

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

29.mars: Að þessu sinni er birtur gamall pistill frá Gunnhildi. Pistill úr predikun seinustu sunnudags frá Helgu Lind kemur síðar.

Við búum í samfélagi sem gerir ekki ráð fyrir því að við eigum að lifa í trú. Oft telst eðlilegt að ganga áfram í sínum eigin mætti þar sem við reynum að stýra og stjórna lífinu eftir okkar höfði, eins og við viljum hafa það. Ég var komin á þann stað að ég átti það til að skipa Guði fyrir. Ég vildi að hann gerði hitt og þetta núna eða strax. Þegar ég gerði mér grein fyrir eigingirninni á bak við bænirnar mínar uppgötvaði ég að ég var engan veginn á réttum stað.

Trú er að treysta

Guð vill auðvitað gefa börnum sínum góðar gjafir og blessa okkur. Í Lúkas 11:9-13 stendur:

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.

Þegar börn biðja foreldra sína um hjálp vilja foreldrarnir hjálpa þeim. Þannig er líka farið með Guð. Hann vill svara bænum okkar. Stundum fáum við bænasvar strax en stundum þurfum við að bíða og knýja á í bæn. Á meðan við bíðum eftir bænasvarinu erum við oft óþolinmóð og skiljum ekki af hverju við þurfum að bíða. En eftir á þegar við sjáum tímasetningu bænasvarsins skiljum við tilganginn með þessu öllu.

Ég hef stundum þurft að bíða lengi eftir bænasvari og ég hef líka fengið bænasvar strax. En þegar ég hef þurft að bíða lengi þá verða ég oftar þeim mun þakklátar fyrir bænasvarið þegar það loksins kemur. En í bænum okkar þurfum við að hafa trú og eins og stendur í Jakobsbréfinu 1:6

En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

Oft hef ég farið í fordæmingu fyrir það að eiga kannski ekki næga trú í lífi mínu. Oftar en ekki hef ég beðið Guð um að hjálpa mér vegna vantrúar minnar rétt eins og faðir sveinsins gerði í Markús 9. kafla. Það sem Guð hefur verið að sýna mér undanfarið er eftirfarandi vers í Matteus 17. kafla

Sannlega segi ég ykkur: Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn.

Það sem Jesús er að segja okkur þarna er að við þurfum ekki að hafa mikla trú. Mustarðskorn eða sinnepsfræ er mjög lítil fræ/korn. Ég þrái að hafa trú sem getur flutt fjöll, ég þrái að hafa óbifanlega trú og óbifanlegt traust á Jesú. Ég trúi því líka að Guð meti það þegar við erum heiðarleg. Ég þarf ekki að þykjast trúa einhverju heldur get ég talað orð Guðs inn í líf mitt og beðið Guð að auka mér trú. Þolinmæði og traust eru miklir mannkostir og ég trúi því að á okkar göngu með Guði vilja hann kenna okkur að vera þolinmóð og treysta honum.

Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði. Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. Rómverjabréfið 8:24-26

Guð blessi þig

Höfundur: Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir

Að gefa

Skrifað af Kolbrún Berglind Grétarsdóttir. Posted in Pistlar

Til eru sagnfræðilegar staðreyndir um að Jesús gekk hér um á jörðinni. Guð valdi að senda okkur Jesú m.a. til að kenna okkur hvernig við gætum lært að elska fólk og gera öðrum gott. Það er talað um að við líkjumst þeim sem við umgöngumst. Ef við veljum að verja daglega tíma með Jesú þá komum við til með að líkjast honum meira og okkur reynist auðveldara að gera það sem hann gerði.

Að gefa

Þetta kallast vöxtur og heilbrigði. Fylgjendur Jesú eru fætur hans og hendur hér á jörð og þeim hefur verið treyst til að framkvæma það sem Guði liggur á hjarta gagnvart fólki. Það sem býr í hjarta okkar mótar það og af þvi gefum við til annarra. Ef hjarta okkar er fullt af kærleika Guðs gefum við kærleika Guðs áfram til annarra. Ef hjarta okkar er fullt af ást á veraldlegum eignum og dauðum hlutum þá höfum við lítið að gefa öðrum.

Gefum af okkur til að breiða út kærleika Guðs

Notaðu hvert tækifæri til að blessa fólk. Hafðu í huga að allar manneskjur hafa þörf fyrir blessun og uppörvun. Hvern getur þú uppörvað í dag? Gefðu líka af þér til kirkjunnir þinnar og ef þú sækir ekki kirkju reglulega prófaðu að mæta í nokkur skipti og þú munt finna líf þitt breytast til meiri hamingju, þér og öðrum til ómældrar blessunar.

Gefum af fjármunum okkar til að kirkjan geti breitt út ríki Guðs

Þetta reynist mörgum erfitt en ef við viljum að fólk fái að kynnast Jesú, eins og við höfum fengið að kynnast honum, þarf kirkjan fjármagn. Sitjum ekki ein að því að koma saman í kirkjunni og fá blessun og uppörvun. Gefum til að aðrir fái að eignast.

Gefum af eigum okkar til að við séum ekki þrælar heldur frjáls

Öll viljum við eiga gott líf og það er eðlileg þörf. En hversu gott þarf gott að vera og versu mikið er nóg? Lífsgæði okkar, í hvaða mynd sem er, ættu alltaf að stjórnast af því sem er í hjarta okkar því þaðan kemur hver við raunverulega erum. Fyllum ekki líf okkar af endalausum óþarfa sem gerir ekkert annað en að hneppa okkur í þrældóm sýndarmennsku og græðgi. Temjum okkur heldur að vera nægjusöm og gefa af okkur og með okkur. Þannig verður heimurinn betri

Höfundur: Kolbrún Berglind Grétarsdóttir

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hversu auðvelt átt þú með að koma auga á þarfir annarra og bregðast við þeim?
  2. Hversu auðvelt átt þú með að gefa af fjármunum þínum?
  3. Hvernig gengur þér að losa þig við hluti sem þú notar ekki lengur?

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi