Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Að finna líf sitt með því að týna því

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég vildi óska að...

 • ... ég hefði ekki misst þetta út úr mér....
 • ... ég hefði ekki orðið svona pirraður/pirruð yfir þessu....
 • ... það væri meira þakklæti og gleði í lífi mínu..
 • ... ég myndi hugsa betur um heilsuna...
 • .... hjónabandið mitt gengi betur...
 • ... ég ætti betra samband við börnin mín...

Veistu - hvernig væri þennan vetur að leggja eftirsjá til hliðar með því að taka það alvarlega og setja það í fyrsta sæti að gera Jesú að leiðtoga lífs síns?

Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. (Mat 16:25)

Jesús segir að ef við helgum líf okkar því að þóknast okkur sjálfum þá muni það eyðileggja sál okkar og líf. Ef við hinsvegar setjum það í fyrsta sæti að heiðra Guð framyfir það að þóknast okkur sjálfum þá verður sál okkar og líf fullnægt.

Að sækja kirkju og koma á samkomu er frábært, þar sem við fögnum saman. En ef þú vilt sjá vöxt og heilbrigði í lífi þínu þá er það ekki nóg. Við þurfum að ástunda nærveru Jesú og æfa okkur í því að setja hann fyrst í lífi okkar: Jesús fyrst. Í hugsun okkar, í verkum, í samskiptum við aðra, að gera allt með því að bera það undir Jesús fyrst. Ef við týnum lífi okkar í Jesú þá munum við finna það.

Íhugun og framkvæmd

 1. Í predikuninni talaði Ágúst um að hafa upplifað að eitthvað vantaði hið innra, eins og eitthvað kæmi ekki heim og saman. Hefur þú upplifað þetta og hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt?
 2. Hvernig myndir þú orða það sem nefnt í pistlinum að setja Jesús fyrst. Hvaða eitt skref gætir þú tekið í næstu viku til að betur setja Jesús fyrst í lífi þínu?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Vertu trú(r) í því smáa

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Fyrstu fjörtíu ár Móse bjó hann við allsnægtir sem einn af yfirstéttinni í Egyptalandi en sökum þess að hann hafnaði ekki uppruna sínum og kom samlanda sínum til hjálpar þurfti hann að flýja Egyptaland og gerðist fjárhirðir í framandi landi.

Í fjörtíu ár vann Móse sem fjárhirðir og það var ekki fyrr en hann var um áttrætt að Guð opinberaði honum endandlegu áætlunina sem hann hafði með hann og í kjölfarið hófst samband Móse við Guð sem dýpkaði og varð nánara í þau fjörtíu ár sem hann átti eftir ólifað.

Eins og með Móse þá hefur Guð áætlun með líf okkar og til að við getum gengið inn í þá áætlun þá þurfum við að vinna af samviskusemi þá hluti sem Guð setur fyrir okkur. Guð notar oft það venjulega til að kenna okkur að verða þær manneskjur sem hann vill að við verðum og hann segir að sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. (Lúk. 16:10)

Eins og Móse þurfti að vinna sem fjárhirðir í fjörtíu ár til að Guð gæti gert hann að þeim manni sem hann varð, þannig er það einnig með okkur, við getum þurft að sinna mörgu sem okkur finnst oft ekki mikið til koma. En það getur vel verið að í þessum lítilfjörlegu hlutum að því er okkur finnst, þá sé Guð að kenna okkur og fá okkur á þann stað þar sem hann getur treyst okkur fyrir meiru. Við skulum því vera trú í því litla sem Guð fær okkur að gera þannig að hann geti notað okkur til enn stærri verka.

Íhugun og framkvæmd

 1. Trúir þú að Guð hafi áætlun með líf þitt? Ef já, veistu hvaða áætlun Guð hefur fyrir þitt líf?
 2. Myndir þú segja að samband þitt við Guð sé dýpra núna en fyrir ári síðan eða stendur það í stað eða hefur jafnvel dofnað?
 3. Ertu að gera eitthvað sem þér finnst vera þjónusta fyrir Guð?
 4. Hvaða þjónustu finnst þér Guð vilji að þú sinnir?
 5. Hvað getur þú gert til að dýpka samband þitt við Guð?
 6. Ertu að lesa í Biblíunni og biðja á hverjum degi?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika „Vertu trú(r) í því smáa” 

Að fylgja Guði hvað sem það kostar

Skrifað af Dögg Harðardóttir. Posted in Pistlar

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá höfum við ekki stjórn á öllu sem gerist í lífi okkar. Við getum hvað eftir annað upplifað togstreitu, þurft að glíma við Guð og okkur sjálf.

Páll postuli hvetur okkur í Ritningunni til að gefa Guði allt og lifa algjörlega fyrir hann hvað sem það kostar. Í bréfi Páls til Rómverja segir hann:

,,Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Róm. 12,1)

Stundum henda erfiðir atburðir gott fólk. Leiðin til að eignast sálarfrið er að viðurkenna vanmátt sinn og treysta því að áætlun Guðs sé okkur alltaf til góðs. Erfiðasti hluti kæreikans er að sleppa takinu á því sem okkur þykir vænst um og gefa Guði þannig allt okkar líf. Líka það sem snertir strenginn dýpst í hjarta okkar.

Það er Guði þóknanlegt að þegar fólk getur sýnt þann styrkleika að segja já við áætlun Guðs líka þegar það er erfitt. Stundum veltum við okkur upp úr hlutum sem eiga aldrei eftir að henda okkur og leyfum ótta og kvíða að stjórna líðan okkar. Þegar Jesús var krossfestur var óttinn negldur á krossinn til þess að við yrðum frjáls.

Páll postuli var frábær fyrirmynd. Hann lét ekkert stöðva sig og fylgdi Guði þó svo að hann vissi að það gæti kostað hann lífið. Hann gaf engan afslátt af kenningunni og sannfæringu sinni. Fetum í fótspor hans og fylgjum Guði heilshugar.

Íhugun og framkvæmd

 1. Páll postuli lætur þess getið í NT hvaða þrengingar hann hafi þurft að þola og hvað hann hafi gengið í gegnum vegna trúar sinnar. Hvaða tilfinningu eða hugsanir vekur það hjá mér þegar ég heyri að trúin geti krafist þess af mér að ég fórni einhverju?
 2. Hvað er það erfiðasta/sárasta sem ég gæti verið krafin/n um? (Hvað get ég alls ekki hugsað mér að gerist, hvaða tilfinningu vekur það og hvers vegna?)
 3. Stundum er sagt að það erfiðasta við kærleikann sé að sleppa takinu (The hardest part of love is letting go). Hvers vegna?
 4. Hvað óttaðist Jesús áður en hann var krossfestur?
 5. Hvaða merkingu hefur það í lífi mínu að ,,yfirgefa allt og deyja sjálfum/sjálfri mér"?
 6. Hvaða laun hefur það í för með sér að vera tilbúinn að ,,deyja sjálfum sér" og ,,yfrgefa allt"? 

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dögg Harðardóttur predika „Að fylgja Guði hvað sem það kostar” 

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi