Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Burt með biturð

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Heilbrigð tré með sterkan stofn og fallegar greinar sem bera ávöxt eru falleg og mikið augnayndi. Það sem við sjáum ekki þegar við lítum slíkt tré er það sem leynist undir yfirborðinu niðri í moldinni. Forsenda þess að tré sé fallegt og beri mikinn og góðan ávöxt er að rætur þess séu heilar og sterkar. Öðruvísi ná þær ekki að taka upp næringu og bera upp stofninn og út í greinarnar. Ef ræturnar eru ekki heilar ber tréð ekki ávöxt heldur er visið og óheilbrigt.

Eins er það með líf okkar, andlega talað er oft sagt að uppspretta okkar liggi í hjartanu. Ef rótarkerfi okkar er ekki hreint, heilt og sterkt er næsta víst að við berum ekki mikinn ávöxt í lífi okkar. Biblían varar okkur við að gæta þessa að í lífi okkar finnist engin beiskjurót sem geti saurgað líf okkar.

Til þess að bera réttan og góðan ávöxt í lífi okkar þurfum við því að vera tilbúin að skoða hvað leynist í hjarta okkar, hvort það sé hreint og án allrar beiskju. Ávextir beiskju geta verið margvíslegir og allir slæmir, t.d.: fíkn, gremja, þunglyndi, losti, siðleysi, reiði, ófyrirgefning, hatur, öfund, afbrýðisemi ofl. Biturleikinn blekkir okkur en Guð hreinsar okkur til að við mættum vera heil og bera þann ávöxt sem hann vill sjá í lífum okkar, ekki fyrr en þá verðum við frjáls.

Það eina sem til þarf er viljinn til að skoða hjarta sitt, gangast við því sem þar er að finna og veita Guði verkheimild til að rífa upp og fjarlægja hverja þá rót sem ekki ber góðan ávöxt. Keppumst því eftir að vera andlega heilbrigt fólk með sterkt, heilt og gott rótarkerfi sem skilar miklum og góðum ávöxtum í lífi okkar.

Íhugun og framkvæmd

 1. Þegar einhver talar af biturð og slæmri eftirsjá, hversu langt nær biturðin í lífi hans/hennar? Er hægt að vera bitur bara á afmörkuðu svæði í lífi sínu?
 2. Naómí sagði „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma“ (Rut 1:20). Hvað er hægt að segja við þann sem segir „Guð gerði mér þetta?”
 3. Hvernig líður þér þegar sá sem hefur sært þig gengur vel og er blessaður af Guði? Hvernig sér Guð þennan einstakling og hvert er álit Guðs á því sem gerðist á milli ykkar og þú upplifðir?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta á Dagbjörtu Eiríksdóttur predika um efni þessa pistils.

Dramb er falli næst - Hvað er sönn auðmýkt?

Skrifað af Tómas Davíð Ibsen Tómasson. Posted in Pistlar

Einn af þeim hlutum sem við þolum hvað minnst í fari annarra en eigum oft erfitt með að sjá í okkar fari er dramb/stolt/hroki. Víðs vegar í Biblíunni sjáum við viðvaranir varðandi stolt og ofmetnað.

En í hverju felst stolt? Hvernig birtist það í lífum okkar? Hvað liggur á bakvið það?

 • Við treystum á okkar eigin visku, okkar eigin styrk, okkar eigin reynslu meira en við treystum á handleiðslu Guðs.
 • Við þekkjum ekki okkar stað - teljum okkur meiri en við eigum efni á, reynum jafnvel að leika Guð og bjarga deginum - teljum okkur ómissandi. Þetta hefur orðið mörgum að falli.
 • Pétur treysti á sinn styrk þegar Jesús sagði við lærisveinana að þeir myndu allir yfirgefa hann - aldrei mun ég afneita þér sagði hann. Hann treysti frekar á sinn eigin styrk heldur en viðvaranir Jesú.

Hjá Grikkjum var dramb (húbris) einn versti mannkosturinn. Þegar einhver upphaf sjálfan sig umfram það sem hann átti inni fyrir, gerði meira úr sér en efni stóðu til. Yfirskrift á inngangnum að musteri Appollóns var „Þekktu sjálfan þig.”

Forn Grikkir lögðu ekki sömu merkingu og við í dag myndum leggjum í þetta orðatiltæki. Nútímafólk horfir á þessa setningu sem mjög djúpa leið til sjálfsþekkingar en það var ekki hugsun manna á þeim tíma heldur miklu frekar var hugsunin „þekktu þinn stað - ekki hefja þig upp.”

Hver erum við þá? - Við erum menn - Við erum ófullkomin - Við þurfum á Guði að halda. Þegar ég var yngri pirraði ég mig oft á því hversu ófullkominn ég var. Hins vegar með aldrinum og aukinni reynslu hef ég áttað mig á því að ef við værum ekki svona ófullkomin þá myndum við ekki gera okkur grein fyrir hversu mikið þyrftum á Guði að halda.

Í fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls sjáum við hver staða okkar og hvernig Guð sér okkur. - Við erum börn Guðs. Páll postuli talar líka um að við séum „samarfar Krists.” (Rómverjabréfið 8:17). Við erum elskuð (Jóhannes 3:16) og við erum verðmæt í augum Guðs (Sálmur 139).

Auðmýkt er hugtak sem getur verið jafn erfitt að eiga við eins og stolt. Hvað er sönn auðmýkt? Felst hún í því að lægja sig niður á kostnað annarra og gera lítið úr sjálfum sér (eins og okkur er svo oft tamt). Niðurbrot og hroki er komin af sama meiðinu. Þegar við fyllumst hroka eða brjótum okkur niður sjáum við ekki skýrt hver við erum. Við einblínum þá annað hvort eingöngu á galla okkar eða leyfum styrkleikum okkar gera okkur stolt og hrokafull. Þegar við þekkjum ekki hver við erum þá sjá um við hlutina ekki í réttu ljósi og missum marks. Sönn auðmýkt felst í því að vita hver við erum og að lifa í þeirri fullvissu. Við erum mannlega, við erum ófullkomin en við erum líka Guðs börn. „En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.” Jóhannes 1:12

Í Lúkasarguðspjalli má finna góða dæmisögu um tvo menn sem komu til Guðs. Annar uppfullur af sjálfum sér en hinn áttaði sig á sinni stöðu. Faríseinn treysti á sitt ágæti og gaf Guði ekki tækfæri. Tollheimtumaðurinn vissi hver hann var, hvað hann hafði gert en hann gerði sér kannski ekki grein fyrir því hver hann myndi verða ef hann hleypti Guði að. Lúkas 15:10-14

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Tómas Davíð Ibsen Tómasson predika um efni þessa pistils.

Tómt hús er opið hús

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Stundum er ég þreyttur og þá er erfitt að fá sig til að tengjast Guði, t.d. biðja eða lesa og það er auðveldara að láta undan freistingum eða gera eitthvað miður gáfulegt. Ég vildi óska þess að þetta væri ekki svona og að gæti ég bara sett í hlutlausann gír án frekari afleiðinga. En vandamálið er að ég á óvin. Það er til illska í þessum heimi. Persónulegt illt afl sem vill rústa lífi mínu (1Pét 5:8).

Ég hef séð fólk losna við óværu úr lífi sínu eða kynnast Jesú í fyrsta skiptið en fylgja því svo ekki eftir og smám saman fjarar undan því aftur. Fyrsta gleðin dofnar, annir taka yfir og það er ekki tími til að hitta aðra lærisveina, byggjast upp í bæn, orði Guðs og uppbyggjandi samskiptum við aðra sem eru að feta vegferð lærisveinsins.

Við eigum öll þennan óvin sem vill eyðileggja líf okkar. Hann virðist einmitt hafa sérstakan áhuga á þeim sem hafa sýnt viðleitni til að tengjast Guði.

Lestu gaumgæfilega hvernig Jesús lýsir þessu:

(43) Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. (44) Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, (45) fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð." (Mat 12:43-45)

 1. Augljóst er af samhenginu og reyndar öllu NT að óhreinir andar fara ekki út nema tilneyddir.
 2. Vers 43: Eftir að út er komið þá leita þeir að nýjum stað. Þeir greinilega vilja búa í “húsi.” Óhreinir andar sækjast eftir því að komast inn í líf okkar og setjast þar að.
 3. Vers 44: Eftir að hafa árangurslaust leitað að nýjum stað ákveður óhreini andinn að fara aftur á gamla staðinn. Þegar hann finnur þennan stað tóman virðist aðgengið vera auðvelt. Tómt hús er opið hús.
 4. Vers 45: Óhreinir andar taka gjarnan aðra óhreina anda með sér. Þetta er hópíþrótt hjá þeim.
 5. Vers 45: Óhreinir andar skemma líf okkar og auka óreiðuna. Líf okkar verður verra á eftir.

Lykilatriði í því sem Jesús er að segja er að ef við losnum við óhreina anda þá er mikilvægt að skilja líf okkar ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú þannig að þegar óhreinu andarnir snúa aftur komist þeir ekki aftur inn. Þessvegna er svo mikilvægt að skilja húsið okkar (hjarta okkar) ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú svo það sé ekkert pláss fyrir óværu.

Íhugun og framkvæmd

 1. Upplifir þú stundum tómleika innra með þér? Ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við? Hvað hefur reynst vel og hvað hefur reynst illa?
 2. Þegar Jesús kallaði lærisveina til sín þá kallaði hann þá ekki bara til sín heldur líka til að vera saman í hóp. Ert þú að hitta aðra lærisveina reglulega til að lesa, biðja og kalla hver annan til ábyrgðar? Ef ekki, hvað er að hindra þig í því og ertu tilbúinn að breyta því? Allt sem þarf er að finna einn annan og þú getur byrjað með Líf hóp.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi