Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Tómt hús er opið hús

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Stundum er ég þreyttur og þá er erfitt að fá sig til að tengjast Guði, t.d. biðja eða lesa og það er auðveldara að láta undan freistingum eða gera eitthvað miður gáfulegt. Ég vildi óska þess að þetta væri ekki svona og að gæti ég bara sett í hlutlausann gír án frekari afleiðinga. En vandamálið er að ég á óvin. Það er til illska í þessum heimi. Persónulegt illt afl sem vill rústa lífi mínu (1Pét 5:8).

Ég hef séð fólk losna við óværu úr lífi sínu eða kynnast Jesú í fyrsta skiptið en fylgja því svo ekki eftir og smám saman fjarar undan því aftur. Fyrsta gleðin dofnar, annir taka yfir og það er ekki tími til að hitta aðra lærisveina, byggjast upp í bæn, orði Guðs og uppbyggjandi samskiptum við aðra sem eru að feta vegferð lærisveinsins.

Við eigum öll þennan óvin sem vill eyðileggja líf okkar. Hann virðist einmitt hafa sérstakan áhuga á þeim sem hafa sýnt viðleitni til að tengjast Guði.

Lestu gaumgæfilega hvernig Jesús lýsir þessu:

(43) Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. (44) Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, (45) fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð." (Mat 12:43-45)

 1. Augljóst er af samhenginu og reyndar öllu NT að óhreinir andar fara ekki út nema tilneyddir.
 2. Vers 43: Eftir að út er komið þá leita þeir að nýjum stað. Þeir greinilega vilja búa í “húsi.” Óhreinir andar sækjast eftir því að komast inn í líf okkar og setjast þar að.
 3. Vers 44: Eftir að hafa árangurslaust leitað að nýjum stað ákveður óhreini andinn að fara aftur á gamla staðinn. Þegar hann finnur þennan stað tóman virðist aðgengið vera auðvelt. Tómt hús er opið hús.
 4. Vers 45: Óhreinir andar taka gjarnan aðra óhreina anda með sér. Þetta er hópíþrótt hjá þeim.
 5. Vers 45: Óhreinir andar skemma líf okkar og auka óreiðuna. Líf okkar verður verra á eftir.

Lykilatriði í því sem Jesús er að segja er að ef við losnum við óhreina anda þá er mikilvægt að skilja líf okkar ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú þannig að þegar óhreinu andarnir snúa aftur komist þeir ekki aftur inn. Þessvegna er svo mikilvægt að skilja húsið okkar (hjarta okkar) ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú svo það sé ekkert pláss fyrir óværu.

Íhugun og framkvæmd

 1. Upplifir þú stundum tómleika innra með þér? Ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við? Hvað hefur reynst vel og hvað hefur reynst illa?
 2. Þegar Jesús kallaði lærisveina til sín þá kallaði hann þá ekki bara til sín heldur líka til að vera saman í hóp. Ert þú að hitta aðra lærisveina reglulega til að lesa, biðja og kalla hver annan til ábyrgðar? Ef ekki, hvað er að hindra þig í því og ertu tilbúinn að breyta því? Allt sem þarf er að finna einn annan og þú getur byrjað með Líf hóp.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Undir áhrifum

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Flest okkar vilja lifa góðu lífi frjáls frá öllu því sem getur hindrað okkur í að eiga góð samskipti við Guð og menn. Það sem getur komið í veg fyrir það eru okkar eigin mistök eða syndir en við getum með líferni okkar gefið óvininum aðgengi að lífi okkar.

Það eru tvær vinsælar kenningar varðandi fjötra sem eru oft kenndar, önnur segir að allir fjötrar séu af völdum illra anda en hin kenningin segir að fjötrar séu vegna þess að við lifum í föllnum heimi og höfum syndugt eðli.

Biblían kennir að fjötrar geti verið af báðum orsökum. Það er því ekki þannig að allt rangt sem við gerum sé að undirlagi illra anda, við erum jú með syndlegt eðli, en ef við erum sífellt að falla fyrir því sama eða ef við viljandi gerum eitthvað sem við vitum að er Guði ekki að skapi þá gæti það verið merki þess að við séum undir áhrifum illra anda. Viðvarandi synd í lífi okkar getur opnað dyr fyrir því illa en getur líka verið merki þess að ill öfl hafi þegar tekið sér bólfestu í lífi okkar.

Er eitthvað í þínu lífi sem þú ert alltaf að falla fyrir, er eitthvað í þínu lífi sem þú upplifir að þú hafir litla eða enga stjórn á? Þú er alltaf að falla fyrir þessu og alltaf að koma með þetta fram fyrir Guð og biðja hann að fyrirgefa þér en svo ertu fallinn aftur stuttu seinna. Ef þetta er svona í þínu lífi þá getur verið að óvinurinn hafi tangarhald á þér.

Jesús sagði við þá sem höfðu tekið trú á hann að sá sem syndgar sé þræll syndarinnar (Jóh 8:34). Ef þú vilt ekki vera þræll og losna þá getur Jesús frelsað þig. Og hann mun frelsa þig ef þú biður hann að fyrirgefa þér. En þú þarft líka að framkvæma til að geta verið frjáls. Þú þarft að vera stöðugur í halda þér að honum í bæn og lestri Biblíunnar en einnig þarft þú að notar þau verkfæri og aðferðir sem Biblían kennir eins og að játa syndir þínar fyrir einhverjum sem þú treystir (Jak. 5:16). og flýja þær aðstæður sem þú veist að geta komið þér til að syndga (1 Kor. 6:18). Ef þú gerir þetta getur þú upplifað að vera frjáls.

Íhugun og framkvæmd

 1. Biblían segir að barist sé um líf þitt. Ert þú sammála því? Hefur þú upplifað það?
 2. Lestu Jóhannesarguðspjall 8:34–36. Er eitthvað í þínu lífi eða annara sem þú kannski kallar veikleiki sem gæti verið fjötrar?
 3. Ertu meðvitaður um að þú þarft að biðja og lesa í Biblíunni til að halda þér frá syndinni? Stundar þú það að játa syndir þínar fyrir einhverjum sem þú treystir?
 4. Ert þú sammála því að með því að stunda eftirfarandi sértu að opna líf þitt fyrir áhrifum illra anda: Kukl, dulspeki eða hluti þar sem við erum að reyna að ná sambandi við eða stjórna einhverju yfirnáttúrulegu eins og stjörnuspeki, stjörnuspákort, tarot spil, andaglas, galdra, lófalestur, miðilsfundir.
 5. Finnst þér í lagi að stunda Jóga? Hvaða augum lítur þú það út frá 2 Mós.20:2-5 "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.4 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.5 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorsteinn Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Guðs er valdið

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Hvað myndir þú gera ef snákur skriði eftir stofugólfinu þegar þú kemur heim einn daginn? Þrátt fyrir að þú myndir teljast dýravinur er ólíklegt annað en að þú vildir losna við hann úr út húsinu. Ef hann yrði ekki fjarlægður myndi nærvera hans skerða frelsi þitt á heimilinu, þú yrðir að gæta þess að rekast ekki á hann til að verða ekki bitinn.

Sennilega eru flestir þeirrar skoðunar að vilja ekki hafa óværu í húsakynnum sínum, þegar þeirra er vart myndi meindýraeyðir vera kallaður til hið snarasta. Þeir sem búa í löndum þar sem snáka er að finna vita að þeir eru slóttugir og reyna gjarnan að lauma sér inn um opna glugga og dyr á húsum, því er mikilvægt að gæta vel að því að allt sé lokað.

Eins er það með okkar andlega líf og húsakynni, viljum við að þar sé óværa sem heftir frelsi okkar á einhvern hátt? Biblían er mjög skýr á því að barist er um líf okkar, að djöfullinn er raunverulegur og kemur aðeins til að stela, slátra og eyða.

Góðu fréttirnar eru þær að sá er meiri sem í okkur er en sá sem er í heiminum. Sigur yfir hinum vonda er nú þegar í höfn svo það er ekkert að óttast. Guð hvetur sitt fólk til að styrkjast í Drottni til að geta staðist vélabrögð djöfulsins.

Verst er að afneita tilveru hans, það gefur honum óhindrað færi og er líkt og opinn gluggi eða dyr inn í líf okkar. Mikilvægt er að finna jafnvægi hér á milli, ekki afneita honum en á sama tíma ekki vera ofur upptekin af honum heldur.

Jesú er góði hirðirinn sem gætir sauða sinn sem þekkja röddu hans frá öðrum röddum og láta ekki blekkjast. Það er mjög mikilvægt að við þekkjum röddu og karakter Guðs til að geta fylgt honum, það gerist aðeins með því að verja tíma með honum og dvelja í orði Guðs.

Íhugun og framkvæmd

 1. Er eitthvað í lífi þínu sem þú hefur ekki náð sigri yfir? Brestir sem þú dettur í aftur og aftur, nærð ekki tökum á?
 2. Hefur þú athugað markvisst hvort í þínu lífi reynist opinn gluggi eða hurð sem gefur óvininum greiða leið?
 3. Hvað er þú að gera til að þekkja röddu Jesú, góða hirðisins? Hversu vel finnst þér þú þekkja röddu hans?
 4. Hvað finnst þér um þær góðu fréttir að meiri er sá sem er í þér en sá sem er í heiminum? Hefur þú reynslu af því?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dagbjört Eiríksdóttir predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi