Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Að viðhaldast og vaxa í trú

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Kristin trú er frábær en það er ekki sjálfsagt að viðhaldast og vaxa í trú. Flestir upplifa einhverntímann á ævinni að það reyni á í lífinu og loks að rafhlaðan og orkan klárist.

Sjálfur hef ég nýlega gengið í gegnum svona tímabil sem jaðraði við útbrennslu. Ég upplifði mikla þreytu og vanmátt að gera það sem ég þó vissi að þurfti að gera. Sem forstöðumaður í kirkju hef ég þurft að hugsa það vel hversu miklu af því sem er að gerast í lífi mínu ég deili, hvenær og hverning. Við viljum vera heilbrigð kirkja og þá þarf að hafa hæfilegt gagnsæi.

Þessvegna hvetjum við alla til að vera í traustum tengslum við aðra þar sem við getum deilt því sem við erum að takast á við í lífinu, t.d. í heimahópum eða lífhópum (sendu okkur línu ef þú vilt vita meira um svona hópa).

En hvernig eigum við að bregðast við þegar rafhlaðan klárast? Hvað er gott meðal við því fyrir þá sem fylgja Jesú?

Hebreabréfið 12:1-3 er með svarið: 1 Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. 2 Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3 Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.

Í þessum þremur versum eru 9 sinnum vísað til þess þema að það séu erfiðleikar eða að það reyni á. Hér eru nokkur dæmi:

 • Vers 1: byrði, synd, þolgæði
 • Vers 2: þolinmæði, smán
 • Vers 3: þolað, fjandskap, þreyta, hugfallast

Þessi texti er því klárlega að fjalla um erfiðleika og að það gerist ekki af sjálfu sér að við vöxum og viðhöldumst í trú. Lausnin er gefin í versum 2 og 3:

 • Vers 2: Beinum sjónum okkar til Jesú...
 • Vers 3: Virðið hann fyrir ykkur...

Lausnin er að breyta því á hvað er horft (beina sjónum) og að virða Jesú fyrir sér. Þetta er meðalið gegn þreytu og því að láta hugfallast. Ef ég er þreyttur þá er gott ráð að verja meiri tíma í það að horfa á Jesú og virða hann fyrir sér. Sjá hann betur og uppgötva meira af honum.

Það eru margar leiðir til að horfa á Jesú. Fyrst og síðast þarf að gefa sér tíma og gefast ekki upp fyrr en þú finnur þær leiðir sem virka best fyrir þig til að verja tíma með Jesú. Hér eru nokkrir pistlar sem fjalla um þetta:

Íhugun og framkvæmd

 1. Hefur þú brunnið út eða upplifað tíma þar sem þú varst mjög þreytt(ur)? Hvernig myndir þú lýsa þessu með eigin orðum?
 2. Hefur þú markvisst tekið tíma seinustu mánuði til að vera með Jesú og horfa á hann? Ef já, hvað hefur gengið vel og hvað hefur verið erfitt? Ef nei, er það af því að þig langar ekki til þess eða eru aðrar ástæður sem þú vilt segja frá?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni og segja frá eigin reynslu.

Sannfæring um það sem ekki er hægt að sjá

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er ekki hægt að lifa án trúar. Trú er að treysta og það er ekki hægt að lifa sem manneskja án þess að treysta einhverju sem ekki er hægt að sanna vísindalega. Jafnvel þeir sem ganga harðast fram gegn trú á Guð lifa sjálfir í trú. Spurningin er aðeins hvað fólk trúir og treystir á. T.d. treystir fólk hvert öðru til að stofna fjölskyldu eða stofna fyrirtæki.

Það er því órökrétt að gagnrýna trú sem slíka því allir trúa á eitthvað. Það má hins vegar ræða hvort trú á Guð sé rökrétt eða ekki. Í dag eru það margir sem gagnrýna mjög trú á Guð og telja aðrar leiðir til að skilja lífið og tilveruna mun traustari og betri. Þetta er umræða sem við í Hvítasunnukirkjunni Selfossi viljum gjarnan eiga við fólk af skynsemi og gagnkvæmri virðingu.

Þeir sem sannfærast um það að Guð sé til gera stundum eitthvað sem guðleysingjum og þeim sem efast finnst óvenjulegt. Ef Guð er til þá er þetta einmitt það sem búast mætti við að gerist.

Tökum Nóa sem dæmi (1Mós 6). Á hans dögum var guðleysi almennt en trú á tilvist Guðs sjaldgæf. Nói átti hinsvegar sögu með Guði. Þeir þekktust. Guð tók ákvörðun um að það þyrfti að hreinsa til í heiminum vegna þess hversu megn illskan var. Hann bað Nóa um að byggja stórt skip, örk, til að bjarga þeim sem vildu bjargast. Fyrir guðleysingja var vægast sagt óvenjulegt að fylgjast með gömlum manni byggja stórt skip uppi á þurru landi. Svona getur sannfæring um tilvist Guðs breytt miklu um hvernig fólk lítur á hlutina.

Auðvitað var ekki hægt að sanna vísindalega að það kæmi flóð á dögum Nóa, fyrir utan það að það var ekki búið að finna upp vísindi. En þetta er einmitt kjarni málsins: Vísindi eða það sem hægt er að sjá og þreifa á eru ekki eina uppspretta þekkingar og sannfæringar í veröldinni. Ef svo væri myndi enginn gera nokkuð án þess að hafa fyrir því vísindalega sönnun (Heb 11:1).

Sannfæring um tilvist Guðs, trú á tilvist Guðs, getur breytt öllu um líf mitt og þitt á Íslandi í dag. Það að trúa á tilvist Guðs gerir það mun líklegra að heyra hvað Guð er að segja og sjá hvað Guð er að gera og þar með vera hluti af verki hans. Guð er eilífur og hans stóra áætlun er að endurreisa allt í syni sínum Jesú Kristi. Mér og þér er ætlaður staður í þessari áætlun (Heb 11:6).

 

Íhugun og framkvæmd

 1. Nefndu dæmi um hverju þú treystir án þess að geta sannað það vísindalega. Dæmi: Ef þú átt maka þá treystir þú trúmennsku hans/hennar án þess að geta sannað það vísindalega.
 2. Hvað finnst þér um opinbera umræðu um trú á Íslandi í dag? Er eitthvað sem ég og þú getum gert til að bæta umræðuna í okkar nærumhverfi?
 3. Hefur þú gert eða séð aðra gera óvenjulega hluti vegna trúar sinnar á Guð?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Chris Parker predika "Trú í verki".

Trú byggir á staðreyndum

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Guð hefur gefið okkur sannanir sem eru byggðar á rökum fyrir því að hann sé til og fyrir því að Jesús sé sá sem hann segist vera. Við erum ekki kölluð til að hafa blinda trú heldur hafa trú sem byggir á rökrænum sönnunum.

Biblían segir að í upphafi skapaði Guð himinn og jörð og Guð sagði „gjörum manninn í vorri mynd“. Hafið þið hugsað út í hvaða þýðingu þetta hefur? Engin af stjörnunum sem þið sjáið á himninum var sköpuð í Guðs mynd. Þetta þýðir að þú varst skapaður í Guðs mynd. Hugsaðu um það virði sem það gefur þér. Þú hefur óendanlegt virði þar sem þú ert skapaður í mynd Guðs.

En svo sjáum við hvernig heimurinn er og þá baráttu sem við eigum við innra með okkur. Það er eins og eitthvað hafi klikkað, af hverju öll þessi illska og þjáning. Það er eins og eitthvað sé að reyna að eyðileggja allt sem er gott og við finnum þessa baráttu innra með okkur. Hvernig berst maður við illskuna? Og hér kemur svarið sem Kristnin gefur okkur, Guð gerðist maður.

Sumir vilja meina að maðurinn sé engu æðri en dýrin og hafi ekkert sérstakt virði en Biblían er ekki sammála því og Guð er alls ekki sammála því, vegna þess að hann gerðist maður. Þær yfirlýsingar sem Jesús gaf um sjálfan sig eru ótrúlegar. Það er enginn nema Guð sem getur gefið svona yfirlýsingar. Jesús sagði „"Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ (Jóh 14:6).

Hann læknaði sjúka, reisti upp dauða, gekk á vatni, breytti vatni í vín, hastaði á vindinn, hann gerði yfirnáttúrulega hluti sem enginn maður getur gert, hluti sem aðeins Guð getur gert. Síðan er hann krossfestur, rís upp frá dauðum og upprisa hans hefur svo mikil áhrif á 11 menn að þeir fara með fagnaðarerindið um allan hinn þekkta heim. Og ekki bara það heldur var búið að spá þessu og og skrifa niður mjög nákvæma lýsingu á því sem Jesús myndi gera nokkrum hundruðum ára fyrir fæðingu Jesú. Yfir 300 spádómar og myndlíkingar eru í Gamlatestamenti Biblíunnar sem lýsa komu, verki og krossfestingu Jesú. Hver getur gert svona hluti annar en Guð. Hver getur boðað komu sína til jarðarinnar hundruðum ára áður en hann fæðist? Það getur enginn annar en Guð. Það eru mjög haldbærar sannanir í sögunni fyrir því að þetta er satt og rétt sem meðal annars má sjá í fjölda ritaðra heimilda.

En önnur rök fyrir því að Kristnin er sönn trú er vegna þess að hún virkar og það er hægt að prófa hana. Þú getur gert tilraun á sjálfum þér og komist af því hvort hún er sönn. Jesús lofar þér að ef þú tekur allt það vonda sem þú hefur gert, allt það sem plagar samvisku þína og biður hann um að fyrirgefa þér syndirnar. Þú segir við hann „Jesús þú dóst til að taka á þig allt það vonda sem ég hef gert, ég veit ekki af hverju en ég veit þú gerðir það og ég er tilbúinn að treysta þér. Viltu fyrirgefa mér syndir mínar ?“. Þá lofar hann að þú munir samstundis fá fyrirgefningu, þú munir eignast eilíft líf og fá nýtt líf sem mun með tímanum skipta sköpum fyrir framtíð þína á þann hátt að þú færð innihaldsríkt líf með tilgangi.

Hve oft hefur maður séð fólk fá nýtt líf með því að gefa Jesú líf sitt. Áhrif Jesú má sjá í lífi fólks sem hefur verið í slæmum málum, til dæmis fullt af vonleysi eða fast í viðjum fíknar sem það hefur ekki getað losað sig úr. Þetta fólk hefur beðið til Jesú að hjálpa sér að losna. Og þá á einhvern yfirnáttúrulegan hátt losnar fólk og nær að lifa mannsæmandi lífi. Ég hef séð svo mörg dæmi um þegar fólk losnar undan fíkn eða vondum lifnaði þar sem það gjörbreyttist þegar það bað Jesú að leiðbeina sér. Það verður einhver breyting á þessu fólki sem ekki er hægt að skýra á annan hátt en kraftaverk hafi skeð. Einstaklingar sem hafa verið öfugu megin við löginn verða allt í einu nýtir þjóðfélagsþegnar og reyna að lifa samkvæmt vilja Guðs. Fólk kemur eins og til baka til heilbrigðis, til baka til tilgangs, til baka til lífs. Hver getur gert svona annar en Guð?

 

Íhugun og framkvæmd

 1. Hver er skýrasta sönnun fyrir tilvist Guðs að þínu mati?
 2. Er eitthvað varðandi Kristna trú sem þér finnst erfitt að trúa eða finnst erfitt að færa rök fyrir?
 3. Kristin trú byggir á upprisu Jesú Krists, hefur þú velt fyrir þér hvaða sannanir eru fyrir því að Hann hafi risið upp og viltu deila því með hópnum?
 4. Hvernig varðst þú sannfærður um að Jesús er sá sem Hann segist vera?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi