Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Hlustun er hornsteinn samskipta og samskipti eru farvegur kærleikans

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Undanfarið hef ég oftar en áður farið með tíkina okkar Aríu, út að ganga á sleppisvæðinu hér á Selfossi. Oft safna ég smásteinum í hendina og hendi þeim svo eftir göngustígnum fyrir hana að elta. Þegar ég býst til að kasta sýnir hún mér einbeitta athygli og fylgist með hverri hreyfingu.

Það er hins vegar misjafnt hversu mikla athygli við fáum í samskiptum okkar við aðra. Reglulega lendi ég í því að í samtali mínu við aðra manneskju er athyglin komin eitthvert annað áður en ég hef lokið við að segja það sem mér liggur á hjarta. Öllu verra er þegar ég stend sjálfan mig að því að vera slæmur hlustandi þegar fólkið sem stendur mér næst þarf á því að halda að ég sé góður hlustandi.

Í Sálmi 115:2-8 standa þessi orð:
2 Hví skyldu þjóðirnar segja: „Hvar er Guð þeirra?“
3 Guð vor er á himni, allt sem honum þóknast gerir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn en tala ekki, augu en sjá ekki.
6 Þau hafa eyru en heyra ekki, nef en finna enga lykt.
7 Þau hafa hendur en þreifa ekki, fætur en ganga ekki, úr barka þeirra kemur ekkert hljóð.
8 Eins og þau eru verða smiðir þeirra,
allir þeir er á þau treysta.

Skurðgoð (vers 4) er lýsing á því þegar eitthvað annað en Guð á forgang í lífi okkar. Þetta geta verið peningar, líkamsdýrkun, hlutir o.s.frv. Sálmurinn lýsir því hvernig skurðgoð hafa á sér það yfirbragð að geta átt samskipti en geta það alls ekki. Þau hafa eyru en heyra ekki (vers 6). Lykil atriðið er svo þetta: Eins og þau eru verða smiðir þeirra (vers 8). M.ö.o., sá sem smíðar sér skurðgoð sem sett er í forgang fer að líkjast skurðgoðinu. Þú byrjar að líkjast því sem þú setur í fyrsta sæti. Ef dauðir hlutir eru í fyrsta sæti ferðu að líkjast dauðum hlutum. Við hættum að heyra og sjá það sem er mikilvægt.

Við höfum einstakt tækifæri fyrir framan okkur. Við höfum tækifæri til að hlusta á skapara alheimsins sem elskar okkur meira en nokkur annar gerir. Með því að setja hann í fyrsta sæti og hlusta á hann þá munum við fara að hlusta betur á allt annað sem skiptir mestu máli í lífi okkar. Þ.m.t. fólkið sem stendur okkur næst.

Áskorun mín til þín er því þessi: Settu í forgang að hlusta á Guð, t.d. í orði hans og í bæn. Ég veit sannarlega að lífið er annríkt. En ég hef aldrei hætt að finna leiðir til að hlusta á Guð. Núna seinast með því að fara út að ganga með Aríu og leita Guðs um leið. Hlustun er hornsteinn samskipta og samskipti eru farvegur kærleikans. Ef samskiptin hiksta eða eru grunn þá hikstar flæði kærleikans. Hlustum á Guð og látum kærleikann flæða.

Íhugun og framkvæmd

  1. Spurðu fólkið sem stendur þér næst hverning hlustandi þú ert. Góður eða slæmur og þá af hverju?
  2. Ef þú vilt verða betri hlustandi, tryggðu að þú takir þér tíma til að hlusta á Guð. Þá muntu hlusta betur á aðra. Hvernig getur þú tekið þér tíma með Guði þessa viku?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.

Besta fararnestið

Skrifað af Sigríður Halldórsdóttir. Posted in Pistlar

Nú þegar sumarið er í nánd og heimahópar og margt kirkjulegt starf er að fara í frí og margir eru að undirbúa langþráð sumarfrí, skulum við gæta þess að taka okkur ekki frí frá Guði.

Ég þekki það af eigin raun að hafa fjarlægst Guð hægt og rólega þar til ég hafði snúið baki við honum. Það gerðist þegar ég var ung og nýlega frelsuð. Ég hafði búið í nokkurn tíma á Ítalíu og fluttist svo til Spánar þar sem ég ætlaði að vera um óákveðinn tíma og læra spænsku. Ég sótti enga kirkju og engan kristilegan félagsskap. Þá var ég hætt að biðja og hafði kannski aldrei vanið mig á að lesa reglulega í Biblíunni.

Ég tók aldrei meðvitaða ákvörðun um að hætta að fylgja Guði, ég var bara ekki meðvituð um hvaða áhrif þetta andlega svelti myndi hafa á líf mitt. Ég lærði af þessu hve kristið samfélag og félagsskapur er mikilvægur fyrir mitt andlega líf, eins verður mér sífellt betur ljóst hversu mikilvægt það er fyrir anda minn að lesa orð Guðs reglulega.

Raunin er sú að hver dagur skiptir máli. Ef við einangrum okkur frá kristnu samfélagi og lesum orðið ekki reglulega fer okkar andlegi maður smátt og smátt að missa máttinn, og hann aðvarar mann ekki því hann er máttvana og í svelti.

Það getur verið barátta að hafa fyrir reglu að lesa daglega í orði Guðs. Ég verð að viðurkenna að ef ég á mjög annríkt, læt ég mér stundum nægja að hafa hann bara með mér í andanum og sleppi að lesa í orðinu. En í dag hef ég ákveðin atriði í huga til að minna mig á mikilvægi þess að lesa daglega í Biblíunni og langar mig að deila þeim með þér hér:

Í Jóh.1.1. segir: Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Að elska Jesú felur líka í sér að elska Biblíuna og vilja heyra hvað hann hefur að segja í dag.

Að vera í Jesú

Jóh. 14:7 segir: Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það. Ef ég vil vera í Jesú og ef ég vil meiri kraft í mitt líf, fleiri bænasvör og verða líkari Jesú, þá fylli ég mig af orði hans.

Biblían segir líka að orðið sé lifandi og kröftugt, og það er lækning í því. Það virkar eins og vítamín: besta virknin er dagleg inntaka. Og það er trúarstyrkjandi í leiðinni.

Jesús er brauð lífsins (Jóh. 6:48).

Ef ég vil láta stjórnast meira af andanum en af holdinu í dag, þá næri ég anda minn og les í orðinu í dag. Ég þarf á Jesú að halda í mínu daglega lífi. Rétt eins og ég þarf að nærast daglega til að fá styrk, þarf ég enn meira á hinu andlega brauði að halda til að minn endurfæddi maður fái að vaxa og styrkjast. Það getur verið spurning um líf eða dauða, andlega séð. Jesús segir sjálfur í Matt. 4:4 Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni. Og í raun ætti orð Guðs að vera okkur mikilvægara en okkar daglega fæða sem við getum ekki lifað án.

Gleymum því ekki að taka Biblíuna með okkur í fríið. Bjóðum Jesú með okkur í bústaðinn, tjaldvagninn eða utanlandsferðina og komum svo heim vel nærð og andlega hraust eftir góða hvíld og skemmtilegt sumarfrí.

Guð blessi þig í sumar!

Höfundur: Sigríður Halldórsdóttir

Bestu fréttirnar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Sumt þykir okkur svo sjálfsagt að við tökum varla eftir því rétt eins og fiskurinn sem veit ekki að hafið er til því hann þekkir ekkert annað. Tökum mannréttindi sem dæmi. Okkur íslendingum þykir sjálfsagt að mannréttindi séu virt á okkar landi og erum fljót að rísa upp ef á þeim er brotið.

Ef enginn Guð er til þá er hinsvegar erfitt að rökstyðja mannréttindi. Ef manneskja er ekkert nema þróað dýr, er þá einhver munur á mér og hundinum mínum annar en hvar í eldhúsinu skálin okkar er staðsett? Hvers vegna ætti ég þá að hafa einhver réttindi umfram hundinn?

Segjum að enginn Guð sé til. Það er ekkert til nema efni, orka og náttúrulögmál. Ekkert nema atóm á hreyfingu. Hvernig getum við þá rökstutt virði og gildi fyrir manneskju? Vísindin segja okkur að alheimurinn muni að lokum kulna út. Stór svarthol gleypa pláneturnar uns allt er flatt út. Þetta er vísindaleg staðreynd eins langt og þekking okkar nær núna. Ekkert sem nokkur manneskja gerir skiptir þá neinu máli þegar horft er til langs tíma.

H. G. Wells fjallar um þetta þema í skáldsögunni Tímavélin. Þar ferðast söguhetjan 30 milljón ár inn í framtíðina til að sjá framgang mannkyns og finnur þar ekkert nema deyjandi jörð en enga menn. Þegar hann fer enn lengra inn í framtíðina sér hann jörðina smám saman hætta að snúast og alheiminn kólna niður.

Ef þetta er sannarlega framtíðarsýn guðleysis, hvers vegna skiptir þá eitthvað máli, þar með talið mannréttindi?

Staðreyndin er sú að ekkert annað en fagnaðarerindið gefur almennilegan grunn og rökstuðning fyrir mannréttindi. 

Fagnaðarerindið eru þær góðu fréttir að Guð varð maður í Jesú Kristi. Hann lifði lífinu sem við áttum að lifa og dó þeim dauða sem við áttum að deyja – í okkar stað. Þremur dögum síðar reis hann upp frá dauðum og sannaði þannig að hann er Sonur Guðs og býður hjálpræði öllum þeim sem iðrast og trúa á hann.

 Guð skapaði mig og þig í sinni mynd. Þess vegna höfum við virði og tilgang, bæði núna og inn í óendanlega framtíð með Guði. Þetta er fagnaðarerindið og bestu fréttir sem við getum gefið nokkrum manni því ekkert annað gefur manneskju jafn sterkan grunn til að þekkja sín mannréttindi og virða aðra sömuleiðis.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú hugleitt áhverju virði manneskju og þar með mannréttindi eru byggð? Notaðu tækifærið og spurðu aðra að því á hverju mannréttindi byggjast og hlustaðu hverju fólk svarar.
  2. Ef þú er kristinn, æfðu þig þá í að útskýra fyrir öðrum af hverju fagnaðarerindið er bestu fréttirnar.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um þetta efni.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi