Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Páskar - Ríki Jesú er ekki af þessum heimi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Jesús ríður á asna inn í Jerúsalem og fólkið fagnar. Páskahátíð gyðinga var að hefjast. En hvað höfðu þeir sem fögnuðu í huga? Jafnvel þeir sem þekktu Jesús best höfðu ranga sýn á hvað Jesús ætlaði sér að gera. Margir vonuðust til að Jesús myndi reka rómverjana út og endurreisa Ísrael sem sterkt veraldlegt ríki. Aðrir vildu sjá Jesús lækna alla sjúka og gefa öllum nægt brauð að borða.

En Jesús hefur aldrei passað inn í okkar veraldlegu hugmyndir um hann. Kirkjan á að vera líkami Jesú hér á jörðu, hendur hans og fætur. Sumar af verstu stundum kirkjunnar hafa verið þegar hún hefur þáð veraldlega upphefð og völd. Hefur blandað sér í stjórnmál og veraldarvafstur. Kirkjan á að einbeita sér að hjörtum fólks og að gera fólk að lærisveinum Jesú Krists. Ríki Jesú er ekki af þessum heimi þó það geti mótað þennan heim þegar Jesús er Drottinn í lífi okkar.

Við sem í huga okkar horfum á Jesú koma inn í Jerúsalem og fólkið fagna ættum að minnast þess að á eftir Pálmasunnudegi kemur krossinn. Krossinn er kjarni þess að fylgja Jesú. Sá sem fagnar Jesú verður að koma að krossinum til að kynnast því virkilega hver Jesús er. Sá sem velur sér “sinn eigin Jesú,” Jesús sem á að klára þann málstað sem ég hef mestan áhuga á, þarf að koma að krossinum og skilja sínar hugmyndir um réttlátan heim eftir þar. Gefa Jesú líf sitt og þiggja í staðinn nýtt hjarta frá honum, hjarta sem hefur gert Jesús að Drottni og meðtekið hann sjálfan, Jesús, sem réttlæti Guðs fyrir þennan heim. Það er bara ein leið til að það ríki friður og réttlæti í þessum heimi, að Jesús sé Drottinn.

Íhugun og framkvæmd

 1. Hvað finnst þér vera mesta óréttlætið á Íslandi? Hverju myndir þú breyta ef þú værir einræðisherra í einn dag á Íslandi?
 2. Hefur þú einhverntímann þurft að leiðrétta hugmyndir þínar um hver Jesús er?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Helga Guðnason predika um þetta efni.

Abraham - Ekki er allt gull sem glóir

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er oft ótrúlega ópraktískt að gera það sem er rétt. Að fá rangt gefið til baka í búð og vera sestur inn í bíl þegar það uppgötvast. Þurfa því að fara aftur inn og leiðrétta mistökin. Fá roskinn iðnarmann í verkefni og komast að því eftir á að sá roskni vill helst fá borgað svart því annað skerðir svo eftirlaunin. E.t.v. ert þú sem þetta lest jafnvel hissa á því að einhver velti því yfirleitt fyrir sér að rétt og rangt skipti máli í þessum dæmum.

Sannleikurinn er sá að hegðun okkar skiptir máli, sérstaklega hvernig við komum fram við aðra. Okkur íslendingum er í fersku minni efnahagshrunið 2008. Við vitum vel að græðgi er vandamál. Græðgi og margt annað eru vandamál sem liggja í hjörtum okkar.

Jesús tók á kjarna þessa vandamáls þegar hann sagði „úr hjarta mannsins koma hinar illu hugsanir” (Mar 7:21) og „Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jóh 10:10).

Abraham var uppi löngu fyrir daga Jesú en tókst líka á við þetta vandamál með rétt og rangt. Í 1Mós 13 er sagt frá deilu á milli Abraham og Lots og fjárhirða þeirra vegna þess að það var ekki nóg beitiland fyrir kvikfénað beggja. Klassískt dæmi tveggja aðila um árekstur vegna takmarkaðra auðlinda. Svona árekstra má lesa um í fréttum á hverjm degi.

Abraham á frumkvæði að lausn. Hann leggur til að Lot velji sér svæði og Abraham fari svo annað. Abraham gefur Lot fyrsta val. Lot velur vitaskuld landið sem lítur betur út.

Hvað veldur því að Abraham leysir vandamálið svona? Ástæðan er að Abraham sá lengra og víðara. Hann sá ekki bara landið og gæði þessu heldur átti Abraham samskipti við Guð og það mótaði hvað hann horfði á. Í 1Mós 12 hafði Guð gefið Abraham loforð og Abraham brást við með því að byggja altari (1Mós 12:7). Altari er tilbeiðslu og fórnar staður. Það þarf að hafa fyrir því að byggja altari því þau voru hlaðin úr stórum steinum. Í okkar samhengi mætti segja að altari er að hafa fyrir því að gefa Guði rými í lífi sínu, staður og stund til að hlúa að samfélagi sínu við Guð.

Abraham sér því ekki bara deiluna við Lot heldur horfir hann greinilega lengra og til þess sem Guð hefur sagt. Í 1Mós 13:4 segir að Abram (sem seinna fékk nafnið Abraham) hafi ákallað Drottinn. Það eru bein tengsl á milli þess að Abraham ákallar Guð og hvernig deilan við Lot er leyst.

Við getum tekið Abraham okkur til fyrirmyndar með því að vera fólk sem byggir altari, þ.e.a.s. fólk sem gefur Guði stað og stund í lífi sínu og ákallar hann. Nærvera Guðs, að hafa heyrt frá Guði, setur samskipti okkar við annað fólk í allt annað samhengi og byggir upp gott samfélag á milli manna.

Íhugun og framkvæmd

 1. Hefur þú lent í deilum við aðra? Hver varð niðurstaðan?
 2. Hefur þú upplifað að góð tengsl við Guð breyti samskiptum þínum við annað fólk? Hvað er það sem gerist?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.

Var Jesús til? Fjórði hluti: Fræðasamfélagið og lokaorð

Skrifað af Margrét María Ágústsdóttir. Posted in Pistlar

Hvað finnst fræðingunum í heiminum í dag um Jesú? Trúa þeir að hann hafi verið til?

Gary Habermas er fæddur 28.júní árið 1950 og á heima í Detroit, Michigan U.S.A. Hann er bandarískur sagnfræðingur, fræðimaður í Nýja Testamentinu og heimspekingur. Þegar Gary var doktorsnemi við Michigan State háskólann ákvað hann að skrifa doktorsverkefnið sitt um upprisu Jesú Krists. Hann tók því saman og rannsakaði það sem rúmlega 2200 fræðimenn um allan heim hafa skrifað um þetta efni síðan 1975 til dagsins í dag. Óháð því hvort þeir eru efasemdarmenn, guðleysingjar, kristnir, búddistar eða eitthvað annað. Og það sem mikill meirihluti eða 80-90% þessara fræðinga voru sannfærðir um eru eftirfarandi fimm staðreyndir varðandi Jesú Krist. Þeir eru ekki sammála um hver Jesús var heldur aðeins að hann var til:

 1. Jesús var til og hann var tekinn af lífi af rómverjum. Það er sagnfræðileg staðreynd sem lang flestir fræðingar í dag eru sammála um. Svo margar heimildir eru til um þetta og langflestir fræðingar frá ýmsum trúarbrögðum í nútímanum eru sannfærðir um þetta svo ef maður heldur öðru fram en þessu má segja að maður sé í mótsögn við fræðasamfélag nútímans.
 2. Gröfin þar sem Jesús var grafinn var fundin tóm.
 3. Lærisveinarnir voru sannfærðir um að Jesú hefði birst þeim og margir þeirra létu lífið fyirir það.
 4. Sál frá Tarsus sem ofsótti kristna tók 180 gráðu beygju og varð einn helsti predikari kirkjunnar.
 5. Fréttir um að Jesús hefði risið upp frá dauðum og að gröfin væri tóm fóru að berast út bara örfáum dögum eftir að það gerðist.

Þessar staðreyndir eru langflestir fræðingar í dag sannfærðir um.

Lokaorð

Í þessum fjórum pistlum (sjá hér fyrir neðan) hefur verið fjallað um hvernig við getum vitað að hlutir eru sannir og hvort að þeir sem skrifuðu guðspjöllin hafi verið að segja satt. Við höfum skoðað heimildir bæði í Biblíunni og utan hennar og heyrt hvað fræðingar hafa að segja um þetta.

Lokaniðurstaðan er því þessi. Jesús Kristur var til og gekk um á þessari jörðu fyrir u.þ.b. 2018 árum síðan. Hvernig stendur þá á því að svona margt fólk trúir því að Jesús hafi ekki verið til? Það eru til svo margar heimildir og langflestir fræðingar eru sammála um að hann hafi verið til hvort sem hann var Guð eða ekki. Kannski er það skortur á upplýsingum og upplýsingamiðlun um þetta til fólks. Vonandi á það eftir að breytast. Og vonandi hafið þið kæru lesendur notið lestursins á þessum pistlum jafn vel og mér fannst að skrifa þá.

Þetta er fjórði hluti af fjórum.

 1. Var Jesús til? Fyrsti hluti: Hvernig veistu það sem þú veist?
 2. Var Jesús til? Annar hluti: Heimildir utan Biblíunnar
 3. Var Jesús til? Þriðji hluti: Guðspjöllin í Nýja Testamentinu
 4. Var Jesús til? Fjórði hluti: Fræðasamfélagið og lokaorð

Höfundur: Margrét María Ágústsdóttir

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi