Abraham - Ekki er allt gull sem glóir
Það er oft ótrúlega ópraktískt að gera það sem er rétt. Að fá rangt gefið til baka í búð og vera sestur inn í bíl þegar það uppgötvast. Þurfa því að fara aftur inn og leiðrétta mistökin. Fá roskinn iðnarmann í verkefni og komast að því eftir á að sá roskni vill helst fá borgað svart því annað skerðir svo eftirlaunin. E.t.v. ert þú sem þetta lest jafnvel hissa á því að einhver velti því yfirleitt fyrir sér að rétt og rangt skipti máli í þessum dæmum.
Sannleikurinn er sá að hegðun okkar skiptir máli, sérstaklega hvernig við komum fram við aðra. Okkur íslendingum er í fersku minni efnahagshrunið 2008. Við vitum vel að græðgi er vandamál. Græðgi og margt annað eru vandamál sem liggja í hjörtum okkar.
Jesús tók á kjarna þessa vandamáls þegar hann sagði „úr hjarta mannsins koma hinar illu hugsanir” (Mar 7:21) og „Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð” (Jóh 10:10).
Abraham var uppi löngu fyrir daga Jesú en tókst líka á við þetta vandamál með rétt og rangt. Í 1Mós 13 er sagt frá deilu á milli Abraham og Lots og fjárhirða þeirra vegna þess að það var ekki nóg beitiland fyrir kvikfénað beggja. Klassískt dæmi tveggja aðila um árekstur vegna takmarkaðra auðlinda. Svona árekstra má lesa um í fréttum á hverjm degi.
Abraham á frumkvæði að lausn. Hann leggur til að Lot velji sér svæði og Abraham fari svo annað. Abraham gefur Lot fyrsta val. Lot velur vitaskuld landið sem lítur betur út.
Hvað veldur því að Abraham leysir vandamálið svona? Ástæðan er að Abraham sá lengra og víðara. Hann sá ekki bara landið og gæði þessu heldur átti Abraham samskipti við Guð og það mótaði hvað hann horfði á. Í 1Mós 12 hafði Guð gefið Abraham loforð og Abraham brást við með því að byggja altari (1Mós 12:7). Altari er tilbeiðslu og fórnar staður. Það þarf að hafa fyrir því að byggja altari því þau voru hlaðin úr stórum steinum. Í okkar samhengi mætti segja að altari er að hafa fyrir því að gefa Guði rými í lífi sínu, staður og stund til að hlúa að samfélagi sínu við Guð.
Abraham sér því ekki bara deiluna við Lot heldur horfir hann greinilega lengra og til þess sem Guð hefur sagt. Í 1Mós 13:4 segir að Abram (sem seinna fékk nafnið Abraham) hafi ákallað Drottinn. Það eru bein tengsl á milli þess að Abraham ákallar Guð og hvernig deilan við Lot er leyst.
Við getum tekið Abraham okkur til fyrirmyndar með því að vera fólk sem byggir altari, þ.e.a.s. fólk sem gefur Guði stað og stund í lífi sínu og ákallar hann. Nærvera Guðs, að hafa heyrt frá Guði, setur samskipti okkar við annað fólk í allt annað samhengi og byggir upp gott samfélag á milli manna.
Íhugun og framkvæmd
- Hefur þú lent í deilum við aðra? Hver varð niðurstaðan?
- Hefur þú upplifað að góð tengsl við Guð breyti samskiptum þínum við annað fólk? Hvað er það sem gerist?
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.