Bestu fréttirnar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Sumt þykir okkur svo sjálfsagt að við tökum varla eftir því rétt eins og fiskurinn sem veit ekki að hafið er til því hann þekkir ekkert annað. Tökum mannréttindi sem dæmi. Okkur íslendingum þykir sjálfsagt að mannréttindi séu virt á okkar landi og erum fljót að rísa upp ef á þeim er brotið.

Ef enginn Guð er til þá er hinsvegar erfitt að rökstyðja mannréttindi. Ef manneskja er ekkert nema þróað dýr, er þá einhver munur á mér og hundinum mínum annar en hvar í eldhúsinu skálin okkar er staðsett? Hvers vegna ætti ég þá að hafa einhver réttindi umfram hundinn?

Segjum að enginn Guð sé til. Það er ekkert til nema efni, orka og náttúrulögmál. Ekkert nema atóm á hreyfingu. Hvernig getum við þá rökstutt virði og gildi fyrir manneskju? Vísindin segja okkur að alheimurinn muni að lokum kulna út. Stór svarthol gleypa pláneturnar uns allt er flatt út. Þetta er vísindaleg staðreynd eins langt og þekking okkar nær núna. Ekkert sem nokkur manneskja gerir skiptir þá neinu máli þegar horft er til langs tíma.

H. G. Wells fjallar um þetta þema í skáldsögunni Tímavélin. Þar ferðast söguhetjan 30 milljón ár inn í framtíðina til að sjá framgang mannkyns og finnur þar ekkert nema deyjandi jörð en enga menn. Þegar hann fer enn lengra inn í framtíðina sér hann jörðina smám saman hætta að snúast og alheiminn kólna niður.

Ef þetta er sannarlega framtíðarsýn guðleysis, hvers vegna skiptir þá eitthvað máli, þar með talið mannréttindi?

Staðreyndin er sú að ekkert annað en fagnaðarerindið gefur almennilegan grunn og rökstuðning fyrir mannréttindi. 

Fagnaðarerindið eru þær góðu fréttir að Guð varð maður í Jesú Kristi. Hann lifði lífinu sem við áttum að lifa og dó þeim dauða sem við áttum að deyja – í okkar stað. Þremur dögum síðar reis hann upp frá dauðum og sannaði þannig að hann er Sonur Guðs og býður hjálpræði öllum þeim sem iðrast og trúa á hann.

 Guð skapaði mig og þig í sinni mynd. Þess vegna höfum við virði og tilgang, bæði núna og inn í óendanlega framtíð með Guði. Þetta er fagnaðarerindið og bestu fréttir sem við getum gefið nokkrum manni því ekkert annað gefur manneskju jafn sterkan grunn til að þekkja sín mannréttindi og virða aðra sömuleiðis.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú hugleitt áhverju virði manneskju og þar með mannréttindi eru byggð? Notaðu tækifærið og spurðu aðra að því á hverju mannréttindi byggjast og hlustaðu hverju fólk svarar.
  2. Ef þú er kristinn, æfðu þig þá í að útskýra fyrir öðrum af hverju fagnaðarerindið er bestu fréttirnar.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um þetta efni.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi