Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Guð notar mistök okkar

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Abraham er ein af lykilpersónum Biblíunnar og er oft talað um hann sem föður trúarinnar. Ástæða þess er að hann trúði að það væri satt sem Guð hafði lofað honum og hann framkvæmdi eftir því. Þó að Abraham tryði því sem Guð lofaði honum þá kom samt fyrir að hann efaðist og tók málin í sínar eigin hendur og fyrir vikið lenti hann í vandræðum. En það góða var að Guð bjargaði honum úr þeim vandræðum sem hann kom sér í og ekki bara það heldur notaði Guð mistök Abrahams til að kenna honum að treysta sér.

Ef Abraham gerði mistök á trúargöngu sinni þá tel ég nokkuð víst að við gerum mistök á okkar göngu. Í sjálfu sér er eðlilegt að gera mistök, sérstaklega þegar við erum ung í trúnni og Guð mun nota mistök okkar til að kenna okkur að treysta sér en það er ekki eðlilegt að vera alltaf að gera sömu mistökin.

Eins og Abraham lærði af sínum mistökum þurfum við einnig að læra af okkar að treysta Guði. Guð er góður Guð sem fyrirgefur okkur þegar okkur verður á en hann ætlast ekki til að við séum alltaf að gera sömu mistökin eða alltaf að falla fyrir því sama. Heldur vill hann að við lærum að treysta honum og að við gerum það sem heldur okkur frá mistökum og falli. En það er einungis eitt sem getur varnað því að við gerum mistök á trúargöngu okkar en það er að hafa nærveru Guðs í lífi okkar með því að eiga daglega stund með Guði þar sem við bæði tölum við Hann og lesum í Biblíunni. Það er bara nærvera Guðs í lífi okkar sem getur varnað því að við gerum mistök eða föllum á trúargöngu okkar.

 

Íhugun og framkvæmd

  1. Jesús kallar okkur öll til að fylgja sér ert þú að fylgja þeirri köllun með því að biðja og lesa í Biblíunni daglega?
  2. Hefur þú gert mistök sem Guð hefur notað til að kenna þér að treysta Honum?
  3. Hefur þú upplifað að Guð hafi blessað þig á einhvern hátt þrátt fyrir að þú hafir gert mistök?
  4. Finnst þér Guð hafa kallað þig til einhvers ákveðins hlutverks, ef svo er hvert er hlutverkið?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Abraham - Faðir trúarinnar

Skrifað af Aron Hinriksson. Posted in Pistlar

Abraham

Ýmindaðu þér mann á áttræðisaldri í fornöld sem finnst hann heyra frá Guði sem hann þó veit ekkert um. Skilaboðin ganga út á að ferðast á ókunnar slóðir langt í burtu ásamt fjölskyldu sinni til þess að taka á móti loforði Guðs. Maðurinn, Abraham leggur af stað í trausti þess að það sem hann heyrði væri sannleikur. - Og svo reynist vera og Abraham varð í kjölfarið á endanum faðir gyðingaþjóðarinnar.

Við búum við þann veruleika að við getum vitað miklu meira um Guð en Abraham gerði. Við getum lesið bækur, hlustað á kennslur og fengið upplýsingar héðan og þaðan. Það leiðir þó ekki endilega til þess að við treystum frekar. Raunar er það svo að margir leita meira í öryggi þess sem þeir sjá í kringum sig eftir því sem tíminn líður og treysta Guði um leið minna. Þetta gerist þrátt fyrir að Guð hafi aftur og aftur reynst trúfastur.

Margir eiga auðvelt með að treysta Guði þegar þeir hafa ekkert annað og sjá hann þá starfa á ótrúlegan hátt. Þegar hinsvegar við höfum betri fjárhag og öryggisnet í kringum okkar getur orðið auðveldara að treysta á það, og minna á Guð.

Um leið er hætt við að við förum á mis við áætlun Guðs og stundum, stóra hluti sem Guð vill vinna í gegnum líf okkar. Trú er að fara af stað án þess að vita nákvæmlega hvernig endirinn verður, vitandi að Guð er stærri en aðstæðurnar.

Megir þú eiga hugrekki til þess að treysta Guði fyrir öllu þínu lífi, allt þitt líf.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir AbrahamAron Hinriksson er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun frá honum um þetta efni.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Hafa verið tímabil í þínu lífi þar sem þú treystir Guði meira en þú gerir í dag?
  2. Hvernig finnst þér tilhugsunin um að leggja allt líf þitt í Guðs hendur þannig að hann ráði allri þinni vegferð?
  3. Hvaða áþreifanlegu skref getur þú tekið í dag til þess að ganga fram í trú og trausti á Guði?

Hlusta á kennslu

Trú í verki, frásögn frá Rós Ingadóttur

Skrifað af Rós Ingadóttir. Posted in Pistlar

Ég segi oft, Jesús er eini læknirinn. Guði er ekkert um megn. Fyrir tæpum fjórum árum í byrjun maí, hringdi eldri dóttir mín í mig. Hún er búsett í Noregi ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum. Hún sagði mér að dóttirdóttir mín hefði greinst með banvænan tauga- og hrörnunarsjúkdóm. Sæbjört var þá 17 ára og töldu læknarnir að hún gæti í mesta lagi náð 25 ára aldri.

Læknarnir höfðu bæði tekið sýni úr blóði og mænuvökva Sæbjartar. Niðurstöðurnar voru óyggjandi. Við gátum ekkert annað en grátið saman í símanum. Hvílík sorg sem kramdi hjörtu okkar. Mér fannst ég svo lítil og einskis megnug gagnvart þessum hræðilega sjúkdómi. Ég bað til Guðs af þeim litlu kröftum sem ég átti.

Nokkrum vikum seinna fór ég að vinna hjá Samhjálp. Um miðjan ágúst var mér boðið á bænastund. Við vorum þarna fimm samankomin og Vörður Leví Traustason sat við annan enda borðsins. Fyrir framan hann var bænakarfa með nöfnum fólks sem beðið var fyrir. Ég gat ekki talað um örlög dótturdóttur minnar án þess að klökkna, en ég bað um að fá að setja nafn hennar í körfuna því hún væri með banvænan hrörnunarsjúkdóm. Þá sagði Vörður rólega en ákveðið „það er ekki alltaf rétt það sem læknarnir segja.'' Þessi orð gáfu mér strax von, trú og styrk.

Hann sagði okkur frá því þegar Trausti faðir hans varð fyrir mjög alvarlegu slysi í Vestmannaeyjum, er hann féll ofan af húsþaki þá 42 ára gamall. Hann datt ofan á steypustyrktarjárn, tein, sem fór í gegnum bakið og magann. Það var farið með hann á skurðstofu Sjúkrahússins. Ragnheiður kona hans beið frammi. Læknirinn kom til hennar og sagði henni að það væri engin von því maginn væri fullur af krabbameini, hann ætti aðeins nokkrar vikur eftir á lífi. Ragnheiður fór strax að safna saman systkinunum í Hvítasunnusöfnuðinum til þess að biðja. Það var beðið látlaust. Nokkrum vikum síðar fór Trausti á fætur og var nokkuð hress. Hann fékk stundum hitaköst og hann var einnig með gúlp á maganum. Hann var því skorinn upp. Í maga hans var lokaður sekkur, en maginn var hreinn. Þar var ekkert krabbamein að finna og Trausti gróinn sára sinna.

Þegar Trausti fór að fara á fætur dreymdi Ragnheiði draum. Henni þótti sem safnaðarbörnin væru í líkfylgd Trausta. Þau voru að fylgja honum frá heimili hans að æskuheimilinu. Þegar líkfylgdin var komin miðja vegu stöðvaði þau engill Drottins og bauð þeim að snúa við. Ragnheiður spurði engilinn af hverju hann væri að snúa þeim við. Þá sagði engillinn „bænir Guðsbarna hafa verið heyrðar.'' Þegar heim var komið tók engillinn líkklæði Trausta, innsiglaði þau og hengdi þau inn í skáp. Trausti lifði við góða heilsu fimmtíu ár í viðbót.

Frásögn Varðar var svo uppörvandi og gaf mér svo mikla von, að það var sem þungum steini væri lyft af hjarta mínu. Það var haldið áfram að biðja fyrir Sæbjörtu allt sumarið. Um miðjan október var ég að ljúka störfum hjá Samhjálp. Ég hitti Vörð á ganginum og hann spurði mig hvað væri að frétta frá Noregi. Dóttir mín hafði þá hringt í mig deginum áður og sagt „mamma þetta er ekki þessi vondi sjúkdómur. Þetta er annarskonar sjúkdómur sem læknarnir þekkja ekki, en er sennilega hægt að halda niðri með lyfjum." Þetta sagði ég Verði. Hann sagði „við höldum áfram."

Sýni voru tekin úr dótturdóttur minni, blóðsýni og mænuvökvi sem fyrr. Niðurstöður höfðu breyst mjög til hins betra. Læknarnir skildu ekki hvað var að gerast því ekkert þessu líkt hafði gerst áður. Við hverja sýnatöku batnaði hvort tveggja, blóð og mænuvökvi hjá Sæbjörtu. Svona gekk þetta þangað til fyrir þremur mánuðum. Þá var Sæbjört tekin af nánast öllum lyfjum og talin alheilbrigð, læknuð. Norski læknirinn sem hélt alfarið utan um Sæbjörtu í veikindum hennar sagði hvað eftir annað við dóttur mína að þetta hefði aldrei komið fyrir áður. Enginn með svo alvarlegan sjúkdóm hefði læknast svona. Þetta væri með öllu óþekkt „syndrum." Svona vinnur Guð. Við þökkum algóður Guði fyrir að lækna Sæbjörtu. Guði er ekkert um megn.

Íhugun og framkvæmd

  1. Þekkir þú eða hefur þú upplifað trú í verki, t.d. lækningu eins og lýst er hér fyrir ofan eða að fólk geri eitthvað af þrautseigju og áhuga af því það trúir á Guð?
  2. Ef þú ert að takast á við erfiðleika, komdu þá í heimsókn til okkar á samkomu á sunnudögum kl.11 og leyfðu okkur að biðja með þér.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á þrjár frásagnir um trú í verki, m.a. þessa frásögn frá Rós Ingadóttur.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi