Var Jesús til? Annar hluti: Heimildir utan Biblíunnar

Skrifað af Margrét María Ágústsdóttir. Posted in Pistlar

Margir halda að Biblían sé eina sagnfræðilega heimildin sem við höfum fyrir því að Jesús hafi verið til. Það er hins vegar ekki satt því það eru til miklu fleiri sagnfræðilegar heimildir um líf hans heldur en Biblían; bæði kristnar og ekki.

Tacitus er oft talinn einn mesti sagnaritari rómverja. Hann fæddist um árið 55 og hefur líklega dáið eftir árið 117. Í svokölluðum annálum sínum minnist hann á Jesú á þessa leið:

Af þeim sökum, til að losna við þennan orðróm, ásakaði Neró og beitti hörðum pyntingum flokk fólks sem hatað var fyrir viðurstygg sína, kallað “kristnir“ af almenningi. Kristur, en þaðan er nafnið dregið, hlaut hina endanlegu refsingu í stjórnartíð Tíberíusar af hendi Pontíusar Pílatusar. Ákaflega skaðleg hjátrú, því haldið í skefjum um þessar mundir, braust aftur út, ekki aðeins í Júdeu, helstu uppsprettu þessarar illsku, heldur einning í Róm þar sem viðbjóður og svívirða frá öllum hornum heimsins festir rætur og nær hylli.

Eins og lesa má fylgdi Tacitus greinilega ekki Jesú en samt minnist hann á hann og gefur meira að segja seinna í ritinu fína lýsingu á því hvernig lærisveinum Jesú og þeim sem honum fylgdu var refsað fyrir trú sína á hann.

Annar sagnaritari Plinius yngri, rómverskur landstjóri í Bithyníu, skrifaði ekki aðeins um Jesú heldur gaf í skyn að hann tryði að hann væri frelsarinn þ.e.a.s. sonur Guðs í bréfi sínu til Trajanusar keisara um árið 112. Þar lýsir hann því sem fylgjendur Jesú gerðu s.s. hittust á ákveðnum degi og sungu vers í lofsöngum til Drottins og söfnuðust síðan saman og neyttu matar – venjulegrar skaðlausar fæðu minnist hann sérstaklega á.

Til viðbótar má svo nefna þriðju aldar sagnaritarann Júlíus Africanus en hann vitnar í fyrstu aldar sagnaritarann Tallíus sem skrifaði um myrkrið sem skall á eftir krossfestingu Jesú og sagði það vera sólmyrkva. En Júlíus útskýrir vel af hverju það stenst ekki þar sem krossfesting Jesús var á allt öðrum tíma í göngu tunglsins þ.e.a.s. að sólmyrkvar verða þegar tunglið og sólin mætast en tunglið var langt frá því að vera fullt og hjá sólinni á þeim tíma mánaðar sem krossfestingin átti sér stað.

Þetta er annar hluti af fjórum.

  1. Var Jesús til? Fyrsti hluti: Hvernig veistu það sem þú veist?
  2. Var Jesús til? Annar hluti: Heimildir utan Biblíunnar
  3. Var Jesús til? Þriðji hluti: Guðspjöllin í Nýja Testamentinu
  4. Var Jesús til? Fjórði hluti: Fræðasamfélagið og lokaorð

Höfundur: Margrét María Ágústsdóttir

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi