Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Að elska náungann og óvininn

Skrifað af Tómas Davíð Ibsen Tómasson. Posted in Pistlar

Ást, elska, kærleikur er eitt af þeim málefnum sem mönnum er hvað mest hugleikið á vesturlöndum í dag. Við sjáum það í dægurmenningu: tónlist, bíómyndum, auglýsingum, bókum, o.s.frv. Af hverju er það?

Hvað er svona merkilegt við kærleikann - hvað kennir Biblían okkur um kærleikann? Hún kennir okkur ótrúlega marga hluti þó ekki eingöngu kærleika Guðs til okkar heldur og hvernig okkur ber að elska náungann og jafnvel óvini okkar. Hvernig gerum við það?

Í fyrra Korintubréfi kafla 13 talar Páll um þá eiginleika sem kærleikurinn ber með sér:

(4) Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. (5)Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. (6)Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. (7)Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. (8)Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Á þessi upptalning við okkur öllum stundum? Að elska kostar okkur. Það kostar fyrirhöfn að elska og jafnvel stundum er það átak. Það að elska í raun er ekki eingöngu að sýna væntumþykkju og vinaþel þegar einstaklingurinn er elskulegur, heldur ber okkur einnig að elska þegar aðrir hegða sér jafnvel eins og fífl.

Í Filippíbréfinu 4. kafla býður Páll okkur að hugsa einnig um hag annarra. Það getur reynst okkur erfitt þar sem það er oft svo stutt í eigingirnina.

Í Matteusarguðpjalli 5:44 býður Jesús okkur að elska ekki eingöngu náungann heldur fer hann enn lengra og býður okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim.

Margir kunna að spyrja hvernig hægt sé að elska óvin sinn eða þá sem koma illa fram við mann? Biblían kemur með svarið við þeirri spurningu á sama stað „... og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.”

Þegar maður biður reglulega fyrir fólki og af einlægni þá er óhjákvæmilegt að fara að sjá það fólk með þeim augum sem Guð sér þau, einstaklingar sem eru dýrmætir í augum Hans.

Martin Luther King er ein af helstu mannréttindahetjum okkar tíma. Hann þurfti að berjast gegn öflum hatur með kærleikann að vopni. Hann sagði eitt sinn að kærleikurinn einn er þess megnugur að breyta óvin í vin.

Kæru vinir elskum Guð, virðum og elskum náungann og leyfum okkur að sjá hvert annað eins og Guð sér okkur, dýrmæt Guðs börn.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Tómas Davíð Ibsen Tómasson predika um efni þessa pistils.

Betri er tveir en einn

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. (10) Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur Pred 4:9-10a

Falleg orð hjá predikaranum. En það getur líka verið áskorun því samfélag við aðra getur valdið núningi.

Að vera lærisveinn Jesú er að vera í samfélagi við aðra. Jesús kallað til sín 12 lærisveina og margir þeirra voru ólíkir. NT gefur nokkur dæmi um núning á milli þeirra. Tvisvar sinnum segir Lúkasarguðspjall frá því að lærisveinarnir hafi rætt sín á milli hver þeirra sé mestur. Fyrst ræða þeir þetta í Lúk 9:46, seinna skiptið er Lúk 22:24. Það seinna er reyndar sérstaklega sorglegt því það gerist þegar Jesús er að borða seinustu máltíðina með þeim, nokkru áður en hann er handtekinn, pyntaður og tekinn af lífi. Þetta voru mennirnir sem höfðu verið með Jesú í 3 ár. Ef Jesús kallaði þessa menn til að vera lærisveina og þeir fóru svo og breyttu heiminum, fylltir af anda Guðs, af hverju ekki ég og þú? Sannarlega voru þessir menn mannlegir og breyskir eins og við öll. Jesús getur og vill breyta okkur öllum þegar við þorum að stíga inn í samfélag við hann og hvert annað.

Kross Jesú bendir til himins og á samfélag okkar við Guð. En krossinn er líka láréttur. Í krossinum eigum við fyrirgefningu og getum gefið hana áfram til fólksins í kringum okkur. Án þess að geta fyrirgefið öðrum væri alvöru samfélag við aðra ómögulegt. Þess vegna lagði Jesú grunninn að samfélagi okkar sem erum lærisveinar hans með því að fara á krossinn og gera fyrirgefningu mögulega.

Tilhneiging okkar er að sleppa samfélaginu þegar það verður erfitt. Ef okkur er alvara um að vera lærisveinar Jesú þá þurfum við að taka samfélagið við aðra alvarlega. Við þurfum að fylgjast með viðhorfi okkar til annara og vinna úr því með Jesú ef okkur skortir kærleika. Við þurfum að eiga einhverja að sem við treystum og getum opnað líf okkar með því þá erum við heiðarleg og þar er vöxtur okkar sem lærisveina.

Íhugun og framkvæmd

  1. Nefndu dæmi þar sem þú varst þakklát(ur) fyrir að eiga vini eða fólk sem stóð þér nærri og hvað það gerði fyrir þig.
  2. Hvernig myndir þú lýsa þeim áskorunum sem þú hefur tekist á við í samskiptum við vini og fólk sem stendur þér nærri? Hvað er erfitt og reynir á í því?
  3. Áttu einhvern að sem þú treystir nógu vel til að geta verið mjög heiðarleg(ur) og opin(n) við? Ef langt er liðið síðan þú áttir seinast slíkt samtal skaltu koma því í kring að það gerist fljótlega.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Óttast þú eigi, María

Skrifað af Dögg Harðardóttir. Posted in Pistlar

Þegar Gabríel engill var sendur frá Guði til Maríu til að opinbera henni heilaga köllun þá fór hann ekki húsavillt.

Guð vissi hvar hún bjó, hann vissi hvað hún hét og hann þekkti bæði fortíð hennar og framtíð. Þegar engillinn sagði: ,,Óttast þú ekki, María" þá vissi Guð að fjórum sinnum myndi hrikta verulega í tilveru Maríu. María fékk mörg tilefni til að óttast um drenginn sinn.

En Guð var við stjórnvölinn. Þegar engillinn hafði heilsað Maríu þá varð hún hrædd og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Hugsanlega skynjaði María á þeirri stundu sömu alvöru og hún átti eftir að upplifa þegar hún stóð við kross sonar síns og horfði á líf hans fjara út full vanmáttar.

Þegar engillinn sagði Maríu að óttast ekki var framtíðin henni hulin. En hún var ekki hulin Guði sem myndi eiga síðasta orðið.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú einhvern tímann misst sjónar á Jesú? Hvers vegna og hvaða afleiðingar hafði það?
  2. Hefur þú einhvern tímann ekki skilið hvaða leið Guð var að fara í lífi þínu? Hvenær og hvernig?
  3. Hvaða áhrif hefur það fyrir þig þegar Guð segir þér að óttast ekki?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dögg Harðardóttur predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi