Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Við þurfum orð og ljós

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ef þú setur orkumikið 5 ára barn inn í snyrtilegt herbergi mun óreiðan aukast hratt. Að lokum verður orðin alger óreiða í herberginu, ekkert þar sem það ætti að vera og barnið orðið úrvinda. Þetta er reyndar almenn regla í alheiminum: Allt rými, án utanaðkomandi áhrifa, hefur tilhneigingu til meiri óreiðu.

Það merkilega er að lífið hér á jörðinni fer í öfuga átt við þessa almennu reglu. Lífverur eru safn af stafrænum og skipulögðum upplýsingum, andstæða óreiðu. Lífverur eru orkubúnt eða toppar sem líka er í andstæðu við óreiðulögmálið því með vaxandi óreiðu jafnast orka út í alheiminum þangað til að lokum engir orku toppar eru lengur til heldur allt orðið flatt.

Í sköpunarsögu Biblíunnar sjáum við bæði óreiðu og upplýsingar.

1Mós 1:2-3 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.

Jörðin er í óreiðu ástandi en Guð sendi orð sín, upplýsingar, eins og öldur yfir jörðina og með hverri öldu batnar skipulagið og fjöldi tegunda á jörðinni eykst. Hver einasta tegund er bunki af vandlega skipulögðum stafrænum upplýsingum. Án þessara upplýsinga þá væri ekkert líf og ekkert skipulag á sköpunarverkinu. Jesús er fullkominn upplýsingaveita frá Guði. Einn besti vinur Jesú, Jóhannes, segir bókstaflega að Jesús sé orð Guðs:

Jóh 1:1-3 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. (2) Hann var í upphafi hjá Guði. (3) Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.

Koma Jesú í þennan heim er því hluti af þessu ferli Guðs að skapa heiminn og koma skipulagi á sköpunarverkið, móta það til góðs.

Þetta tengist mér og þér þannig að við þurfum upplýsingar. Við höfum spurningar eins og:

  • Hver er ég?
  • Hvaðan kem ég?
  • Hvert er ég að fara?
  • Hvers virði er ég? Er von?
  • Get ég þegið fyrirgefningu fyrir þetta sem ég gerði?

Þessar og fleiri til eru spurningar sem við þurfum svör við til að líf okkar hafi tilgang, virði og merkingu. Mörg okkar hafa líka upplifað óreiðu í lífi sínu. Þessi óreiða hefur margar birtingarmyndir: Fíkn, leti, samskiptaerfiðleikar, þunglyndi, veikindi ofl. Í stuttu máli þegar líf okkar er ekki að verka sem skyldi eða eins og við virðumst vera hönnuð til. Það sem við þurfum þá er orð og ljós frá Guði. Orð til að fá svör við þessum spurningum og ljós og kraft til að hrekja myrkrið út, sjá hvernig hlutirnir eru í raun og veru og stíga inn í þá framtíð sem Guð hefur fyrir okkur.

Jesús kemur með þetta orð og ljós frá Guði. Með því að snúa okkur til hans og sækjast eftir honum tekur hann að móta líf okkar og skipta óreiðunni út fyrir frelsi, frið og bjarta framtíð.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú upplifað Guð tala til þín þannig að óreiða víki fyrir skipulagi og friði? Segðu einhverjum frá ef þú ert í heimahóp eða næst þegar þú hittir góðan vin.
  2. Hversu mikið af orði Guðs hefur þú tekið inn í líf þitt með einhverjum hætti, t.d. hlusta eða lesa seinustu vikuna? Jesús sagði: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni. (Mat 4:4). Það eru til margar leiðir til að taka orð Guðs inn. Ein leið er að lesa alltaf orð Guðs um leið og þú borðar. Prófaðu þig áfram þangað til þú finnur hvaða leið verkar best fyrir þig.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

5 atriði sem Grimmsævintýrið um smaladrenginn kenndi mér um eilífðina

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Eitt af styttri Grimmsævintýrunum segir frá smaladreng sem verður þekktur fyrir hnyttin tilsvör og er í kjölfarið kallaður fyrir konung til að svara þremur heimspekilegum spurningum. Seinasta spurningin er: Hversu mörg augnablik eru í eilífðinni? Drengurinn svarar:

Í Suður Pommern er demantsfjall eitt, sem er míla á hæð, míla á breidd og míla á þykkt. Þangað kemur einu sinni á öld hverri lítill fugl og brýnir nef sitt á demantsklettunum. Þegar hann er búinn að eyða fjallinu upp til agna, þá er liðið fyrsta augnablik eilífðarinnar.

1. Eilífðin er lengri en svo að við getum skilið
Auðvitað er ekkert demantsfjall í Suður Pommern. Sem myndlíking hjálpar þetta okkur samt að skilja hversu löng eilífðin er. Fuglsnef er mýkra en demantur og því myndi fjallið aldrei eyðast upp. En þetta er svo myndrænt að hugur okkar hrífst með að íhuga hversu löng eilífðin er.

2. Fuglinn er lítill, fjallið er stórt
Góðar sögur og myndlíkingar hafa gjarnan andstæður. Rétt eins og við mannfólkið erum smá gagnvart eilífðinni þá er fuglinn smár gagnvart demantsfjallinu.

3. Fuglinn þarf að vernda
Ef fuglinn hyrfi, myndi þá eilífðin líða? Hvað yrði þá um framtíðina? Okkur ber að varðveita náttúruna, við erum ráðsmenn jarðarinnar. Ef við vanrækjum að varðveita vistkerfið þá vanrækjum við framtíðina.

4. Við þráum eilífðina
Drengurinn svarar eins og ekkert sé sjálfsagðra og fullur sjálfstrausts þó að svar hans sé augljóslega tilbúningur. Staðreyndin er hins vegar sú að flest fólk kannast við þá tilfinningu að dauðinn og skammvinnt líf séu aðskotahlutir í tilverunni. Innst inni sættum við okkur illa við dauðann, eins og hann sé óvinur eða óréttlæti sem passi ekki inn þrá okkar eftir betri veröld. Hvað ef þessi tilfinning er rétt? Hvað ef dauðinn raunverulega er aðskotahlutur í upphaflegri hönnun mannlegs lífs?

5. Eilífðin er áþreifanleg
Rétt eins og smaladrengurinn þá talar Jesús um eilífðina eins og raunverulegan stað. Munurinn er sá að ólíkt smaladrengnum þá er Jesús raunverulega persóna í mannkynsögunni og líf hans og upprisa breyttu gangi hennar. Við komumst ekki hjá því hvert og eitt að gera upp við okkur hvort Jesús var til og þá hver hann var (og er). Ef við kynnum okkur hvað Jesú sagði sjáum við að hann talar mikið um eilífðina.

Jóh 11:25 Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Jóhannes var náinn vinur Jesú. Hann skrifaði síðar:

1Jn 1:1-2 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. (2) Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur.

Jóhannes undirstrikar að Jesús var raunverulegur, þeir þreifuðu á honum. Í Jesú var eilífðin áþreifanleg og innst inni þrá allir menn einmitt að svo sé. Mitt í þessum brotna og laskaða heimi þráum við fullkomnleika. Og meira en það: Innst inni finnst okkur dauðinn óréttlátur aðskotahlutur sem eigi ekki heima hér á jörðinni. Fyrir 2000 árum fæddist Jesús sem lítið, vanmáttugt barn. Þegar Jesús snýr aftur í krafti verðum við kölluð fyrir hásæti konungsins rétt eins og smaladrengurinn var kallaður fyrir sinn konung. Spurningin sem konungurinn leggur fyrir okkur verður: Hvað gerðir þú við son minn Jesús?

Í Jesú gekk eilífðin um á jörðinni og með því að byggja okkar líf á honum munum við lifa eins og hann lifir. Til að byggja líf þitt á Jesú skaltu snúa hjarta þínu að honum og velja að treysta honum fyrir lífi þínu. Þetta er hægt að gera með einfaldri, einlægri bæn þar sem þú talar við Jesú með eigin orðum.

Að elska náungann og óvininn

Skrifað af Tómas Davíð Ibsen Tómasson. Posted in Pistlar

Ást, elska, kærleikur er eitt af þeim málefnum sem mönnum er hvað mest hugleikið á vesturlöndum í dag. Við sjáum það í dægurmenningu: tónlist, bíómyndum, auglýsingum, bókum, o.s.frv. Af hverju er það?

Hvað er svona merkilegt við kærleikann - hvað kennir Biblían okkur um kærleikann? Hún kennir okkur ótrúlega marga hluti þó ekki eingöngu kærleika Guðs til okkar heldur og hvernig okkur ber að elska náungann og jafnvel óvini okkar. Hvernig gerum við það?

Í fyrra Korintubréfi kafla 13 talar Páll um þá eiginleika sem kærleikurinn ber með sér:

(4) Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. (5)Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. (6)Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. (7)Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. (8)Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Á þessi upptalning við okkur öllum stundum? Að elska kostar okkur. Það kostar fyrirhöfn að elska og jafnvel stundum er það átak. Það að elska í raun er ekki eingöngu að sýna væntumþykkju og vinaþel þegar einstaklingurinn er elskulegur, heldur ber okkur einnig að elska þegar aðrir hegða sér jafnvel eins og fífl.

Í Filippíbréfinu 4. kafla býður Páll okkur að hugsa einnig um hag annarra. Það getur reynst okkur erfitt þar sem það er oft svo stutt í eigingirnina.

Í Matteusarguðpjalli 5:44 býður Jesús okkur að elska ekki eingöngu náungann heldur fer hann enn lengra og býður okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim.

Margir kunna að spyrja hvernig hægt sé að elska óvin sinn eða þá sem koma illa fram við mann? Biblían kemur með svarið við þeirri spurningu á sama stað „... og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.”

Þegar maður biður reglulega fyrir fólki og af einlægni þá er óhjákvæmilegt að fara að sjá það fólk með þeim augum sem Guð sér þau, einstaklingar sem eru dýrmætir í augum Hans.

Martin Luther King er ein af helstu mannréttindahetjum okkar tíma. Hann þurfti að berjast gegn öflum hatur með kærleikann að vopni. Hann sagði eitt sinn að kærleikurinn einn er þess megnugur að breyta óvin í vin.

Kæru vinir elskum Guð, virðum og elskum náungann og leyfum okkur að sjá hvert annað eins og Guð sér okkur, dýrmæt Guðs börn.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Tómas Davíð Ibsen Tómasson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi