Að elska náungann og óvininn

Skrifað af Tómas Davíð Ibsen Tómasson. Posted in Pistlar

Ást, elska, kærleikur er eitt af þeim málefnum sem mönnum er hvað mest hugleikið á vesturlöndum í dag. Við sjáum það í dægurmenningu: tónlist, bíómyndum, auglýsingum, bókum, o.s.frv. Af hverju er það?

Hvað er svona merkilegt við kærleikann - hvað kennir Biblían okkur um kærleikann? Hún kennir okkur ótrúlega marga hluti þó ekki eingöngu kærleika Guðs til okkar heldur og hvernig okkur ber að elska náungann og jafnvel óvini okkar. Hvernig gerum við það?

Í fyrra Korintubréfi kafla 13 talar Páll um þá eiginleika sem kærleikurinn ber með sér:

(4) Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. (5)Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. (6)Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. (7)Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. (8)Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Á þessi upptalning við okkur öllum stundum? Að elska kostar okkur. Það kostar fyrirhöfn að elska og jafnvel stundum er það átak. Það að elska í raun er ekki eingöngu að sýna væntumþykkju og vinaþel þegar einstaklingurinn er elskulegur, heldur ber okkur einnig að elska þegar aðrir hegða sér jafnvel eins og fífl.

Í Filippíbréfinu 4. kafla býður Páll okkur að hugsa einnig um hag annarra. Það getur reynst okkur erfitt þar sem það er oft svo stutt í eigingirnina.

Í Matteusarguðpjalli 5:44 býður Jesús okkur að elska ekki eingöngu náungann heldur fer hann enn lengra og býður okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim.

Margir kunna að spyrja hvernig hægt sé að elska óvin sinn eða þá sem koma illa fram við mann? Biblían kemur með svarið við þeirri spurningu á sama stað „... og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.”

Þegar maður biður reglulega fyrir fólki og af einlægni þá er óhjákvæmilegt að fara að sjá það fólk með þeim augum sem Guð sér þau, einstaklingar sem eru dýrmætir í augum Hans.

Martin Luther King er ein af helstu mannréttindahetjum okkar tíma. Hann þurfti að berjast gegn öflum hatur með kærleikann að vopni. Hann sagði eitt sinn að kærleikurinn einn er þess megnugur að breyta óvin í vin.

Kæru vinir elskum Guð, virðum og elskum náungann og leyfum okkur að sjá hvert annað eins og Guð sér okkur, dýrmæt Guðs börn.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Tómas Davíð Ibsen Tómasson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi