5 atriði sem Grimmsævintýrið um smaladrenginn kenndi mér um eilífðina

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Eitt af styttri Grimmsævintýrunum segir frá smaladreng sem verður þekktur fyrir hnyttin tilsvör og er í kjölfarið kallaður fyrir konung til að svara þremur heimspekilegum spurningum. Seinasta spurningin er: Hversu mörg augnablik eru í eilífðinni? Drengurinn svarar:

Í Suður Pommern er demantsfjall eitt, sem er míla á hæð, míla á breidd og míla á þykkt. Þangað kemur einu sinni á öld hverri lítill fugl og brýnir nef sitt á demantsklettunum. Þegar hann er búinn að eyða fjallinu upp til agna, þá er liðið fyrsta augnablik eilífðarinnar.

1. Eilífðin er lengri en svo að við getum skilið
Auðvitað er ekkert demantsfjall í Suður Pommern. Sem myndlíking hjálpar þetta okkur samt að skilja hversu löng eilífðin er. Fuglsnef er mýkra en demantur og því myndi fjallið aldrei eyðast upp. En þetta er svo myndrænt að hugur okkar hrífst með að íhuga hversu löng eilífðin er.

2. Fuglinn er lítill, fjallið er stórt
Góðar sögur og myndlíkingar hafa gjarnan andstæður. Rétt eins og við mannfólkið erum smá gagnvart eilífðinni þá er fuglinn smár gagnvart demantsfjallinu.

3. Fuglinn þarf að vernda
Ef fuglinn hyrfi, myndi þá eilífðin líða? Hvað yrði þá um framtíðina? Okkur ber að varðveita náttúruna, við erum ráðsmenn jarðarinnar. Ef við vanrækjum að varðveita vistkerfið þá vanrækjum við framtíðina.

4. Við þráum eilífðina
Drengurinn svarar eins og ekkert sé sjálfsagðra og fullur sjálfstrausts þó að svar hans sé augljóslega tilbúningur. Staðreyndin er hins vegar sú að flest fólk kannast við þá tilfinningu að dauðinn og skammvinnt líf séu aðskotahlutir í tilverunni. Innst inni sættum við okkur illa við dauðann, eins og hann sé óvinur eða óréttlæti sem passi ekki inn þrá okkar eftir betri veröld. Hvað ef þessi tilfinning er rétt? Hvað ef dauðinn raunverulega er aðskotahlutur í upphaflegri hönnun mannlegs lífs?

5. Eilífðin er áþreifanleg
Rétt eins og smaladrengurinn þá talar Jesús um eilífðina eins og raunverulegan stað. Munurinn er sá að ólíkt smaladrengnum þá er Jesús raunverulega persóna í mannkynsögunni og líf hans og upprisa breyttu gangi hennar. Við komumst ekki hjá því hvert og eitt að gera upp við okkur hvort Jesús var til og þá hver hann var (og er). Ef við kynnum okkur hvað Jesú sagði sjáum við að hann talar mikið um eilífðina.

Jóh 11:25 Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Jóhannes var náinn vinur Jesú. Hann skrifaði síðar:

1Jn 1:1-2 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. (2) Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur.

Jóhannes undirstrikar að Jesús var raunverulegur, þeir þreifuðu á honum. Í Jesú var eilífðin áþreifanleg og innst inni þrá allir menn einmitt að svo sé. Mitt í þessum brotna og laskaða heimi þráum við fullkomnleika. Og meira en það: Innst inni finnst okkur dauðinn óréttlátur aðskotahlutur sem eigi ekki heima hér á jörðinni. Fyrir 2000 árum fæddist Jesús sem lítið, vanmáttugt barn. Þegar Jesús snýr aftur í krafti verðum við kölluð fyrir hásæti konungsins rétt eins og smaladrengurinn var kallaður fyrir sinn konung. Spurningin sem konungurinn leggur fyrir okkur verður: Hvað gerðir þú við son minn Jesús?

Í Jesú gekk eilífðin um á jörðinni og með því að byggja okkar líf á honum munum við lifa eins og hann lifir. Til að byggja líf þitt á Jesú skaltu snúa hjarta þínu að honum og velja að treysta honum fyrir lífi þínu. Þetta er hægt að gera með einfaldri, einlægri bæn þar sem þú talar við Jesú með eigin orðum.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi