Besta fararnestið

Skrifað af Sigríður Halldórsdóttir. Posted in Pistlar

Nú þegar sumarið er í nánd og heimahópar og margt kirkjulegt starf er að fara í frí og margir eru að undirbúa langþráð sumarfrí, skulum við gæta þess að taka okkur ekki frí frá Guði.

Ég þekki það af eigin raun að hafa fjarlægst Guð hægt og rólega þar til ég hafði snúið baki við honum. Það gerðist þegar ég var ung og nýlega frelsuð. Ég hafði búið í nokkurn tíma á Ítalíu og fluttist svo til Spánar þar sem ég ætlaði að vera um óákveðinn tíma og læra spænsku. Ég sótti enga kirkju og engan kristilegan félagsskap. Þá var ég hætt að biðja og hafði kannski aldrei vanið mig á að lesa reglulega í Biblíunni.

Ég tók aldrei meðvitaða ákvörðun um að hætta að fylgja Guði, ég var bara ekki meðvituð um hvaða áhrif þetta andlega svelti myndi hafa á líf mitt. Ég lærði af þessu hve kristið samfélag og félagsskapur er mikilvægur fyrir mitt andlega líf, eins verður mér sífellt betur ljóst hversu mikilvægt það er fyrir anda minn að lesa orð Guðs reglulega.

Raunin er sú að hver dagur skiptir máli. Ef við einangrum okkur frá kristnu samfélagi og lesum orðið ekki reglulega fer okkar andlegi maður smátt og smátt að missa máttinn, og hann aðvarar mann ekki því hann er máttvana og í svelti.

Það getur verið barátta að hafa fyrir reglu að lesa daglega í orði Guðs. Ég verð að viðurkenna að ef ég á mjög annríkt, læt ég mér stundum nægja að hafa hann bara með mér í andanum og sleppi að lesa í orðinu. En í dag hef ég ákveðin atriði í huga til að minna mig á mikilvægi þess að lesa daglega í Biblíunni og langar mig að deila þeim með þér hér:

Í Jóh.1.1. segir: Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Að elska Jesú felur líka í sér að elska Biblíuna og vilja heyra hvað hann hefur að segja í dag.

Að vera í Jesú

Jóh. 14:7 segir: Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það. Ef ég vil vera í Jesú og ef ég vil meiri kraft í mitt líf, fleiri bænasvör og verða líkari Jesú, þá fylli ég mig af orði hans.

Biblían segir líka að orðið sé lifandi og kröftugt, og það er lækning í því. Það virkar eins og vítamín: besta virknin er dagleg inntaka. Og það er trúarstyrkjandi í leiðinni.

Jesús er brauð lífsins (Jóh. 6:48).

Ef ég vil láta stjórnast meira af andanum en af holdinu í dag, þá næri ég anda minn og les í orðinu í dag. Ég þarf á Jesú að halda í mínu daglega lífi. Rétt eins og ég þarf að nærast daglega til að fá styrk, þarf ég enn meira á hinu andlega brauði að halda til að minn endurfæddi maður fái að vaxa og styrkjast. Það getur verið spurning um líf eða dauða, andlega séð. Jesús segir sjálfur í Matt. 4:4 Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni. Og í raun ætti orð Guðs að vera okkur mikilvægara en okkar daglega fæða sem við getum ekki lifað án.

Gleymum því ekki að taka Biblíuna með okkur í fríið. Bjóðum Jesú með okkur í bústaðinn, tjaldvagninn eða utanlandsferðina og komum svo heim vel nærð og andlega hraust eftir góða hvíld og skemmtilegt sumarfrí.

Guð blessi þig í sumar!

Höfundur: Sigríður Halldórsdóttir

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi