Ekki flýja

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Spámaðurinn Elía er einn af þessum miklu guðsmönnum sem Biblían talar um en það var hann sem skoraði á 850 falsspámenn að sanna hver tryði á hinn sanna Guð með því að sá Guð sem myndi kveikja í fórn væri hinn sanni Guð. Falsspámennirnir báðu til sinna falsguða og ekkert gerðist en allmáttugur Guð kveikti í fórn Elía fyrir bæn hans. Það var líka Elía sem bað til Guðs að gefa rigningu eftir þriggja ára þurrkatímabil og það fór að rigna. En einungis sólahring eftir að Elía hafði upplifað þessi kraftaverk þá fyllist hann miklum ótta og flýði sökum þess að hann fékk þau skilaboð frá drottningu Ísraels að hún muni sjá til þess að hann yrði drepinn. Það var eins og hann gleymdi allt í einu að Guð var með honum, að hann var þjónn Guðs og sem slíkur undir verndarvæng hans. Elía flýði án þess að biðja eða ráðfæra sig við Guð og hann virðist hafa gleymt því að eina takið sem óvinurinn getur haft á Guðs fólki er tak ótta og hræðslu.

Sem Kristnir einstaklingar þá erum við undir verndarvæng Guðs en það getur komið fyrir, eins og með Elía, að Guð leyfi þær baráttur sem við lendum í vegna þess að Hann vill að þú lærir að standa gegn óvininum. Hann vill þjálfa þig í að standast. Þetta er allt liður í að undirbúa þig fyrir meiri þjónustu, meiri blessun og auka hæfileika þína í Guðs ríki. Guð er að styrkja þig gegn svikráðum óvinarins. Hann er að byggja upp trúaða sem hafa staðið gegn djöflinum og hafa styrk til að standa gegn honum. Einstaklinga sem þekkja vinnubrögð óvinarins og eru ekki hræddir við hann. En þegar óvinurinn fer á móti þér og þú finnur fyrir hræðslu þá þarft þú að hrista af þér hræðsluna í trú. Þú þarft að segja „Ég gefst ekki upp, Guð mun vernda mig og gefa mér það sem ég þarf. Hann mun nota mig“. Þú þarft að trúa því að Guð sé ekki hættur að nota þig, að Hann sé að kenna og þjálfa þig fyrir betri hluti? Guð vill tala við þig, kenna þér og segja hvað þú átt að gera og hvert þú átt að fara. Rístu upp og hristu af þér fjötra hræðslu og ótta. Rístu upp og treystu Guði og þú munt uppgötva að Guð er með þér og hefur áætlun fyrir líf þitt.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú mætt einhverju á trúargöngunni sem hefur hrætt þig og þú hefur ekki upplifað að Guð væri með þér?
  2. Hvað óttast þú mest að mæta á trúargöngu þinni?
  3. Finnst þér þú vera að vaxa sem trúaður einstaklingur?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi