Sannfæring um það sem ekki er hægt að sjá

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Það er ekki hægt að lifa án trúar. Trú er að treysta og það er ekki hægt að lifa sem manneskja án þess að treysta einhverju sem ekki er hægt að sanna vísindalega. Jafnvel þeir sem ganga harðast fram gegn trú á Guð lifa sjálfir í trú. Spurningin er aðeins hvað fólk trúir og treystir á. T.d. treystir fólk hvert öðru til að stofna fjölskyldu eða stofna fyrirtæki.

Það er því órökrétt að gagnrýna trú sem slíka því allir trúa á eitthvað. Það má hins vegar ræða hvort trú á Guð sé rökrétt eða ekki. Í dag eru það margir sem gagnrýna mjög trú á Guð og telja aðrar leiðir til að skilja lífið og tilveruna mun traustari og betri. Þetta er umræða sem við í Hvítasunnukirkjunni Selfossi viljum gjarnan eiga við fólk af skynsemi og gagnkvæmri virðingu.

Þeir sem sannfærast um það að Guð sé til gera stundum eitthvað sem guðleysingjum og þeim sem efast finnst óvenjulegt. Ef Guð er til þá er þetta einmitt það sem búast mætti við að gerist.

Tökum Nóa sem dæmi (1Mós 6). Á hans dögum var guðleysi almennt en trú á tilvist Guðs sjaldgæf. Nói átti hinsvegar sögu með Guði. Þeir þekktust. Guð tók ákvörðun um að það þyrfti að hreinsa til í heiminum vegna þess hversu megn illskan var. Hann bað Nóa um að byggja stórt skip, örk, til að bjarga þeim sem vildu bjargast. Fyrir guðleysingja var vægast sagt óvenjulegt að fylgjast með gömlum manni byggja stórt skip uppi á þurru landi. Svona getur sannfæring um tilvist Guðs breytt miklu um hvernig fólk lítur á hlutina.

Auðvitað var ekki hægt að sanna vísindalega að það kæmi flóð á dögum Nóa, fyrir utan það að það var ekki búið að finna upp vísindi. En þetta er einmitt kjarni málsins: Vísindi eða það sem hægt er að sjá og þreifa á eru ekki eina uppspretta þekkingar og sannfæringar í veröldinni. Ef svo væri myndi enginn gera nokkuð án þess að hafa fyrir því vísindalega sönnun (Heb 11:1).

Sannfæring um tilvist Guðs, trú á tilvist Guðs, getur breytt öllu um líf mitt og þitt á Íslandi í dag. Það að trúa á tilvist Guðs gerir það mun líklegra að heyra hvað Guð er að segja og sjá hvað Guð er að gera og þar með vera hluti af verki hans. Guð er eilífur og hans stóra áætlun er að endurreisa allt í syni sínum Jesú Kristi. Mér og þér er ætlaður staður í þessari áætlun (Heb 11:6).

 

Íhugun og framkvæmd

  1. Nefndu dæmi um hverju þú treystir án þess að geta sannað það vísindalega. Dæmi: Ef þú átt maka þá treystir þú trúmennsku hans/hennar án þess að geta sannað það vísindalega.
  2. Hvað finnst þér um opinbera umræðu um trú á Íslandi í dag? Er eitthvað sem ég og þú getum gert til að bæta umræðuna í okkar nærumhverfi?
  3. Hefur þú gert eða séð aðra gera óvenjulega hluti vegna trúar sinnar á Guð?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Chris Parker predika "Trú í verki".

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi