Gjafir eða græðgi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hvað er græðgi? Í stóru orðabókinni um íslenska málnotkun eru dæmin fégræðgi, matgræðgi, landagræðgi, valdagræðgi og lífsþægindagræðgi. Robert Morris sagði: Græðgi er að hafa allt sem þú þarft og vilja meira.

Í seríunni „Frelsið er yndislegt” skoðum við hvað getur skaðað frelsi okkar. Græðgi er eitt af því. Sá sem vill eyðileggja líf okkar, Satan, getur notað græðgi til að setja okkur í hlekki.

Jesús talaði um eignir og fjármál í 16 af þeim 38 dæmisögum sem eru í NT. Það hefði hann ekki gert nema af því að þetta er mikilvægt efni. Ein af þessum dæmisögum er í Lúk 12:13-21:

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum." (14) Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?" (15) Og hann sagði við þá: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé." (16) Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. (17) Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.' (18) Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. (19) Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.' (20) En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?' (21) Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."

Þetta „Seg þú bróður mínum…” í v13 minnir á barn sem segir „Mamma! Segðu Sigga að skila bílnum mínum!” Miðað við söguna sem Jesús segir í kjölfarið þá var þessi krafa um skipti arfsins knúin af græðgi. Jesús segir: Mitt verkefni er ekki að skipta eignum, mitt verkefni er að bjarga sál þinni.

Land ríka mannsins ber mikinn ávöxt (v16), greinilega meiri uppskera en gert hafði verið ráð fyrir. Vandamálið er hvar á að koma allri þessari uppskeru fyrir. Rökin eru að því meira af eignum og fjármunum sem hann eigi, því lengur og betur geti sál hans hvílt sig, etið, drukkið og verið glöð (v19). Eða í stuttu máli: Því meira gull => Því meiri sálarfriður. Jesús kallar þetta heimsku (v20).

Aðalmálið hér er sál ríka mannsins, ekki eignir hans. Guði er umhugað um sál hans og því hefði hann viljað sjá hann gefa af eigum sínum. Í staðinn verða eignir hans til þess að eyðileggja og binda sál hans. Hann valdi græðgi í stað gjafa og sál hans galt fyrir.

Okkur er falið að sjá um sál okkar en svo kemur að því að hún verður heimt af okkur og þá er spurt: Hvert er ástandið á sáli þinni? Hver er staðan á sál þinni? Það sem situr eftir eru ekki eignir heldur sál okkar. Sál okkar er það eina eilífa sem við höfum ráðsmennsku með. Með því að gefa reglulega forðum við því dýrmætasta sem við eigum undan græðgi: Sál okkar. Græðgi skaðar sál okkar og er opnar dyr fyrir óvininn.

Íhugun og framkvæmd

  1. Finnst þér erfitt að gefa? Ef svo er, hvað er það sem er erfitt við að gefa?
  2. Hvað finnst þér um það að sál þín sé það dýrmætasta sem þér hefur verið falin ráðsmennska með?
  3. Gott ráð til að forða sál okkar frá græðgi er að gefa reglulega og þannig að það telji. Hvað finnst þér um það og er eitthvað sem þú ætlar að gera öðruvísi í lífi þínu eftir að haga íhugað þetta efni?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi