Stormþétt líf

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég hef upplifað nokkur íslensk óveður. Það eftirminnilegasta skall á í febrúar 1992. Eiríkur á Gafli hringdi í pabba og sagði: „Hér er allt eins og eftir lofárás!” Vélaskemman hans Eiríks hafði bókstaflega tekist á loft í einni hviðunni og tæst í sundur svo brakið dreifist í allar áttir. Jafnvel skiltið heim að bænum hafði lagst út af í rokinu, ég tók mynd af því þegar við heimsóttum Eirík daginn eftir.

Stormþétt líf

Íslendingar vita að það koma óveður öðru hverju og byggja því yfirleitt sterk og traust hús. Skemman hans Eiríks hafði dugað mörg óveður áður en hún mætti ofjarli sínum í þessu ofsaveðri árið 1992. E.t.v. höfðu festingarnar við grunninn ryðgað í sundur eða skemman verið illa byggð í upphafi.

Líf okkar lenda líka í stormum og það getur blásið hressilega í óvæntum óveðrum. Það er erfiðara að spá fyrir um storma lífsins heldur en íslensku óveðrin.

Þetta vissi Jesús og hann notaði þessa líkingu um storma þegar hann útskýrði hversu mikilvægt það er að heyra ekki bara orð hans heldur bæði heyra og framkvæma. Þessa frásögn má finna í Mat 7:24-27.

Það er auðvelt að telja sér trú um að það sé nóg að vita hlutina, þá séum við með allt á hreinu. En það ER ekki nóg. Að heyra án þess að framkvæma er eins og að hræra í skúffuköku en setja hana aldrei í ofninn.

Sá sem er lærisveinn Jesú mun eignast stormþétt líf sem enginn jarðneskur stormur fær hróflað við, líf án ótta. Vilt þú eiga djúpa fullvissu um að ekkert geti raunverulega skaðað þig svo að það bíti?

Jesús meinti hvert einasta orð sem hann sagði. Hann ætlaði þessu ekki að vera falleg orð á bleikum skýjum heldur raunsönn lýsing á ástandi okkar og lausn á því: Að gerast lærisveinar hans. Þetta útheimtir í grunninn þrennt:

  1. Taka inn orð hans og æfa sig í að framkvæma þau.
  2. Leggja sig fram um í einhverri mynd að fleiri fái að kynnast Jesú.
  3. Gera þetta tvennt hér fyrir ofan í samfélagi með öðrum. Hleypa traustu fólki að lífi sínu, játa syndir sínar (Jak 5:16) og vinna að því saman að vera lærisveinar Jesú.

Stormþétt líf er í seilingarfjarlægð fyrir alla þá sem af fullri alvöru gerast lærisveinar Jesú. Hann er þetta bjarg sem ekkert jarðneskt fær hróflað við og hann sannaði það með því að rísa upp frá dauðum.

Ef þú vilt vita meira um það að vera lærisveinn hlustaðu þá á predikunina sem þessi pistill byggir á.

Íhugun og framkvæmd

  1. Lestu og rannsakaðu Mat 7:24-27. Skrifaðu niður allt sem er líkt við þessa tvo menn og svo það sem er ólíkt. Sem dæmi, þeir voru báðir að byggja (líkt), bæði húsin lentu í stormi (líkt).
  2. Mat 7:24-27 - Skrifaðu niður hvað Jesú segir um það þegar einhver heyrir orð Guðs, t.d. í predikun eða við lestur, en gerir ekkert með það í lífi sínu. Hvaða lýsingarorð notar Jesú um þann sem heyrir en framkvæmir ekki?
  3. Hefur þú tekist á við ótta og streitu í þínu lífi? Hvernig væri líf þitt öðruvísi ef það væri laust við ótta?
  4. Hér fyrir ofan er talið upp þrennt sem þarf að vera til staðar fyrir lærisveina. Þessu er nánar lýst í predikuninni. Hversu vel eru þessi 3 atriði til staðar í þínu lífi? Ef þörf er á, ert þú tilbúinn að bæta úr því sem vantar?

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið Ef þessi orð byggðu þig upp þá smelltu á Deila hér fyrir neðan til að fleiri byggist upp.

Stormþétt líf

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi