Allt vald er mér gefið

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég hef fullkomna stjórn á því hvernig sokka ég vel mér á morgnana. Öðru hef ég hins vegar oft lítið vald yfir eins og t.d. því ef við hjónin eigum að mæta einhversstaðar á tilteknum tíma!

Allt vald er mér gefið

Jesús sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því … (Mat 28.18b-19a)

Orðin „Farið því” vísa í þetta algjöra vald og í því umboði sendir hann lærisveina sína til að gera aðra að lærisveinum. En er þá eitthvað sem fylgjendur Jesú þurfa að gera ef Jesús ræður öllu og hefur allt vald? Getur hann ekki bara kippt í þá spotta sem þarf á meðan við setjumst í sófann með poppskál og Netflix?

Auðvitað hefði Guð getað hannað heim þar sem mennirnir væru strengjabrúður en Guð tæki allar ákvarðanir og framkvæmdi allt sem máli skipti. En það er ekki sá heimur sem við lifum í.

Í sköpunarsögunni (1Mós 1.26-28) fól Guð manninum að vernda og ríkja yfir jörðinni og þannig hefur það verið síðan. Þetta umboð mannsins til að drottna yfir jörðinni var svo sterkt skilgreint að við syndafallið færðist það yfir til óvinarins. Það sem Guð hafði gefið manninum umboð yfir færðist til Satans við syndafallið. Satan býður Jesú þetta umboð til að freista hans:

Lúk 4:6 Og djöfullinn sagði við hann: „Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.”

En Jesús vann þetta umboð til baka á krossinum. Þess vegna m.a. getur hann sagt „Allt vald er mér gefið....”

Peter Wagner skrifaði: Við þurfum að skilja að alvaldur Guð hefur af eigin ástæðum hannað heiminn þannig að mikið af því sem sannarlega er hans vilji hefur hann gert háð viðhorfum og verkum manna. Guð leyfir manninum að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á mannkynssöguna.

Við mennirnir erum því með ráðsmennsku yfir jörðinni í umboði og í valdi Krists. Eins og Guð sendi Jesú til jarðarinnar þá sendir Jesú okkur núna (Jóh 20.21).

Þegar Jesús segir okkur að fara og gera aðrar þjóðir að lærisveinum þá sannarlega er það á okkar ábyrgð og á okkar vakt. Þetta er mikil ábyrgð en jafnframt gríðarlegt tækifæri því við erum samverkamenn Guðs. Ef við biðjum af ástríðu og heilindum og fylgjum því eftir með verkum okkar og lífi mun Guð færa fjöll úr stað til að vilji hans með þjóðirnar verði að veruleika.

Íhugun og framkvæmd

  1. Nefndu dæmi um hluti sem þú hefur vald og ráðsmennsku yfir. Hlutir sem þú stjórnar. Ef þú gerir vel ganga þeir vel en ef þú tekur slæmar ákvarðanir þá fer illa.
  2. Var eitthvað í þessum pistli eða predikun sem fékk þig til að hugsa öðruvísi um hlutverk okkar í ríki Guðs?
  3. Eru einstaklingar sem þú þráir að taki trú á Krist? Ef þú ert í heimahóp þá takið tíma til að biðja fyrir þessum einstaklingum.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið

Allt vald er mér gefið

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi