Fallnir kristnir leiðtogar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ákvarðanir leiðtoga hafa afleiðingar. Það liggur í eðli þess sem forysta er. Ef forsætisráðherra Íslands gerir alvarleg mistök við stjórn landsins hefur það áhrif á alla landsmenn.

Adam var fyrsti leiðtoginn. Hann fékk það verkefni að gæta Eden og gefa dýrunum nafn (1Mós 2.15;19). Þegar Adam hafnaði Guði varð hann fyrsti leiðtoginn sem féll. Það fall hafði áhrif á allt það sem Adam hafði verið gefin forysta yfir. Róm 8:19-22 útskýrir að sköpunin er fallin vegna Adams og þráir að vera endurleyst í Jesú.

Fallnir kristnir leiðtogar

Góðir leiðtogar geta orðið til mikils góðs en sömuleiðis geta slæmir leiðtogar valdið miklum skaða.

Við á Íslandi höfum fengið drjúgan skammt af föllnum leiðtogum í kristnu starfi seinustu áratugi. Það eru dæmi um fjármálaóreiðu, framhjáhald, misnotkun, vanrækslu á hjónabandi, hjónaskilnaði, vanræksla á hvíld ofl. Listinn yfir kirkjur og kristið starf þar sem slíkt hefur hent er því miður of langur:

  • Vegurinn
  • Orð Lífsins
  • Frelsið
  • Byrgið
  • Hvítasunnuhreyfingin
  • Kaþólska kirkjan
  • Þjóðkirkjan
  • Krossinn

Því miður er þetta ekki tæmandi listi.

Það erfiða er að flest það fólk sem kemur við sögu átti tímabil það sem það náði árangri með þeim styrkleikum sem Guð hafði gefið þeim. En svo féll það. Þessi blanda af góðum og slæmum hlutum er svo skaðleg.

Sjálfur hef ég oftar en einusinni verið í aðstæðum þar sem skaðlegur leiðtogi var til staðar og ég hef átt mörg samtöl við fólk sem hafa gengið í gegnum slíka reynslu og eru enn að vinna úr því.

Hvað er hægt að gera til að verjast þessu? Þar má nefna ýmislegt en eitt það mikilvægasta er að allir leiðtogar sækist eftir því að hafa einhvern í lífi sínu til að halda sér við efnið og kalla sig til ábyrgðar. Stundum er þetta orðað með því að hafa einhvern í lífí sínu sem spyr persónulegra spurninga eins og hvernig gengur hjónabandið, fjármálin, tilfinningalífið, tímastjórnun, hvíld ofl. Þetta getur enginn þvingað á annan heldur er þetta eitthvað sem leiðtogar þurfa að sækjast eftir af eigin frumkvæði með því að finna einhvern sem þeir treysta og virða.

Ef þú hefur rökstudda vissu um að leiðtoginn í þinni kirkju sé óheilbrigður eða skaðlegur þá er ráð mitt þetta: Forðaðu þér. Notaðu fæturna og komdu þér í burtu. Að bíða og sjá getur valdið þér og fjölskyldunni miklum skaða. Þú getur alltaf komið aftur þegar málin hafa lagast. Það getur verið að Guð kalli einhverja til að vera um kyrrt og taka á málunum - en mitt ráð til fólks almennt er einfaldlega það að koma sér í burtu sem fyrst. Ef þú ætlar að vera áfram í slíkum aðstæðum þarftu að hafa afgerandi orð frá Guði. 

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Sál, Davíð og Absalon

Til umræðu eða íhugunar

  1. Þekkir þú dæmi um fallna kristna leiðtoga? Hvaða áhrif hafði þetta og hvernig hefur fólki gengið að vinna úr eftirmálum þess? Hvað hefur verið gagnlegt og hvað miður gagnlegt til uppbyggingar eftir skaðann?
  2. Hver er ábyrgð söfnuðar varðandi leiðtogum sínum og heilbrigði þeirra? Hvað geta söfnuðir gert til að hvetja leiðtoga sína til heilbrigðis og kalla þá til ábyrgðar um það? 
  3. Hvað er hægt að gera til að styðja við þá sem hafa skaðast af kristnum leiðtogum og eru enn í sárum?
  4. Hvað má læra um endurreisn fallina leiðtoga með því að íhuga viðbrögð Davíðs þegar Natan spámaður afhjúpaði synd Davíðs (2Sa 12)?

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi