Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Guðs er valdið

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Hvað myndir þú gera ef snákur skriði eftir stofugólfinu þegar þú kemur heim einn daginn? Þrátt fyrir að þú myndir teljast dýravinur er ólíklegt annað en að þú vildir losna við hann úr út húsinu. Ef hann yrði ekki fjarlægður myndi nærvera hans skerða frelsi þitt á heimilinu, þú yrðir að gæta þess að rekast ekki á hann til að verða ekki bitinn.

Sennilega eru flestir þeirrar skoðunar að vilja ekki hafa óværu í húsakynnum sínum, þegar þeirra er vart myndi meindýraeyðir vera kallaður til hið snarasta. Þeir sem búa í löndum þar sem snáka er að finna vita að þeir eru slóttugir og reyna gjarnan að lauma sér inn um opna glugga og dyr á húsum, því er mikilvægt að gæta vel að því að allt sé lokað.

Eins er það með okkar andlega líf og húsakynni, viljum við að þar sé óværa sem heftir frelsi okkar á einhvern hátt? Biblían er mjög skýr á því að barist er um líf okkar, að djöfullinn er raunverulegur og kemur aðeins til að stela, slátra og eyða.

Góðu fréttirnar eru þær að sá er meiri sem í okkur er en sá sem er í heiminum. Sigur yfir hinum vonda er nú þegar í höfn svo það er ekkert að óttast. Guð hvetur sitt fólk til að styrkjast í Drottni til að geta staðist vélabrögð djöfulsins.

Verst er að afneita tilveru hans, það gefur honum óhindrað færi og er líkt og opinn gluggi eða dyr inn í líf okkar. Mikilvægt er að finna jafnvægi hér á milli, ekki afneita honum en á sama tíma ekki vera ofur upptekin af honum heldur.

Jesú er góði hirðirinn sem gætir sauða sinn sem þekkja röddu hans frá öðrum röddum og láta ekki blekkjast. Það er mjög mikilvægt að við þekkjum röddu og karakter Guðs til að geta fylgt honum, það gerist aðeins með því að verja tíma með honum og dvelja í orði Guðs.

Íhugun og framkvæmd

  1. Er eitthvað í lífi þínu sem þú hefur ekki náð sigri yfir? Brestir sem þú dettur í aftur og aftur, nærð ekki tökum á?
  2. Hefur þú athugað markvisst hvort í þínu lífi reynist opinn gluggi eða hurð sem gefur óvininum greiða leið?
  3. Hvað er þú að gera til að þekkja röddu Jesú, góða hirðisins? Hversu vel finnst þér þú þekkja röddu hans?
  4. Hvað finnst þér um þær góðu fréttir að meiri er sá sem er í þér en sá sem er í heiminum? Hefur þú reynslu af því?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dagbjört Eiríksdóttir predika um efni þessa pistils.

Það sem á huga minn á líf mitt

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég hef alltaf haft áhuga á því að sjá líf mitt og annarra breytast til góðs. Frá því stuttu eftir að ég gafst Jesú hef ég þráð að líf mitt breyttist og yrði líkara hans. Ég hef þráð vöxt í lífi mínu þannig að það einkennist af kærleika og skapgerðarstyrk en sé laust við pirring og veikleika. Það fór mikið í taugarnar á mér að líf mitt færi upp og niður í stað þess að vaxa stöðuglega í kærleika Guðs.

Það voru einfaldlega vandamál innra með mér, vandamál sem héldu áfram að dúkka upp hér og þar. Ég tókst á við þessa spurningu: Hverning breytist fólk og hvernig get ég breyst?

Svo er það hjónabandið. Ef þú ert ein(n) og finnst lífið ganga nokkuð vel, þú ert með allt á hreinu og fá vandamál í samskiptum við annað fólk, prófaðu þá að gifta þig! Sjáðu hvernig gengur þegar þú býrð með öðrum einstakling sem sér allar þínar hliðar, líka þær dökku sem þú vilt ekki að nokkur sjái.

Ef Kristni er sönn þá erum við í grundvallaratriðum ófær um að breyta okkur sjálfum hjálparlaust. Jesús kom til að gera dautt fólk lifandi og gefa svo þeim sem fylgja honum líf í fullri gnægð.

Páll postuli útskýrir hvernig þetta virkar í þriðja kafla bréfs síns til kirkjunnar í Kólossu. 

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. (2) Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. (3) Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði. (Kól 3:1-3)

Páll segir að við eigum að velja hvað við hugsum um. Eitt það öflugasta sem við eigum er að geta valið hvað við hugsum um. Það sem fær mest rými í huga okkar mun móta líf okkar.

Veljum að setja traust okkar á Jesú með allt okkar líf, temjum okkur svo að láta huga okkar dvelja við hann og leitumst við að gera ekkert án þess að hugur okkar sé fyrst hjá Jesú, þá mun það móta líf okkar eins og Páll lýsir í Kól 3. Jesús fyrst og allt annað fylgir á eftir.

Íhugun og framkvæmd

Taktu þrjár min., þrjú næstu kvöld og skrifaðu niður það þrennt sem fékk mest pláss í huga þínum þennan daginn. Á degi 4. skaltu skoða listann og íhuga hvað fær mest rými í huga þínum. Fyrsta skrefið er að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Ef þú vilt gefa Jesú meira rými í huga þínum eru til fjölmargar leiðir til þess. Prófaðu ýmislegt og finndu út hvað virkar best fyrir þig. Hafðu samband ef þig vantar tillögur.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Jarðneskt líf með frábæra framtíð

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

„Ekkert er öruggt í heiminum nema dauðinn og skattar.” Orð eftir Christopher Bullock sem Benjamín Franklin gerði svo fræg.

Ég sem þetta skrifa er núna 42 ára gamall. Uppbyggingu æskunnar er lokið og við tekur hrörnun. Ég mun gera mitt besta til að halda líkama mínum hraustum og ef Guð lofar get átt hraustann líkama í tugi ára en einn daginn hættir líkaminn og virka og líf mínu hér á jörðinni lýkur.

Kannist þið við þetta vandamál að lifa eins og þetta skammvinna jarðlíf sé allt og sumt? Að hlaða undir sig og eiga virði sitt og sjálfsmynd í þessum líkama sem er ekki ætlað að bera slíkt uppi heldur er ætlað að hjálpa okkur að ljúka þessu ferðalagi og komast heim?

  • Unga konan sem notar útlitið til að tjasla upp á laskaða sjálfsmynd.
  • Hvað með miðaldra verkfræðinginn sem kaupir sér gullkeðju og sportbíl, skilur við konuna sína og kaupir sér ferð til Thailands?
  • 13 ára stúlkan sem málar sig á hverjum degi fyrir skólann, hefur áhyggjur af því alla morgna hvaða föt hún á að velja og kvíður því stöðugt hversu margir svara nýja snappinu hennar?

Um 22 árum eftir að Jesús var krossfestur skrifaði Páll postuli þetta í bréfi til kirkjunnar í Korintuborg:

Við vitum að þegar tjaldið sem við nú búum í, okkar jarðneski líkami, verður fellt, en það gerist þegar við deyjum, þá munum við fá nýja líkama á himnum, bústað sem endist okkur um alla eilíf. Sá bústaður verður ekki gerður af manna höndum, heldur af Guði sjálfum. (2Kor 5:1 Lifandi Orð)

Þessi nýji líkami á himnum verður líkami sem eldist ekki, hrörnar ekki og endist að eilífu. Jesús fékk svona líkama eftir upprisuna (sjá t.d. Jóh 20:20-30, Lúk 24:39-43).

Líkami okkar hér á jörðu er eins og tjald. Tjald er ekki endanlegur bústaður heldur það sem við notum til að komast á áfangastað, til að komast heim er það ekki?

Að byggja virði sitt og sjálfsmynd á þessum skammvinna líkama er eins og að grafa sér gröf í stað þess að undirbúa framtíðina.

Forðumst að treysta um of á líkama okkar en spyrjum okkur frekar með allt sem við tökumst á hendur: Hjálpar þetta mér að komast heim? Eða, hjálpar þetta öðrum að komast heim?

Íhugun og framkvæmd

  • Hvaða tilfinningar hefur þú gagnvart því að einn daginn hætti líkami þinn að virka og þú yfirgefir allt sem þér er kært hér á jörðu?
  • Páll segir í 2Kor 5:10 að allir muni koma fyrir dómstól Krists. Dómstóll er að stöðva allt illt. Ef þú kæmir fyrir dómstól Krists í kvöld, hvernig heldur þú að það uppgjör myndi koma út?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi