Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Að fara út með fagnaðarerindið

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Samkvæmt Biblíunni var Davíð maður eftir Guðs hjarta, en þrátt fyrir það þá varð honum illilega á. Hann féll í það að girnast og sofa hjá konu annars manns og til að hylma yfir þá lét hann drepa manninn. En hvað olli því að maður eftir Guðs hjarta féll svona svakalega?

Að fara út með fagnaðarerindið

Biblían segir að í stað þess að fara fyrir hernum í bardaga þá hafi Davíð setið heima hjá sér og látið aðra um að leiða herinn og í þeim kringumstæðum hafi hann fallið. Hlutverk Davíðs sem konungs var að fara fyrir og ef þjóðin var í bardaga þá átti hann að fara þar fyrir. En af einhverjum orsökum gerði hann það ekki og líklega var það hluti af ástæðunni fyrir því að hann féll.

En hvað með okkur sem kristnir einstaklingar? Við vitum að við þurfum að biðja og lesa og eiga samfélag við aðra kristna til að rækta trú okkar en hvað með það að segja öðrum frá?

Jesús var mjög skýr á því að við ættum að fara út segja öðrum frá honum! Davíð var í hernaði en það erum við líka, við erum í andlegum hernaði og til að við getum staðist þá þurfum við að segja frá. Ef við gerum það ekki þá verðum við eins og vatn sem bara flæðir í, sem staðnar og síðan fúlnar. Við getum ekki bara þegið, við verðum líka að gefa og við gefum með því að hlýða Jesú og fara út og segja öðrum frá.

Margir treysta sér ekki til að ræða fagnaðarerindið við aðra, sérstaklega ekki ókunnuga. En allir geta gert eitthvað, t.d. bjóða öðrum með sér á viðburð þar sem fagnaðarerindið er flutt með einhverjum hætti.

Íhugun og framkvæmd

  1. Í 2 Samúelsbók 11:1–2, segir að Davíð var í Jerúsalem þegar konungar fóru í hernað. Hann sendi Jóab í sinn stað. Af hverju er svo mikilvægt að fara út þegar við eigum að fara út? Hver er hættan ef við gerum það ekki?

  2. Lestu Lúkas 14:15–24.

    2a Hvað stendur veislan fyrir í dæmisögunni?

    2b Í þessari dæmisögu gerir Jesús það ljóst að engar afsakanir eru gildar varðandi að taka þátt í veislunni með honum. Hvaða afsakanir heyrir þú eða gefur varðandi að nálgast hann þegar hann kallar?

    3b Í dæmisögunni sendir konungurinn út þjóna sína til að ná í aðra til að taka þátt í veislunni. Hvaða skilaboðum vill Jesú koma á framfæri til þeirra sem trúa á hann með þessari dæmisögu? 

  3. Hvað hugsar þú þegar þú heyrir orðið að vitna? Er hugsunin jákvæð eða neikvæð? Af hverju?

  4. Hvað þýðir að vitna í raun og veru?

  5. Hvernig eigum við að segja öðrum frá trú okkar? Hvað virkar á Íslandi í dag og hvað virkar ekki?

  6. Ef einhver leitaði ráða hjá þér varðandi hvort Guð væri að ýta á hann að segja einhverjum frá Jesú, en hann væri ekki viss um að Guð væri að ýta á hann, hvað myndir þú segja?

    Biddu Guð að minna þig á einstakling sem Hann vill að þú talir við um Jesú. Biddu Hann um að þú sjáir þennan einstakling á sama hátt og Guð sér hann. Biddu Guð um visku til að vita hvenær þú eigir að fara út og fylgja Hans leiðsögn. Biddu Guð að leiðbeina þér hvernig þú getur sagt öðrum frá á þann hátt að hjarta þeirra verði opið fyrir Honum.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið

Allt vald er mér gefið

Allt vald er mér gefið

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ég hef fullkomna stjórn á því hvernig sokka ég vel mér á morgnana. Öðru hef ég hins vegar oft lítið vald yfir eins og t.d. því ef við hjónin eigum að mæta einhversstaðar á tilteknum tíma!

Allt vald er mér gefið

Jesús sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því … (Mat 28.18b-19a)

Orðin „Farið því” vísa í þetta algjöra vald og í því umboði sendir hann lærisveina sína til að gera aðra að lærisveinum. En er þá eitthvað sem fylgjendur Jesú þurfa að gera ef Jesús ræður öllu og hefur allt vald? Getur hann ekki bara kippt í þá spotta sem þarf á meðan við setjumst í sófann með poppskál og Netflix?

Auðvitað hefði Guð getað hannað heim þar sem mennirnir væru strengjabrúður en Guð tæki allar ákvarðanir og framkvæmdi allt sem máli skipti. En það er ekki sá heimur sem við lifum í.

Í sköpunarsögunni (1Mós 1.26-28) fól Guð manninum að vernda og ríkja yfir jörðinni og þannig hefur það verið síðan. Þetta umboð mannsins til að drottna yfir jörðinni var svo sterkt skilgreint að við syndafallið færðist það yfir til óvinarins. Það sem Guð hafði gefið manninum umboð yfir færðist til Satans við syndafallið. Satan býður Jesú þetta umboð til að freista hans:

Lúk 4:6 Og djöfullinn sagði við hann: „Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.”

En Jesús vann þetta umboð til baka á krossinum. Þess vegna m.a. getur hann sagt „Allt vald er mér gefið....”

Peter Wagner skrifaði: Við þurfum að skilja að alvaldur Guð hefur af eigin ástæðum hannað heiminn þannig að mikið af því sem sannarlega er hans vilji hefur hann gert háð viðhorfum og verkum manna. Guð leyfir manninum að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á mannkynssöguna.

Við mennirnir erum því með ráðsmennsku yfir jörðinni í umboði og í valdi Krists. Eins og Guð sendi Jesú til jarðarinnar þá sendir Jesú okkur núna (Jóh 20.21).

Þegar Jesús segir okkur að fara og gera aðrar þjóðir að lærisveinum þá sannarlega er það á okkar ábyrgð og á okkar vakt. Þetta er mikil ábyrgð en jafnframt gríðarlegt tækifæri því við erum samverkamenn Guðs. Ef við biðjum af ástríðu og heilindum og fylgjum því eftir með verkum okkar og lífi mun Guð færa fjöll úr stað til að vilji hans með þjóðirnar verði að veruleika.

Íhugun og framkvæmd

  1. Nefndu dæmi um hluti sem þú hefur vald og ráðsmennsku yfir. Hlutir sem þú stjórnar. Ef þú gerir vel ganga þeir vel en ef þú tekur slæmar ákvarðanir þá fer illa.
  2. Var eitthvað í þessum pistli eða predikun sem fékk þig til að hugsa öðruvísi um hlutverk okkar í ríki Guðs?
  3. Eru einstaklingar sem þú þráir að taki trú á Krist? Ef þú ert í heimahóp þá takið tíma til að biðja fyrir þessum einstaklingum.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið

Allt vald er mér gefið

Ekki gefast upp að biðja

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Við upplifum sjálfsagt öll að bænum okkar er ekki svarað strax og við sumum virðumst við alls ekki ætla að fá bænasvar. Við erum kannski að biðja fyrir að ástvinir okkar eða vinir frelsist en sjáum lítinn árangur.

Ekki gefast upp að biðja

Í 10 kafla Daníelsbókar er frásögn af því þegar Daníel fastar og biður í 21 dag í kjölfar þess að hann fær sýn varðandi miklar þrengingar sem skelfdu hann. Á 21 degi fær Daníel bænasvar þar sem engill birtist honum. Það sem er merkilegt er að engillinn segir Daníel að þegar hann hóf bænina þá kom bænin fram fyrir Guð og engillinn var sendur en sökum þess að hann var hindraður af illum anda þá komst engillinn ekki með svarið fyrr en 21 degi síðar.

Þessi frásögn ætti að vera hvatning fyrir okkur að gefast ekki upp að biðja. Jesús sagði að ef við lifum samkæmt hans vilja þá getum við beðið um hvað sem við viljum og okkur mun veitast það (Jóh 15:7) en hann sagði líka að við sumu fengist ekki bænasvar nema með bæn og föstu (Mat 17:21).

Við erum í andlegri baráttu þar sem við viljum vinna á móti því illa og okkar helsta vopn í þeirri baráttu er bænin. Ef við viljum að fólk frelsist, ef við viljum vinna á móti óréttlæti og myrkri þá er okkar helsta vopn bænin. En til að bænir okkar missi ekki marks þá þurfum við að lifa lífum okkar samkvæmt vilja Guðs.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú upplifað þegar þú hefur beðið fyrir einhverju ákveðnu að þú þyrftir að biðja í gegn og jafnvel fasta?
  2. Hefur þú upplifað að bænarefni sem þú hefur kannski lengi beðið fyrir að bænasvarið væri komið þrátt fyrir að þú sæir ekki merki þess en þú bara vissir að þetta væri komið?
  3. Hefur þú upplifað andlega baráttu, útskýrðu?

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir einfaldlega Daníel

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi