Frelsi frá fíkn og brestum

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Einstaklingar sem eru á valdi fíknar velja sumir að fara í 12 spora kerfi í von um lausn og margir sem vinna sporin af einlægni finna þar lausn. En það sem 12 spora kerfi kenna fólki er að ef það vill sjá breytingu í lífi sínu þá þurfi það að átta sig á og viðurkenna að það þarf hjálp, þau geta ekki breytt sér í eigin mætti en með hjálp æðri máttar geta þau losnað.

Þetta er sama vandamál sem við stöndum frammi fyrir ef við viljum vaxa sem kristnir einstaklingar, við getum ekki gert það í eigin mætti, við þurfum hjálp. Við þurfum Guðs hjálp til að losa okkur við brestina.

Fyrsta skrefið er að gefa líf sitt Jesú og biðja hann að fyrirgefa okkur syndirnar. Hann fyrirgefur okkur syndirnar og við upplifum að við erum frjáls. En þrátt fyrir það þá eru oft ýmsir brestir í lífi okkar sem geta hindrað okkar andlega vöxt. Þetta geta verið brestir eins og minnimáttarkennd, skapbræði, stjórnsemi, langrækni. Brestir sem eru ekki að hjálpa okkur í að verða þær manneskjur sem Guð hefur ætlað okkur að verða. Þess vegna þurfum við að vinna í því að losna við við brestina, við þurfum að eiga daglegt samfélag við Jesú þar sem við biðjum til hans og lesum í Biblíunni.

Við þurfum líka að fyrirgefa þeim sem hafa gert eitthvað á okkar hlut og við þurfum líka að sættast við þá sem við höfum brotið á (Kól 3:13; Matt. 5:23-24 ).

En við þurfum líka að hafa í lífi okkar einhvern einstakling sem við treystum og getum sagt frá syndum okkar (Jak 5:16) en Biblían segir að það sé svo að við getum verið frjáls. Ég var búinn að vera kristinn í 20 ár þegar ég áttaði mig á því að ég var að glíma við bresti sem voru ekki að hjálpa mér að verða betri maður og í kjölfarið fór ég í vinnu þar sem ég játaði syndir mínar fyrir trúnaðarvini sem ég treysti en ég vann líka markvisst í því að fyrirgefa þeim sem höfðu gert eitthvað á minn hlut. Einnig fór ég til einstaklinga sem ég hafði gert eitthvað gegn og bað þá að fyrirgefa mér. Ég hafði tekið á móti Jesú 20 árum áður. Þarna þar sem ég var rúmlega fertugur upplifði ég á þessum mánuðum, meðan ég vann markvist í þessu, meiri breytingu í mínu lífi til hins betra en ég hafði þessi 20 ár sem ég hafði trúað á Jesú.

Málið er að við verðum markvist að vinna að því að verða þær manneskjur sem Guð vill að við séum. Ef við gerum ekki neitt þá gerist ekki neitt. Í öllu sem við gerum, ef við viljum sjá árangur, verðum við að leggja eitthvað á okkur og þannig er það einnig með okkar trúargöngu ef við viljum ná einhverjum árangri þá kostar það vinnu af okkar hendi.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hvaða son í sögunni um týnda soninn tengir þú betur við (Lúk. 15:11-32)?
  2. Af hverju getum við átt erfitt með að viðurkenna bresti okkar?
  3. Í Jakobsbréfinu 5:16 er talað um að við eigum að játa syndir okkar hvert fyrir öðru. Hefur þú upplifað lækninguna sem kemur þegar maður játar fyrir annari persónu? Gætir þú sagt frá reynslu þinni af þessu?
  4. Óvinurinn vill hindra að við verðum þær manneskjur sem Guð vill að við séum. Ein leið sem hann notar er að fá okkur til að trúa lygi um hver við erum. Hvaða lygar geta það verið og hvernig losnum við undan þeim?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi