Mér hefur aldrei fundist gaman að lita í litabækur. Í grunnskóla fann einhver út að láta mig lita í litabækur til að þjálfa fínahreyfingar fyrir fallegri rithönd. Þetta var mér kvöl og pína. Ég minnist þess að hafa setið með litabókina á gólfinu inni í herbergi og grátbeðið Guð um að ég fengi að losna við litabókina.
Svona atburðir geta fylgt okkur inn í fullorðinsár og mótað upplifun okkar af atburðum löngu síðar. Vanmetakennd, depurð, reiði, ofát, stjórnsemi og svo mætti lengi telja. Algengast er að þeir sem þjást af svona hlutum séu mótaðir þannig af æskunni.
Þetta ætti ekki að vera svona og flestir sem þjást svona, og vita af því, vilja losna. Þeir sem þjást og valda sínum nánustu þjáningum, en vita ekki af því, eru svo á enn erfiðari stað. En það er til lausn og hún byrjar á því að gefa gaum að Jesú. Markmið Jesú er að fjarlægja alla illsku úr veröldinni og afleiðingar hennar, lagfæra það sem hefur farið aflaga.
Í upphafi þjónustu sinnar las Jesús þessi orð upp í samkunduhúsinu í Nasaret, þar sem hann ólst upp:
(18) Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa (19) og kunngjöra náðarár Drottins. Lúk 4:18-19
Í stuttu máli: Jesús kom til að lagfæra það sem fer úrskeiðis.
Sá sem er bandingi er bundinn, vill losna en getur það ekki af sjálfsdáðum. Þetta er fólkið sem Jesús vill leysa. Mikilvægasta atriðið í lausn Jesú er fyrirgefningin. Jesús er fær um að fyrirgefa okkur því hann tók allt sem hefur farið úrskeiðis í þessum heimi upp á krossinn þar sem má segja að það hafi látið lífið með honum. Jesús réttir okkur þessa fyrirgefningu og segir okkur svo að rétta hana áfram til þeirra sem hafa valdið okkur skaða. Pétur spurði Jesús einu sinni hversu oft ætti að fyrirgefa öðrum: “svo sem sjö sinnum?” Jesús svaraði sjötíu sinnum sjö og sagði svo sögu af þjóni sem var ekki tilbúinn að gefa upp skuld samborgara síns þó sjálfur hefði hann fengið gríðarlega háa skuld afskrifaða af hendi konungsins. Konungi var ekki skemmt:
„Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. (33) Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?" (34) Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum. (35) Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum. Mat 18:32b-35
Myndin sem er dregin upp er að vera varpað í fangelsi þar sem böðlar sjá um að valda föngunum þjáningu. Jesús er að segja: Ef þú ert ekki tilbúinn að fyrirgefa öðrum þrátt fyrir að hafa sjálfur þegið fyrirgefningu þá mun ófyrirgefningin varpa þér í fangelsi og hlekki sem valda þér þjáningum. Þér mun líða ömurlega þangað til þú iðrast, fyrirgefur og ert leystur.
Biðjum saman: Drottinn Jesús, þú er sannur læknir og huggari. Ég vil horfast í augu við hversskonar slæmar minningar, missi og særindi sem ég hef upplifað og hefur ekki verið fyrirgefið. Ég vil telja upp í ástæðurnar fyrir sársaukanum sem ég hef upplifað (teldu þetta upp eða sem er enn betra: Skrifaðu þetta niður). Þessa reynslu og særindi vil ég koma með til þín og leggja við fætur þína. Hjálpaðu mér að fyrirgefa. Jesús, þar sem hefur verið ófyrirgefning, gefðu að þar verði fyrirgefning núna. Ég vel núna að fyrirgefa hverjum þeim sem hefur gert mér illt og ég vel að sleppa tökunum á biturð og ófyrirgefningu. Ég vel líka að fyrirgefa sjálfum mér fyrir það skammarlega og ranga sem ég hef gert og meðtaka fyrirgefningu Guðs í gegnum Jesú Krist. Hvar sem óvinurinn hefur náð fótfestu í lífi mínu bið ég þig Jesú um lausn, byggða á þessari fyrirgefningu. Ég fel líf mitt í þínar hendur, í Jesú nafni, Amen.
Íhugun og framkvæmd
- Lestu Jes 61:1-4 Hvað í þessum versum uppörvar þig mest og hvers vegna?
- Hvers vegna er oft erfitt fyrir fólk að koma til Guðs og fá lækningu í það sem er laskað af fortíðinni? Hvað gerir það erfitt fyrir þig að koma til Guðs?
- Hefur einhver sært þig sem þú þarft að fyrirgefa? Það getur verið gott að skrifa þetta niður og biðja svo yfir því með bæn svipaðri þeirri sem er hér fyrir ofan.
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.